Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju eru pylsur seldar 10 saman í pakka en pylsubrauð bara 8?

Gylfi Magnússon

Þetta er um margt áhugaverð spurning en áður en hafist er handa við að svara henni er rétt að benda á að fullyrðingin sem spurningin byggir á er röng, að minnsta kosti ef miðað er við Ísland. Þetta er einfalt að sjá með því að fara í næstu nýlenduvöruverslun og skoða þar framboð á pylsum og pylsubrauðum. Svarandi sannreyndi þetta bæði í lágverðsverslun (Krónunni) og stórmarkaði (Nóatúni). Á báðum stöðum voru pylsubrauð eingöngu seld fimm saman í pakka og pylsur ýmist fimm eða tíu í pakka. Nokkrir framleiðendur fundust á pylsum en einungis einn á pylsubrauðum, Myllan.

Þótt þessi rannsókn byggi á helst til litlu úrtaki til að hægt sé að fullyrða um framboð á pylsum og pylsubrauðum á landinu öllu og vitaskuld ekki hægt að útiloka á grundvelli hennar að einhvers staðar hérlendis finnist verslun sem selur átta pylsubrauð í pakka þá virðist það að minnsta kosti ekki vera reglan. Ef almennt gildir að Íslendingar borða ekki pylsur nema í brauði og ekki pylsubrauð eitt og sér þá fer vitaskuld vel á því að selja annars vegar fimm pylsubrauð saman og hins vegar ýmist fimm eða tíu pylsur saman í pakka. Þessir viðskiptahættir henta líka ágætlega þeim Íslendingum, ef einhverjir eru, sem borða pylsur án brauðs eða pylsubrauð án pylsa, þeir kaupa þá bara aðra afurðina.

Fyrst þetta liggur fyrir virðist fljótt á litið vart brýn þörf á að svara upphaflegu spurningunni. Nánari skoðun leiðir hins vegar í ljós að þetta er mjög athyglisverð spurning þótt markaðurinn fyrir pylsur og brauð á Íslandi sé að því er virðist ágætlega skilvirkur, að minnsta kosti hvað samræmi í pakkastærðum snertir. Eftir því sem næst verður komist veldur ósamræmi í stærð pylsupakka og pylsubrauðapakka Bandaríkjamönnum hins vegar talsverðu hugarangri og líklega á spurningin rætur sínar að rekja til þess. Þeir sem séð hafa kvikmyndina Father of the Bride, með Steve Martin í aðalhlutverki, muna ef til vill eftir atriði í myndinni þar sem leikarinn gengur berserksgang í stórmarkaði, rífur þar upp pakkningar af pylsubrauðum í tilraun til að fá réttan fjölda af brauðum og segist neita að greiða fyrir pylsubrauð sem hann hefur enga þörf fyrir. Fleiri Bandaríkjamenn hafa látið ósamræmi á milli fjölda pylsa og pylsubrauða í pakka angra sig, svo margir að þarlend Landssamtök pylsu- og bjúgnaframleiðenda, National Hot Dog and Sausage Council, sjá ástæðu til að útskýra þetta sérstaklega á heimasíðu sinni.

Þar kemur fram að allt fram til ársins 1940 hafi pylsur ekki verið seldar margar saman í pakka, líkt og nú tíðkast, bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi, heldur eftir vigt hjá kjötkaupmönnum. Þegar tekið var að selja margar saman í pakka varð algengast að bjóða um það bil eitt pund af pylsum í einu sem alla jafna leiddi til þess að átta eða tíu pylsur voru settar saman í pakka. Þess má geta að eitt pund er 453,6 grömm en við fyrrnefnda könnun á íslenskum pylsum kom í ljós að tíu íslenskar pylsur eru alla jafna um það bil 550 grömm. Ef Bandaríkjamenn hafa tíu pylsur í pundinu eru þarlendar pylsur léttari en íslenskar en ef átta pylsur eru í pundi vestanhafs þá eru þær nokkurn veginn jafnþungar og íslenskar pylsur. Fyrrnefnd landssamtök segja að enn tíðkist ýmist að selja pylsur átta eða tíu saman í pakka og má því væntanlega rekja það helst til þyngdarinnar, það er þessi fjöldi pylsa gerir um það bil eitt pund og í Bandaríkjunum tíðkast að mæla magn af kjöti í fjölda punda.

