Hvaða orð eru til um jurtina hundasúru?Eggert Ólafsson taldi hundasúru sömu jurt og kornsúru og í grein í Almanaki Þjóðvinafélagsins frá 1883 er latneska heitið Polygonum lapathifolium en sú jurt heitir á íslensku blöðkujurt. Í Eimreiðinni frá 1915 er talað um „undasúru, er sumir kalla hundasúru.“ Ekki hef ég rekist á undasúruheitið annars staðar.
Hundasúran ber latneska heitið Rumex acetosella samkvæmt Flóru Íslands eftir Stefán Stefánsson. Hann gefur ekkert annað íslenskt heiti á jurtinni. Sama er að segja um ritið Íslenzkar jurtir eftir Áskel Löve, Plöntuhandbókina eftir Hörð Kristinsson og Íslenska flóru eftir Ágúst H. Bjarnason, og virðist sú greining vera gildandi í dag. Ágúst H. Bjarnason telur hundasúrunafnið líklega komið af því að blöðin þóttu ekki eins góð og blöð túnsúrunnar. Hún hafi því verið kennd við hunda í niðrandi merkingu. Norðlenskur bóndi nefndi þá skýringu við mig að hundar sæktu í gras og hundasúrur ef þeir fengju í magann. Taldi hann að nafnið mætti sækja til þessa háttalags. Ekki veit ég hvort það er rétt en skýring Ágústs finnst mér sennilegri. Mynd: Weed Lab ID. Á Vísindavefnum er hægt að lesa meira um hundasúrur í svari Björns Sigurðar Gunnarssonar við spurningunni: