Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Bögglaberi er grind á reiðhjóli, oftast aftan við sætið. Eins og nafnið bendir til á að nota hana til að bera böggla.
Orðið böggull er smækkunarorð af 'baggi', og merkir þess vegna 'lítill baggi' eða 'pakki'. Af orðinu böggull er leidd sögnin böggla sem þýðir að 'kuðla' eða 'vöðla', en það á ágætlega við þegar menn setja mjúka böggla á bögglaberann; þá þrýstir grindin þeim niður og þeir bögglast saman.
Sögnin bögga sem er tiltölulega ný í íslensku máli og merkir að 'vera með leiðindi', 'trufla' eða 'áreita' virðist við fyrstu sýn ekki eiga margt skylt með bögglum eða bögglaberum, nema fyrir það eitt að hljóma nokkuð svipað og 'böggla'.
Bögglaberinn á þessu hjóli farandsölumanns á Garoua-markaðinum í Kamerún sést ekki fyrir stórum böggli.
Að bögga einhvern er fengið að láni úr ensku en slanguryrðið 'to bug' er upprunnið um miðja síðustu öld í Bandaríkjunum. Enskar orðabækur segja það eiga rætur að rekja til talsmáta svonefndra 'bíboppara' sem voru amerískir jassistar um og eftir miðja síðustu öld. Í leikriti eftir John Osborne frá 1959 kemur fyrir þessi setning: "It will surely bug you when there is no man to hug". Vafalaust er notkun sagnarinnar sótt til nafnorðsins bug í merkingunni 'padda, skordýr', en þannig kvikindi geta verið ansi hvimleið og pirrað marga.
Í fornu máli var orðið böggur notað um 'mein' eða 'skaða' en nú er það notað um villu í forriti. Talið er að böggur sé skylt sögnunum 'baga' og 'bagga' sem merkja 'að valda óþægindum, hindra og vera til ama'.
Sögnin að bagga er því merkingarlega tengd slangursögninni 'að bögga'. Að 'bagga einhvern' er að vera honum til ama, alveg eins og þegar menn 'bögga aðra'. Þrátt fyrir að orðið 'bögg' sé tökuorð frá amerískum bíboppurum falla merkingarvensl þess vel að orðum í íslensku sem hljóma líkt, svo sem 'að bagga'.
Nafnorðið 'baggi' er stundum notað í ýmsum orðasamböndum í svipaðri merkingu og sögnin 'bagga'; að binda sér bagga merkir til dæmis að valda sér auknu erfiði, það er 'að vera sjálfum sér til ama'. Baggar, hvort sem þeir eru stórir eða aðeins litlir bögglar á bögglaberum eiga þess vegna talsvert skylt með sögninni 'að bögga'.
Heimildir og mynd:
Ásgeir Blöndal Magnússo, Íslensk orðsifjabók, Orðabók Háskólans, Reykjavík, 1989.
Mörður Árnason, Íslensk orðabók, 3. útg., Edda, Reykjavík 2002.
OED.com (landsaðgangur með notendanafninu iceland og lykilorðinu prioinfo.)
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju heitir bögglaberi þessu nafni?“ Vísindavefurinn, 26. september 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3758.
Jón Gunnar Þorsteinsson. (2003, 26. september). Af hverju heitir bögglaberi þessu nafni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3758
Jón Gunnar Þorsteinsson. „Af hverju heitir bögglaberi þessu nafni?“ Vísindavefurinn. 26. sep. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3758>.