Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Getur afstæð tónheyrn orðið algjör með æfingu?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Í stuttu máli sagt er svarið við þessari spurningu umdeilt. Víst er að til er ýmiss konar námsefni, þar á meðal tölvuforrit, sem eiga að kenna fólki algjöra tónheyrn. Líklega þarf að taka þeim fögru fyrirheitum sem gefin eru í auglýsingum fyrir slíkt námsefni af sömu varkárni og öðru auglýsingaskrumi. En þessari spurningu má líka svara í heldur lengra máli og það verður nú gert.

Talað er um að einstaklingur hafi algjöra tónheyrn (e. absolute pitch) ef hann þekkir tónhæð fyrirhafnarlaust eða getur sungið tón sem beðið er um. Meðal Vesturlandabúa er þessi hæfileiki sjaldgæfur en tölur um tíðni hans eru þó mjög á reiki. Líklega býr einn af hverjum þúsund til tíu þúsund yfir honum en þó sjást stundum staðhæfingar um tíðni á borð við 3%. Flestir hafa hins vegar svokallaða afstæða tónheyrn og hún er þjálfuð hjá tónlistarnemendum. Tónlistarfólk lærir að þekkja afstöðu tónanna hvers til annars og getur þannig þekkt tónhæð eða sungið umbeðinn tón ef því er fyrst gefinn viðmiðunartónn. Afstæð tónheyrn (e. relative pitch) byggist á því að þekkja tónbil en algjör tónheyrn snýst um að þekkja tónana sjálfa.

Lengi hefur verið umdeilt hvort algjör tónheyrn er meðfæddur eða lærður hæfileiki. Ljóst er að algjör tónheyrn er mun tíðari meðal þeirra sem hefja tónlistarnám fyrir 6 ára aldur en ekki er endilega augljóst hvaða ályktanir má draga af því. Það gæti bent til þess að aldurinn 4-6 ára sé ákjósanlegur til að tileinka sér algjöra tónheyrn en það skýrir þó ekki hvers vegna mörg börn sem hefja tónlistarnám svo ung öðlast hana ekki. Annar möguleiki er að öll börn fæðist með algjöra tónheyrn eða hæfileikann til að öðlast hana en glati henni svo. Þá gæti tónlistarnám á unga aldri hjálpað sumum að varðveita þennan hæfileika. Þriðji möguleikinn er svo að fylgnin milli tónlistarnáms á unga aldri og algjörrar tónheyrnar verði skýrð með erfðum. Börn sem hefja tónlistarnám ung eru væntanlega líklegri en önnur til að eiga foreldra sem eru tónlistarfólk og hafa ef til vill líka algjöra tónheyrn. Hugsanlega er þarna um samspil þjálfunar og erfða að ræða.

Reyndar búum við öll að vísi algjörrar tónheyrnar. Til dæmis eigum við ekki í vandræðum með að greina hvort tónn sem við heyrum er á tónsviði fiðlu eða kontrabassa án þess að afstaða tóna eða tónbil hafi nokkuð með málið að gera. Því má kannski segja að þarna sé um að ræða mjög grófa útgáfu af algjörri tónheyrn. Eins hafa tilraunir sýnt að ef fólk sem jafnvel hefur enga tónlistarþjálfun er beðið að raula vinsælt dægurlag eru töluverðar líkur á því að það hitti á rétta tóntegund eða syngi fyrsta tóninn rétt. Þarna er líklega um að ræða algjöra tónheyrn á mjög afmörkuðum sviðum en einstaklingar sem hefur algjöra tónheyrn getur beitt henni á mun víðtækari hátt.

Svo virðist sem hægt sé að tileinka sér algjöra tónheyrn að einhverju marki á fullorðinsaldri en það krefst mikillar vinnu og þolinmæði. Fólk sem hefur þjálfað sig með sérstökum aðferðum til að öðlast algjöra tónheyrn hefur smám saman lært að þekkja tóna án viðmiðunar. Hins vegar virðist það yfirleitt þurfa að hugsa sig um lengur en einstaklingar sem öðluðust algjöra tónheyrn á barnsaldri og eins virðist hæfileiki þess hverfa ef honum er ekki haldið við með reglubundnum æfingum.