Skýringin á fjölda pylsubrauða í pakka virðist hins vegar liggja í framleiðslutækninni. Pylsubrauð voru lengst af bökuð í formum sem tóku átta brauð hvert. Þótt nú séu til form sem taka tíu eða tólf brauð er enn algengast að baka átta í einu. Þess má geta í þessu samhengi að algengt er í Bandaríkjunum að selja bakaðar vörur, til dæmis kleinuhringi, brauðbollur og þess háttar, í tylftum eða hálfum tylftum, það er tólf eða sex saman í pakka. Það er að því leyti skynsamlegra en að selja til dæmis fimm eða tíu saman að það er mun auðveldara að skipta tólf kleinuhringjum en tíu. Tólf kleinuhringjum má til dæmis skipta þannig að:
  • tólf fái einn hring hver
  • sex fái tvo hver
  • fjórir fái þrjá hver
  • þrír fái fjóra hver
  • tveir fái sex hver
  • einn fái þá alla
Tíu kleinuhringjum er hins vegar ekki hægt að skipta jafnt án þess að skera þá í hluta nema þannig að:
  • tíu fái einn hver
  • fimm fái tvo hver
  • tveir fái fimm hver
  • einn fái þá alla
Það er því hægt að skipta tólf kleinuhringjum jafnt á sex vegu en tíu kleinuhringjum einungis á fjóra vegu.

Þessi forsaga útskýrir hvers vegna upphaflega var tekið að selja annars vegar tíu pylsur saman og hins vegar átta pylsubrauð saman en eftir stendur vitaskuld spurningin um það hvers vegna ekki hefur tekist á sextíu árum að samræma fjöldann.

Framleiðendur á annars vegar pylsum og hins vegar pylsubrauðum hafa engan sérstakan hag af því að misræmi sé á milli fjölda í pakkningu og raunar virðast þeir einfaldlega hafa þá stefnu að bjóða þær stærðir á pakkningum sem seljast best. Á heimasíðu stærsta pylsuframleiðandans í Bandaríkjunum, Oscar Mayer, er þannig tekið fram að fyrirtækið framleiði pylsur í sex, átta og tíu stykkja pakkningum og láti verslunum alfarið eftir að velja hvaða pakkningar þær panta.



Úr hve mörgum pylsupökkum komu þessar pylsur, a) ef tíu pylsur eru í pakka, b) ef átta pylsur eru í pakka? Rétt svör má senda á þetta netfang. Í fyrstu verðlaun er pylsupakki.

Tvær skýringar virðast líklegastar á því að enn er misræmi á milli fjölda pylsa í pakka og fjölda pylsubrauða í pakka. Önnur þeirra er að Bandaríkjamenn geri dálítið af því að borða pylsur án þess að setja þær í pylsubrauð. Ef fimmta hver pylsa er snædd með þeim hætti fer ekkert illa á því að selja saman annars vegar tíu pylsur og hins vegar átta pylsubrauð. Hin skýringin er að hér takist á tvær stefnur eða staðlar. Önnur stefnan er þá að selja saman í pakka annars vegar átta pylsur og hins vegar átta pylsubrauð. Hin stefnan er að selja saman tíu pylsur eða tíu pylsubrauð. Ef hvorug stefnan hefur svo afgerandi kosti að hún nái að ganga af hinni dauðri geta þær þrifist þær báðar hlið við hlið, með þeim afleiðingum að neytendur geta vel lent í því að standa einungis til boða pylsupakkar samkvæmt annarri stefnunni og pakkar af pylsubrauðum samkvæmt hinni.

Þetta kann að virðast undarlegt jafnvægi, þar sem tveir ósamrýmanlegir staðlar lifa góðu lífi á sama markaði, en finna má margar hliðstæður. Lengi vel kepptu til dæmis tveir staðlar í myndböndum, Beta og VHS. Þá gátu neytendur auðveldlega lent í því að kvikmyndin sem þeir höfðu áhuga á var ekki til á því sniði sem hentaði myndbandstækinu þeirra eða þeir gátu ekki fengið auða spólu af réttri tegund. Nýlegra dæmi er skrifanlegir DVD diskar, til eru tveir staðlar fyrir þá og þangað til annar gengur af hinum dauðum geta notendur lent í því að fá ekki keypta diska af réttum staðli. Keppnin á milli Windows, Apple og Linux er annað dæmi, forrit fyrir eitt þessara stýrikerfa keyra alla jafna ekki á tölvum sem nota eitt hinna stýrikerfanna.

