Ætt | íslenskt heiti samkvæmt Íslenskri málstöð |
Fringillidae | finkuætt |
Carduelidae | þistilfinkur |
Emberizidae | tittlingaætt |
Estrildidae | strildi |
Ploceidae | vefaraætt |
Sönnum finkum (Fringillidae) er skipt niður í tvær undirættir. Sú fyrri er Fringillinae en henni tilheyra aðeins þrjár tegundir. Þær næra unga sína á skordýrum ólíkt tegundum hinnar undirættarinnar sem næra þá á fræjum. Dæmi um tegund innan þessarar undirættar er bókfinkan (Fringilla coelebs) sem er algengasta finkan í Evrópu. Einstaklingsfjöldinn er mjög mikill og telur eflaust margar milljónir fugla um gjörvalla Evrópu og í vestasta hluta Asíu. Bókfinkur eiga sér kjörlendi á opnum svæðum, ökrum og görðum. Þær byggja sér hreiður í trjágreinum og þekja það að utan með mosatætlum og fléttum. Þannig gera bókfinkurnar hreiðrið minna áberandi fyrir en margir vargfuglar eiga það til að ræna eggjumþeirra. Bókfinkur verpa að meðaltali 6 eggjum í hreiðrið. Þær eru algengir flækingar hér við land og hafa orpið á Íslandi. Syðst á útbreiðslusvæði sínu halda bókfinkurnar til allan ársins hring en á nyrstu svæðunum, þar með talið í Svíþjóð, fara kvenfuglarnir suður á bóginn á meðan karlfuglarnir þreyja þorrann. Hin frægi sænski náttúrufræðingur, Carolus Linnaeus (Carl von Linné), tók eftir þessu og gaf bókfinkunni fræðiheitinu Fringilla coelebs en „coelebs“ þýðir á latínu „piparsveinn“. Önnur tegund sem vert er að minnast á er bláa bókfinkan (Fringilla teydea).
Hin undirætt sannra finka er Carduelinae en þar er að finna margfalt fleiri tegundir, 137 talsins. Nefna má þekktar tegundir vinsælla búrfugla eins og til dæmis kanarífugla (Serinus canaria). Fleiri tegundir eru vel kunnar, eins og krossnefur (Loxia curvirostra), fjallafinkan (Fringilla montifringilla) og rósafinkan (Carodacus erythrinus) en allar þessar tegundir hafa flækst hingað til lands og sumar orpið hér. Innan þessarar undirættar telur ættkvíslin Serinus flestar tegundir, alls 41. Kanarífuglar eru eflaust kunnasta finkutegundin hér á landi. Þeir lifa villtir á eyjunni Madeira og á nokkrum Kanaríeyjum á Atlantshafi. Kjörlendi þeirra er aðallega kjarrlendi og önnur hálfopin svæði. Villtu fuglarnir eru gulir en hafa meira af gráum og brúnum fjöðrum í fjaðrahaminum en ættingjar þeirra sem hafa verið hafðir í búrum kynslóðum saman. Búrfuglarnir eru mun litríkari og ýmis litaafbrigði hafa verið ræktuð fram, allt frá skærgulum til appelsínugulra og jafnvel þekkjast bleik afbrigði. Áður fyrr voru kanarífuglar mikið notaðir meðal námamanna. Þessir smáu fuglar þoldu, eins og gefur að skilja, mun minna magn af banvænum lofttegundum eins og til dæmis kolsýringi (CO) sem hafði tilhneigingu til að leka inn í námagöngin. Ef fuglarnir drápust, var það vísbending um að hættulegar lofttegundir væru fyrir hendi og námaverkamennirnir gátu komið sér úr göngunum áður en þeir hlutu bana af. Frægastur allra kanarífugla er án efa teiknimyndafígúran Tweety.
- Peter Clement. 1999. Finches and sparrows: an identification guide. Christopher Helm, London.
- Icons of Evolution? The story of "Darwin's" finches.
- Greinin "finch" á vefsetri Encyclopædia Britannica.
- Découvrons les oiseax!
- Robirda Online.
- Art.com.