Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Orðið blóðskömm kann að þykja framandlegt, enda hefur það ekki verið notað lengi. Áður náði merking þess yfir bannað og refsivert samræði fólks innan einnar og sömu fjölskyldu (fyrir utan hjón vitaskuld). Orðið kemur fyrst fyrir í Biblíu Guðbrands biskups Þorlákssonar frá árinu 1584 og jafngildi orðinu incestus á latínu. Siðskiptafrömuðurinn Marteinn Lúther hafði þýtt það sem Blutschande á þýsku árið 1534 og í danskri þýðingu Biblíunnar er notað blodskam.
Blóðskammarhugtakið fól á öldum áður í sér hugmynd um samræði fólks sem mátti ekki sænga saman. Ofbeldi þurfti ekki til heldur nægði samræði eitt og sér. Skipan heimsins raskaðist við það eitt og Guð reiddist. Árið 1275 var í kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar gefin út skrá yfir það sem taldist alls ekki mega. Skráin byggði að miklu leyti á orðum Guðs í 3. Mósebók, þar sem nefndar eru konur sem karlar mega ekki sænga hjá, en að nokkru leyti á Rómarlögum. Taldar voru sautján konur:
móðir
systir
dóttir
sonardóttir
dótturdóttir
móðurmóðir
föðurmóðir
bróðurdóttir
systurdóttir
móðursystir
föðursystir
stjúpdóttir
stjúpmóðir
tengdadóttir
tengdamóðir
eiginkona bróður
systir eiginkonu
Að leggjast með þessum konum var ódáðaverk og viðurlögin voru skriftir, friðleysi og missir eigna til konungs og biskups. Friðleysi jafngilti útlegð af landinu, en semja mátti við konung um landvist. Erfiðara var að fá undanþágu frá skriftum. Þær hófust með kárínu, sem var 40 sólarhringa fasta við vatn og brauð. Hinn seki eða hin seka mátti ekki koma til kirkju á meðan og raunar alls ekki fara að heiman. Að kárínu lokinni átti hann að þvo sér, fara í skó og láta skera hár sitt. Í tólf mánuði eftir það varð hann að standa utan kirkju nema um helgidaga. Þrjú næstu árin fékk hann ekki að ganga til altaris nema líf hans væri í hættu. Að lokinni kárínu tók við flókið kerfi á föstum í fjórtán ár og síðan við ævinleg skrift sem meðal annars fól í sér að hinn seki varð að flytja Faðirvorið sjö sinnum á dag til æviloka.
Með Stóradómi árið 1564 var þessum viðurlögum skipt út fyrir dauðarefsingu:
þær 17 persónur karlmanna og kvenna að frændsemi og mægðum sem til eru greindar í þeim gömlu kirkjulögum sem verið hafa hér í landið að fornu skulu falla til óbótamála og hafa fyrirgjört lífinu, karlmenn höggvist, en konur drekkist.
Samkvæmt þessum orðum voru um það bil 50 einstaklingar teknir af lífi næstu 160 árin, konur og karlar til helminga. Nokkru fleiri karlar komust undan og flúðu til útlanda. Á móti kom að nokkrar konur hlutu vægari dóma vegna þess að þeim hafði verið nauðgað, til dæmis af föður eða stjúpföður, eða þær voru með börn á brjósti. Væri konum sannanlega nauðgað varð það samt ekkert endilega til þess að þær héldu lífi. Til dæmis var spurt á alþingi árið 1673 um Sigríði Þórðardóttur, sem eignaðist barn með eiginmanni systur sinnar, hvort til vægðar „horfa kynni sú hennar lýsing fyrir dómi í fyrstu að nauðug verið hafi”. Það taldist þó ekki sannað og henni var drekkt.
Þetta breyttist fyrir miðja 18. öld og yfirvöld hættu að taka fólk af lífi fyrir blóðskömm. Að ráði guðfræðinga og embættismanna fór konungur þá að breyta dauðadómum í ævilanga refsivist í Kaupmannahöfn. Nauðgun var framvegis talin horfa til mildunar á meðan nauðgarinn hlaut harðari úrskurð, jafnvel dauðarefsingu. Ævilöng refsivist var þó ekki fjarri því að jafngilda lífláti, því fangar létust flestir eftir fárra ára dvöl við harðræði og vosbúð. Síðustu aftökur fyrir blóðskömm á Íslandi voru árin 1762 og 1763, en fljótlega eftir það var fangavist blóðskammara sem sendir voru utan stytt niður í nokkur ár. Blóðskömm var ekki lengur álitin alvarlegur glæpur, að minnsta kosti ekki miðað við morð og rán, sem ógnuðu eignum eða líkama fólks.