Oftast enda svona staðlastríð með því að einn staðall verður ofan á og keppinautarnir fara á öskuhauga sögunnar en það er þó ekki alltaf raunin. Sem dæmi má nefna að í heiminum aka menn ýmist vinstra megin eða hægra megin á vegum. Hvorug venjan hefur augljósa kosti framyfir hina, það eina sem skiptir máli er að menn fylgi ekki sitthvorri venjunni á sama vegi á sama tíma. Fyrir vikið þrífast þær báðar ágætlega, þótt væntanlega væri hagkvæmara fyrir heiminn allan ef menn hefðu í upphafi bílaaldar (eða fyrr því að reglur um að víkja til hægri eða vinstri á hverjum stað mótuðust löngu fyrir þann tíma) komið sér saman um að nota bara aðra þeirra.

Svipaða sögu má segja um sjónvarpsmerki, þar keppa einkum tveir staðlar, PAL og NTSC (og nokkur afbrigði) þótt betra væri fyrir alla að hafa bara einn staðal. Ef heimsbyggðin öll ætti nú að taka upp einn staðal fyrir sjónvarpsmerki, til dæmis PAL (sem er tæknilega fullkomnari staðall en NTSC), þyrfti að henda öllum sjónvarpstækjum og útsendingarbúnaði og endurúthluta tíðnum í þeim löndum sem nota NTSC. Því myndi fylgja slíkur kostnaður að engar líkur eru á því að í það verði ráðist.

Rafmagnsinnstungur og klær eru enn eitt dæmi. Í flestum íslenskum húsum eru notaðar tveggja pinna rafmagnsklær og viðeigandi innstungur en einnig eru til fjölmörg hús með allt annars konar innstungum sem kalla á öðru vísi klær. Í öðrum löndum þekkjast síðan fjölmargar aðrar útgáfur af klóm og innstungum og raunar líka mismunandi spenna og tíðni á rafmagninu. Vitaskuld væri hagræði af því að heimurinn allur notaði einn staðal fyrir klær, innstungur og rafmagn en vegna þess hve dýrt er að skipta úr einum staðli í annan og margir staðlar hafa náð útbreiðslu eru litlar líkur á að það gerist.

Myndir:

Höfundur

Gylfi Magnússon

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

7.11.2003

Spyrjandi

Emil Thorarensen, f. 1986

Tilvísun

Gylfi Magnússon. „Af hverju eru pylsur seldar 10 saman í pakka en pylsubrauð bara 8?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3844.

Gylfi Magnússon. (2003, 7. nóvember). Af hverju eru pylsur seldar 10 saman í pakka en pylsubrauð bara 8? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3844

Gylfi Magnússon. „Af hverju eru pylsur seldar 10 saman í pakka en pylsubrauð bara 8?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3844>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju eru pylsur seldar 10 saman í pakka en pylsubrauð bara 8?
Þetta er um margt áhugaverð spurning en áður en hafist er handa við að svara henni er rétt að benda á að fullyrðingin sem spurningin byggir á er röng, að minnsta kosti ef miðað er við Ísland. Þetta er einfalt að sjá með því að fara í næstu nýlenduvöruverslun og skoða þar framboð á pylsum og pylsubrauðum. Svarandi sannreyndi þetta bæði í lágverðsverslun (Krónunni) og stórmarkaði (Nóatúni). Á báðum stöðum voru pylsubrauð eingöngu seld fimm saman í pakka og pylsur ýmist fimm eða tíu í pakka. Nokkrir framleiðendur fundust á pylsum en einungis einn á pylsubrauðum, Myllan.

Þótt þessi rannsókn byggi á helst til litlu úrtaki til að hægt sé að fullyrða um framboð á pylsum og pylsubrauðum á landinu öllu og vitaskuld ekki hægt að útiloka á grundvelli hennar að einhvers staðar hérlendis finnist verslun sem selur átta pylsubrauð í pakka þá virðist það að minnsta kosti ekki vera reglan. Ef almennt gildir að Íslendingar borða ekki pylsur nema í brauði og ekki pylsubrauð eitt og sér þá fer vitaskuld vel á því að selja annars vegar fimm pylsubrauð saman og hins vegar ýmist fimm eða tíu pylsur saman í pakka. Þessir viðskiptahættir henta líka ágætlega þeim Íslendingum, ef einhverjir eru, sem borða pylsur án brauðs eða pylsubrauð án pylsa, þeir kaupa þá bara aðra afurðina.

