Lofttegund | Mars | Jörðin |
Súrefni (O2) | 0,13% | 21,00% |
Koltvísýringur (CO2) | 95,00% | 0,03% |
Nitur (N2) | 2,70% | 78,00% |
Aðrar (námundun) | > 2,00% | < 1,00% |
Landmassar Jarðar og Mars eru svipaðir að flatarmáli. Höf og vötn þekja hinsvegar um 70% af yfirborði Jarðar meðan ekkert vatn hefur fundist á yfirborði Mars.
Þegar Lovelock beindi sjónum sínum frá Mars og að hinni systurreikistjörnu Jarðar, Venusi, reyndist lofthjúpur hennar því sem næst nákvæm eftirmynd af Mars. Koltvísýringur var ráðandi (98%) en súrefni fannst einungis sem snefilefni (í enn minna mæli en á Mars). Hvernig stóð þá á því að hið hvarfgjarna súrefni svífur í ríkulegu magni um lofthjúp Jarðar sem ein af ráðandi lofttegundunum? Á því er ekki til einföld efnafræðileg skýring. Það sem skýrir sérstöðu lofthjúps Jarðar, bendir Lovelock á, er lífið sjálft. Lífið er það ferli sem snýr efnafræðilegri tilhneigingu súrefnis við og varpar því til baka rétt eins og hlut sem áður var kyrrstæður, en er nú lyft af Jörðinni. Þetta ferli rýfur súrefni úr efnatengslum með svokallaðri ljóstillífun. Blaðgræna plantnanna tekur sér súrefni úr koltvísýringi loftsins og vatni jarðvegsins og varpar því út í andrúmsloftið, þvert gegn tilhneigingu efnisins. Við það myndast „stöðugt ójafnvægi“ (e. stable disequilibrium) því súrefnið leitast strax við að hvarfast. Súrefnisframleiðslan helst hins vegar í hendur við súrefnisbindinguna, þannig að hringrásin sjálf helst í jafnvægi. Þetta jafnvægi er aftur á móti ekki dautt eins og á Venusi og Mars, heldur síkvikt. Magn súrefnis í andrúmslofti er í raun með mesta móti. Ef það væri nokkrum prósentum meira yrði ólíft með öllu á Jörðinni vegna stöðugs bruna (enda hvarfgjarnt efni með eindæmum). Þessar nákvæmu kjöraðstæður sem ríkja við súrefnisframleiðslu og -bindingu eiga einnig við um aðra umhverfisþætti eins og til dæmis saltmagn sjávar og hitastig lofthjúpsins. Frá því líf kviknaði hefur útgeislun sólar aukist um allt að 40% og salt stöðugt borist til sjávar með árframburði. Þrátt fyrir þetta hefur saltmagn sjávar og hitastig lofthjúpsins á sama tíma haldist stöðugt. Þá staðreynd, að þetta fínstillta jafnvægi helst betur en ætla mætti, útskýrir Lovelock sem afrakstur lífsins á Jörðinni sem með virkum hætti hefur í tímans rás mótað sér heppilegt umhverfi. Nákvæmari útlistun á þessu jafnvægisspili lífmassans er að finna í bók sem Lovelock gaf út árið 1979 undir nafninu Gaia: A New Look at Life on Earth.
Gaia er í raun annað nafn á Jörðinni vegna þess að Lovelock var farinn að sjá reikistjörnuna fyrir sér í nýju ljósi; sem heilsteypta veru sem jafnar út óæskilegar sveiflur og græðir eigin sár - rétt eins og lífvera sem viðheldur sjálfri sér sem lengst. Nafnið, sem vísar í grísku frjósemisgyðjuna, fékk hann frá nágranna sínum, Nóbelsverðlaunarithöfundinum William Golding. Sú hugmynd Lovelocks að Jörðin sé lífvænleg fyrir tilstuðlan lífsins sjálfs mætti talsverðri mótspyrnu á þeim tíma þegar hún var fyrst reifuð seint á áttunda áratugnum. Ekki var nóg með að hún virkaði ævintýraleg og goðsagnakennd, heldur þótti hún óvísindaleg í meira lagi þar sem erfitt væri að sanna hana með tilraunum. Jafnframt var því haldið fram að fínstilling á lífvænleika Jarðar krefðist útsjónarsemi, fyrirhyggju og tilgangsmiðaðrar starfsemi sem lífmassi Jarðar hefði ekki til brunns að bera. Lovelock svaraði þeim mótbárum vísindamanna með stærðfræðilegu tölvulíkani sem sýndi fram á hvernig margbreytileiki lífhjúpsins gæti lagað sig að breyttum aðstæðum (hitasveiflum, breytingum á ljósmagni og fleiru) og stuðlað í leiðinni sjálfkrafa að mótvægi við óæskilegar sveiflur lofthjúpsins, án þess að til þyrfti að koma sérstök meðvitund um æðri tilgang. Tölvulíkanið kallaði Lovelock Daisyworld og útlistaði hann það í annarri bók sinni (Ages of Gaia: A Biography of our Living Earth, 1988) er kom út nokkru seinna. Með þeirri bók má segja að hugmyndin hafi þróast úr tilgátu í prófanlega kenningu.
- Lovelock, J.E. 1979. Gaia: A New Look at Life on Earth. Oxford University Press.
- Lovelock, J.E. 1988. The Ages of Gaia: A Biography of our Living Earth. Oxford University Press.
- Gaia Hypothesis.
- Gaia Theory: Science of the Living Earth.
- Cosmic Ancestry: Gaia.
- Gaiaguys: The Earth as a Living Organism.
- John Muir Redwoods National Monument.
- Heildræn sýn á Jörðina, heimasíða höfundar þar sem finna má BA-ritgerð hans og frekari íhuganir um Gaiakenninguna.