Um leið og dregið var úr refsingum fyrir blóðskömm var skilgreiningu hennar breytt, eða öllu heldur var fækkað í hópnum sem áður hafði þótt ástæða til að dæma til dauða. Orðum Guðs í 3. Mósebók var varpað fyrir róða sem undirstöðu hugtaksins fyrir lok 18. aldar og farið að líta til þess sem væri lögmál náttúrunnar í þessum efnum. Niðurstaðan varð sú að mægðir gætu ekki talist til blóðskammar, vegna þess að tengsl tengdafólks væru ekki náttúruleg eða líffræðileg, heldur félagsleg eða táknræn. Þau mynduðust ekki við fæðingu barns, eins og tengsl foreldra og barna eða tengsl systkina, heldur við giftingu, sem aðeins væri samkomulag á milli manna. Eftir var skyldleikinn og þar fékk aðeins allra nánasti skyldleiki að vera með sem eiginleg blóðskömm: feðgin, mæðgin, systkini.
Það tók reyndar töluverðan tíma fyrir þessar hugmyndir að ná athygli og áhuga ráðamanna. Með lögum árið 1866 var dauðarefsing fyrir blóðskömm afnumin í Danmörku og fjórum árum síðar hér á landi. Enn var blóðskömm þó refsiverð og enn voru bæði skyldleiki og mægðir höfð með. Samræði foreldra og barna og annarra ættingja í beinan ættlegg (það er að segja afar eða ömmur og barnabörn) varðaði eldri kynslóðina hegningarvinnu í fjögur til tíu ár, en börnin áttu að sitja ekki skemur en tuttugu daga. Systkini áttu að dúsa í allt að því sex ár, en skemur ef þau voru ekki alin upp á sama heimili og hittust ókunnug síðar. Fólk sem hafði samræði við stjúpbörn eða tengdabörn átti að sæta hegningarvinnu í allt að sex ár, en stjúpbörnin og tengdabörnin allt að tvö ár. Greinilega er gert ráð fyrir því í þessum ákvæðum að allir séu fúsir til samræðisins, enda umræða um kynferðislegt ofbeldi innan fjölskyldna ekki hafin þegar hér var komið sögu.
Árið 1940 voru mægðir teknar út úr skilgreiningu blóðskammar. Aðeins er talað um „samræði milli foreldra og barna og milli annarra ættingja í beinan ættlegg“, sem varðaði foreldra allt að fjögurra ára fangelsi, en börn eldri en 18 ára varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum. Samræði systkina varðaði varðhaldi eða fangelsi allt að tveimur árum. Mægða er hvergi getið. Sama viðhorf til blóðskammar kemur fram í hjúskaparlögum frá 1972, því þau banna aðeins vígslu skyldmenna í beinan legg og systkina. Stjúpfeðgin eða stjúpmæðgin og sambærileg pör geta fengið leyfi ráðherra til að eigast. Blóðskömm er því bönnuð enn sem fyrr, jafnvel þótt karlinn og konan séu samþykk verknaðinum. Öll önnur „skírlífisbrot“ eru því aðeins refsiverð að ofbeldi er beitt eða einhver misnotar aðstöðu sína.
Frekara lesefni:
Inga Huld Hákonardóttir, Fjarri hlýju hjónasængur. Öðruvísi Íslandssaga. Reykjavík 1992.
Már Jónsson, Blóðskömm á Íslandi 1270-1870. Reykjavík 1993.
Már Jónsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um blóðskömm fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn, 6. nóvember 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3838.
Már Jónsson. (2003, 6. nóvember). Getið þið sagt mér eitthvað um blóðskömm fyrr á öldum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3838
Már Jónsson. „Getið þið sagt mér eitthvað um blóðskömm fyrr á öldum?“ Vísindavefurinn. 6. nóv. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3838>.