Fyrst þetta liggur fyrir virðist fljótt á litið vart brýn þörf á að svara upphaflegu spurningunni. Nánari skoðun leiðir hins vegar í ljós að þetta er mjög athyglisverð spurning þótt markaðurinn fyrir pylsur og brauð á Íslandi sé að því er virðist ágætlega skilvirkur, að minnsta kosti hvað samræmi í pakkastærðum snertir. Eftir því sem næst verður komist veldur ósamræmi í stærð pylsupakka og pylsubrauðapakka Bandaríkjamönnum hins vegar talsverðu hugarangri og líklega á spurningin rætur sínar að rekja til þess. Þeir sem séð hafa kvikmyndina Father of the Bride, með Steve Martin í aðalhlutverki, muna ef til vill eftir atriði í myndinni þar sem leikarinn gengur berserksgang í stórmarkaði, rífur þar upp pakkningar af pylsubrauðum í tilraun til að fá réttan fjölda af brauðum og segist neita að greiða fyrir pylsubrauð sem hann hefur enga þörf fyrir. Fleiri Bandaríkjamenn hafa látið ósamræmi á milli fjölda pylsa og pylsubrauða í pakka angra sig, svo margir að þarlend Landssamtök pylsu- og bjúgnaframleiðenda, National Hot Dog and Sausage Council, sjá ástæðu til að útskýra þetta sérstaklega á heimasíðu sinni.

Þar kemur fram að allt fram til ársins 1940 hafi pylsur ekki verið seldar margar saman í pakka, líkt og nú tíðkast, bæði í Bandaríkjunum og á Íslandi, heldur eftir vigt hjá kjötkaupmönnum. Þegar tekið var að selja margar saman í pakka varð algengast að bjóða um það bil eitt pund af pylsum í einu sem alla jafna leiddi til þess að átta eða tíu pylsur voru settar saman í pakka. Þess má geta að eitt pund er 453,6 grömm en við fyrrnefnda könnun á íslenskum pylsum kom í ljós að tíu íslenskar pylsur eru alla jafna um það bil 550 grömm. Ef Bandaríkjamenn hafa tíu pylsur í pundinu eru þarlendar pylsur léttari en íslenskar en ef átta pylsur eru í pundi vestanhafs þá eru þær nokkurn veginn jafnþungar og íslenskar pylsur. Fyrrnefnd landssamtök segja að enn tíðkist ýmist að selja pylsur átta eða tíu saman í pakka og má því væntanlega rekja það helst til þyngdarinnar, það er þessi fjöldi pylsa gerir um það bil eitt pund og í Bandaríkjunum tíðkast að mæla magn af kjöti í fjölda punda.

Skýringin á fjölda pylsubrauða í pakka virðist hins vegar liggja í framleiðslutækninni. Pylsubrauð voru lengst af bökuð í formum sem tóku átta brauð hvert. Þótt nú séu til form sem taka tíu eða tólf brauð er enn algengast að baka átta í einu. Þess má geta í þessu samhengi að algengt er í Bandaríkjunum að selja bakaðar vörur, til dæmis kleinuhringi, brauðbollur og þess háttar, í tylftum eða hálfum tylftum, það er tólf eða sex saman í pakka. Það er að því leyti skynsamlegra en að selja til dæmis fimm eða tíu saman að það er mun auðveldara að skipta tólf kleinuhringjum en tíu. Tólf kleinuhringjum má til dæmis skipta þannig að:
  • tólf fái einn hring hver
  • sex fái tvo hver
  • fjórir fái þrjá hver
  • þrír fái fjóra hver
  • tveir fái sex hver
  • einn fái þá alla
Tíu kleinuhringjum er hins vegar ekki hægt að skipta jafnt án þess að skera þá í hluta nema þannig að:
  • tíu fái einn hver
  • fimm fái tvo hver
  • tveir fái fimm hver
  • einn fái þá alla
Það er því hægt að skipta tólf kleinuhringjum jafnt á sex vegu en tíu kleinuhringjum einungis á fjóra vegu.

Þessi forsaga útskýrir hvers vegna upphaflega var tekið að selja annars vegar tíu pylsur saman og hins vegar átta pylsubrauð saman en eftir stendur vitaskuld spurningin um það hvers vegna ekki hefur tekist á sextíu árum að samræma fjöldann.

Framleiðendur á annars vegar pylsum og hins vegar pylsubrauðum hafa engan sérstakan hag af því að misræmi sé á milli fjölda í pakkningu og raunar virðast þeir einfaldlega hafa þá stefnu að bjóða þær stærðir á pakkningum sem seljast best. Á heimasíðu stærsta pylsuframleiðandans í Bandaríkjunum, Oscar Mayer, er þannig tekið fram að fyrirtækið framleiði pylsur í sex, átta og tíu stykkja pakkningum og láti verslunum alfarið eftir að velja hvaða pakkningar þær panta.



