Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Efnajöfnur eru notaðar til að lýsa þeim breytingum sem verða í efnahvörfum, það er að segja þegar tiltekin efnasambönd breytast í önnur. Sem dæmi getum við tekið óstöðugu sameindina N2O5 sem brotnar niður í NO2 og O2 við herbergishita. Þessu má lýsa með efnajöfnunni:
N2O5 --> NO2 + O2
Þar sem N2O5 brotnar niður er það kallað hvarfefni en NO2 og O2 myndast og eru því myndefni.
Gallinn við þessa efnajöfnu er hins vegar sá að hún er ekki stillt. Efnajafna er sögð vera stillt ef sami fjöldi frumeinda hvers efnis er í hvarfefnum og myndefnum. Við sjáum að í jöfnunni okkar eru tvær niturfrumeindir vinstra megin en aðeins ein hægra megin. Þá eru fimm súrefnisfrumeindir vinstra megin en aðeins fjórar hægra megin.
Til að stilla efnajöfnuna þurfum við að setja stuðla við sameindirnar þannig að fjöldi frumeinda standist á. Stuðlana má finna með umhugsun eða með því að prófa sig áfram. Við notum síðari aðferðina hér og prófum að margfalda fyrri liðinn í hægri hlið jöfnunnar með 2:
N2O5 --> 2 NO2 + O2
Nú eru tvær niturfrumeindir beggja vegna örvarinnar. Súrefnisfrumeindirnar eru hins vegar enn ójafnar, fimm vinstra megin en sex hægra megin. (Athugið að stuðullinn 2 nær yfir alla NO2 sameindina og því fjórar súrefnisfrumeindir þar.) Næsta tilraun:
2 N2O5 --> 4 NO2 + O2
Nú er fjórar niturfrumeindir og tíu súrefnisfrumeindir beggja vegna örvarinnar. Efnajafnan er nú stillt.
Oft þarf margar tilraunir til að finna rétta stuðla með þessari aðferð, sérstaklega ef við fáumst við flóknari efnajöfnur.
Heimildir:
Mahan, Bruce M. og Myers, Rollie J., University Chemistry, 4. útg., Menlo Park, California: The Benjamin / Cummings Publishing Company Inc.
Einar Örn Þorvaldsson. „Hvernig skrifar maður og stillir efnajöfnu?“ Vísindavefurinn, 17. nóvember 2003, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3863.
Einar Örn Þorvaldsson. (2003, 17. nóvember). Hvernig skrifar maður og stillir efnajöfnu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3863
Einar Örn Þorvaldsson. „Hvernig skrifar maður og stillir efnajöfnu?“ Vísindavefurinn. 17. nóv. 2003. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3863>.