Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ýmislegt skemmtilegt og áhugavert er að segja um götunöfn í borgum og sögu þeirra, þar á meðal af því hvernig þau hafa orðið til á hverjum tíma og stað. Götunöfn í Reykjavík eru ágætt dæmi um þetta en þróun þeirra hefur fylgt svipuðum mynstrum og í ýmsum öðrum borgum eða þéttbýliskjörnum, þótt einstök skref í þróuninni hafi ef til vill ekki gerst á sama tíma þar og annars staðar.
Elstu götunöfn í borgum taka yfirleitt mið af staðháttum. Þannig er væntanlega augljóst hvernig nöfn eins og Vesturgata, Suðurgata og Austurstræti eru hugsuð, og þau eiga sér hliðstæður í mörgum öðrum borgum. Sömuleiðis blasir við hvernig heiti Aðalstrætis er til komið á sínum tíma, þó að það standi ekki undir nafni nú á dögum. En nefna má til gamans að Hovedgade er algengt sem heiti eða hluti heitis á dönskum götum, og Main Street er víða til í Bandaríkjunum.
Í Reykjavík eru líka nöfn eins og Lækjargata, Tjarnargata, Laugavegur og Skólavörðustígur sem vísa til staðhátta og eldri örnefna á augljósan hátt þó að við hugsum kannski ekki alltaf út í það.
Í svonefndu Bryggjuhverfi kemur orðið bryggja fyrir í öllum götunöfnum.
Þegar Þingholtin byggðust hafa menn viljað láta götunöfnin vísa í tiltekna hugmyndaheild, í því tilviki norræna goðafræði, samanber heitin Óðinsgata, Þórsgata, Freyjugata, Týsgata, Lokastígur, Haðarstígur, Baldursgata, Nönnugata, Bragagata, Urðarstígur og svo framvegis. Þessi nöfn vísa að sjálfsögðu ekki til neinna tiltekinna staðhátta eða fyrri örnefna á svæðinu.
Þessari hefð hefur svo verið fram haldið annars staðar í Þingholtunum og síðan í Norðurmýrinni þar sem persónur Íslendingasagnanna ráða ferðinni: Njálsgata, Grettisgata, Eiríksgata, Leifsgata, Egilsgata, Gunnarsbraut, Bergþórugata, Flókagata, Skarphéðinsgata, Kjartansgata, Bollagata, Guðrúnargata og svo framvegis eins og menn geta lesið nánar til dæmis á kortunum í símaskránni.
Þess má geta til gamans að svipuð regla gildir um götuheiti í tilteknu hverfi í Kaupmannahöfn, Islands brygge. Þar heita göturnar nöfnum úr Íslendingasögunum: Njalsgade, Egilsgade, Gunløgsgade, Bergthorasgade og svo framvegis.
Þegar Melarnir voru byggðir um og upp úr 1940 var svo enn brotið í blað og götunum gefin heiti örnefna með ákveðnum seinni hluta, -melur, sem vísar raunar í aðstæður á svæðinu áður en það var tekið undir byggð.
Svipaðri grunnhugmynd hefur síðan verið beitt í mörgum hverfum, svo sem í Hlíðum, Holtum, Túnum, Teigum, Háaleitishverfi, Bæjum í Árbæjarhverfi, Bökkum, Hólum, Stekkjum, Töngum, Brekkum, Vöngum og þannig mætti lengi telja. Í seinni tíð hafa menn farið að raða götuheitum í tilteknu hverfi í stafrófsröð á kortið þannig að auðveldara er að finna göturnar innan hverfisins.
Sömuleiðis hefur það nokkra kosti fyrir almenna borgara að götunöfn í tilteknu hverfi hafi einhver ákveðin sérkenni, þannig að við getum séð nokkurn veginn af nafninu í hvaða hverfi gatan sé.
Það eru að sjálfsögðu sveitarfélögin á hverjum stað sem velja nýjum götum nöfn. Í Reykjavík hefur undirbúningur verksins oft verið falinn tilteknum ráðgjöfum eða nefndum.
Margar erlendar þjóðir hafa þann sið að skíra götur eftir þekktum mönnum, samanber H.C. Andersens Boulevard í Kaupmannahöfn, Runebergsgatan í Helsinki, Rooseveltlaan í Amsterdam, Karl Johan í Osló og svo framvegis.
Þessi siður hefur ekki fest rætur hér að ráði, ef til vill vegna íslenska mannanafnakerfisins. Okkur þætti líklega stirðlegt að búa við Jóns Sigurðssonargötu eða Jónasar Hallgrímssonarstræti, þó að í síðara tilvikinu dygði líklega Jónasarstræti!? Nöfnin Kjarvalsgata og Ásgrímsgata mundu þó alveg hitta í mark, það síðara þó varla nema það væri á svipuðum stað og Kjarval. En þá lægi Jón Stefánsson óbættur hjá garði. Okkur yrði að vísu trúlega hugsað til hans ef Jónsgata lægi milli Kjarvals og Ásgríms en hvernig ætti þá að koma öllum hinum Jónunum að?
Mynd: Símaskrá 2003: Höfuðborgarsvæðið, s. 814.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hverjir ákveða götunöfnin og eftir hverju fara þau?“ Vísindavefurinn, 28. ágúst 2003, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3688.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 28. ágúst). Hverjir ákveða götunöfnin og eftir hverju fara þau? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3688
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hverjir ákveða götunöfnin og eftir hverju fara þau?“ Vísindavefurinn. 28. ágú. 2003. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3688>.