Úr hve mörgum pylsupökkum komu þessar pylsur, a) ef tíu pylsur eru í pakka, b) ef átta pylsur eru í pakka? Rétt svör má senda á þetta netfang. Í fyrstu verðlaun er pylsupakki.

Tvær skýringar virðast líklegastar á því að enn er misræmi á milli fjölda pylsa í pakka og fjölda pylsubrauða í pakka. Önnur þeirra er að Bandaríkjamenn geri dálítið af því að borða pylsur án þess að setja þær í pylsubrauð. Ef fimmta hver pylsa er snædd með þeim hætti fer ekkert illa á því að selja saman annars vegar tíu pylsur og hins vegar átta pylsubrauð. Hin skýringin er að hér takist á tvær stefnur eða staðlar. Önnur stefnan er þá að selja saman í pakka annars vegar átta pylsur og hins vegar átta pylsubrauð. Hin stefnan er að selja saman tíu pylsur eða tíu pylsubrauð. Ef hvorug stefnan hefur svo afgerandi kosti að hún nái að ganga af hinni dauðri geta þær þrifist þær báðar hlið við hlið, með þeim afleiðingum að neytendur geta vel lent í því að standa einungis til boða pylsupakkar samkvæmt annarri stefnunni og pakkar af pylsubrauðum samkvæmt hinni.

Þetta kann að virðast undarlegt jafnvægi, þar sem tveir ósamrýmanlegir staðlar lifa góðu lífi á sama markaði, en finna má margar hliðstæður. Lengi vel kepptu til dæmis tveir staðlar í myndböndum, Beta og VHS. Þá gátu neytendur auðveldlega lent í því að kvikmyndin sem þeir höfðu áhuga á var ekki til á því sniði sem hentaði myndbandstækinu þeirra eða þeir gátu ekki fengið auða spólu af réttri tegund. Nýlegra dæmi er skrifanlegir DVD diskar, til eru tveir staðlar fyrir þá og þangað til annar gengur af hinum dauðum geta notendur lent í því að fá ekki keypta diska af réttum staðli. Keppnin á milli Windows, Apple og Linux er annað dæmi, forrit fyrir eitt þessara stýrikerfa keyra alla jafna ekki á tölvum sem nota eitt hinna stýrikerfanna.

Oftast enda svona staðlastríð með því að einn staðall verður ofan á og keppinautarnir fara á öskuhauga sögunnar en það er þó ekki alltaf raunin. Sem dæmi má nefna að í heiminum aka menn ýmist vinstra megin eða hægra megin á vegum. Hvorug venjan hefur augljósa kosti framyfir hina, það eina sem skiptir máli er að menn fylgi ekki sitthvorri venjunni á sama vegi á sama tíma. Fyrir vikið þrífast þær báðar ágætlega, þótt væntanlega væri hagkvæmara fyrir heiminn allan ef menn hefðu í upphafi bílaaldar (eða fyrr því að reglur um að víkja til hægri eða vinstri á hverjum stað mótuðust löngu fyrir þann tíma) komið sér saman um að nota bara aðra þeirra.

Svipaða sögu má segja um sjónvarpsmerki, þar keppa einkum tveir staðlar, PAL og NTSC (og nokkur afbrigði) þótt betra væri fyrir alla að hafa bara einn staðal. Ef heimsbyggðin öll ætti nú að taka upp einn staðal fyrir sjónvarpsmerki, til dæmis PAL (sem er tæknilega fullkomnari staðall en NTSC), þyrfti að henda öllum sjónvarpstækjum og útsendingarbúnaði og endurúthluta tíðnum í þeim löndum sem nota NTSC. Því myndi fylgja slíkur kostnaður að engar líkur eru á því að í það verði ráðist.

Rafmagnsinnstungur og klær eru enn eitt dæmi. Í flestum íslenskum húsum eru notaðar tveggja pinna rafmagnsklær og viðeigandi innstungur en einnig eru til fjölmörg hús með allt annars konar innstungum sem kalla á öðru vísi klær. Í öðrum löndum þekkjast síðan fjölmargar aðrar útgáfur af klóm og innstungum og raunar líka mismunandi spenna og tíðni á rafmagninu. Vitaskuld væri hagræði af því að heimurinn allur notaði einn staðal fyrir klær, innstungur og rafmagn en vegna þess hve dýrt er að skipta úr einum staðli í annan og margir staðlar hafa náð útbreiðslu eru litlar líkur á að það gerist.

Myndir:...