Enn er því ósvarað hvort algjör tónheyrn er yfirleitt gagnlegur hæfileiki. Þótt það geti virst gagnlegt að þekkja tóna um leið og þeir heyrast hefur sumum sem hafa algjöra tónheyrn þótt þreytandi eða truflandi að heyra “tóna” út um allt, til dæmis heyra hrærivélina hræra saman kökudeigi í G og vindinn gnauða í D. Algjör tónheyrn getur jafnvel verið til trafala fyrir suma tónlistarmenn, til dæmis við að flytja laglínur milli tóntegunda þar sem afstæð tónheyrn gagnast mun betur og algjör tónheyrn getur truflað. Heyrst hefur af fólki sem hefur glatað hæfileikanum til algjörrar tónheyrnar síðar meir, einmitt vegna þess að hann virtist koma að litlu gagni.

Svo virðist sem algjör tónheyrn sé mun algengari meðal þeirra sem eiga svokölluð tónamál að móðurmáli, til dæmis kínversku og víetnömsku. Slík tungumál byggja meðal annars á tónhæð þannig að orð sem að öðru leyti hljóma eins geta haft gjörólíka merkingu eftir tónhæð. Þetta getur bent til þess að öll börn fæðist þeim eiginleikum gædd að geta tileinkað sér algjöra tónheyrn en líkur séu til þess að hæfileikinn glatist á unga aldri ef hann nýtist ekki og viðeigandi þjálfunar nýtur ekki við. Einnig má vera að algjör tónheyrn nýtist börnum að einhverju leyti við máltöku og að hún eigi í raun að falla í flokk málhæfileika fremur en tónlistarhæfileika.

Heimildir og frekari fróðleikur:

Hér geta svo lesendur tekið tónheyrnarpróf og fræðst um könnun á vegum Kaliforníuháskóla.

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

22.8.2003

Spyrjandi

Ásgeir Ólafsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Getur afstæð tónheyrn orðið algjör með æfingu?“ Vísindavefurinn, 22. ágúst 2003, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3677.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2003, 22. ágúst). Getur afstæð tónheyrn orðið algjör með æfingu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3677

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Getur afstæð tónheyrn orðið algjör með æfingu?“ Vísindavefurinn. 22. ágú. 2003. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3677>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Getur afstæð tónheyrn orðið algjör með æfingu?
Í stuttu máli sagt er svarið við þessari spurningu umdeilt. Víst er að til er ýmiss konar námsefni, þar á meðal tölvuforrit, sem eiga að kenna fólki algjöra tónheyrn. Líklega þarf að taka þeim fögru fyrirheitum sem gefin eru í auglýsingum fyrir slíkt námsefni af sömu varkárni og öðru auglýsingaskrumi. En þessari spurningu má líka svara í heldur lengra máli og það verður nú gert.

Talað er um að einstaklingur hafi algjöra tónheyrn (e. absolute pitch) ef hann þekkir tónhæð fyrirhafnarlaust eða getur sungið tón sem beðið er um. Meðal Vesturlandabúa er þessi hæfileiki sjaldgæfur en tölur um tíðni hans eru þó mjög á reiki. Líklega býr einn af hverjum þúsund til tíu þúsund yfir honum en þó sjást stundum staðhæfingar um tíðni á borð við 3%. Flestir hafa hins vegar svokallaða afstæða tónheyrn og hún er þjálfuð hjá tónlistarnemendum. Tónlistarfólk lærir að þekkja afstöðu tónanna hvers til annars og getur þannig þekkt tónhæð eða sungið umbeðinn tón ef því er fyrst gefinn viðmiðunartónn. Afstæð tónheyrn (e. relative pitch) byggist á því að þekkja tónbil en algjör tónheyrn snýst um að þekkja tónana sjálfa.

Lengi hefur verið umdeilt hvort algjör tónheyrn er meðfæddur eða lærður hæfileiki. Ljóst er að algjör tónheyrn er mun tíðari meðal þeirra sem hefja tónlistarnám fyrir 6 ára aldur en ekki er endilega augljóst hvaða ályktanir má draga af því. Það gæti bent til þess að aldurinn 4-6 ára sé ákjósanlegur til að tileinka sér algjöra tónheyrn en það skýrir þó ekki hvers vegna mörg börn sem hefja tónlistarnám svo ung öðlast hana ekki. Annar möguleiki er að öll börn fæðist með algjöra tónheyrn eða hæfileikann til að öðlast hana en glati henni svo. Þá gæti tónlistarnám á unga aldri hjálpað sumum að varðveita þennan hæfileika. Þriðji möguleikinn er svo að fylgnin milli tónlistarnáms á unga aldri og algjörrar tónheyrnar verði skýrð með erfðum. Börn sem hefja tónlistarnám ung eru væntanlega líklegri en önnur til að eiga foreldra sem eru tónlistarfólk og hafa ef til vill líka algjöra tónheyrn. Hugsanlega er þarna um samspil þjálfunar og erfða að ræða.

Reyndar búum við öll að vísi algjörrar tónheyrnar. Til dæmis eigum við ekki í vandræðum með að greina hvort tónn sem við heyrum er á tónsviði fiðlu eða kontrabassa án þess að afstaða tóna eða tónbil hafi nokkuð með málið að gera. Því má kannski segja að þarna sé um að ræða mjög grófa útgáfu af algjörri tónheyrn. Eins hafa tilraunir sýnt að ef fólk sem jafnvel hefur enga tónlistarþjálfun er beðið að raula vinsælt dægurlag eru töluverðar líkur á því að það hitti á rétta tóntegund eða syngi fyrsta tóninn rétt. Þarna er líklega um að ræða algjöra tónheyrn á mjög afmörkuðum sviðum en einstaklingar sem hefur algjöra tónheyrn getur beitt henni á mun víðtækari hátt.

Svo virðist sem hægt sé að tileinka sér algjöra tónheyrn að einhverju marki á fullorðinsaldri en það krefst mikillar vinnu og þolinmæði. Fólk sem hefur þjálfað sig með sérstökum aðferðum til að öðlast algjöra tónheyrn hefur smám saman lært að þekkja tóna án viðmiðunar. Hins vegar virðist það yfirleitt þurfa að hugsa sig um lengur en einstaklingar sem öðluðust algjöra tónheyrn á barnsaldri og eins virðist hæfileiki þess hverfa ef honum er ekki haldið við með reglubundnum æfingum.

Enn er því ósvarað hvort algjör tónheyrn er yfirleitt gagnlegur hæfileiki. Þótt það geti virst gagnlegt að þekkja tóna um leið og þeir heyrast hefur sumum sem hafa algjöra tónheyrn þótt þreytandi eða truflandi að heyra “tóna” út um allt, til dæmis heyra hrærivélina hræra saman kökudeigi í G og vindinn gnauða í D. Algjör tónheyrn getur jafnvel verið til trafala fyrir suma tónlistarmenn, til dæmis við að flytja laglínur milli tóntegunda þar sem afstæð tónheyrn gagnast mun betur og algjör tónheyrn getur truflað. Heyrst hefur af fólki sem hefur glatað hæfileikanum til algjörrar tónheyrnar síðar meir, einmitt vegna þess að hann virtist koma að litlu gagni.

Svo virðist sem algjör tónheyrn sé mun algengari meðal þeirra sem eiga svokölluð tónamál að móðurmáli, til dæmis kínversku og víetnömsku. Slík tungumál byggja meðal annars á tónhæð þannig að orð sem að öðru leyti hljóma eins geta haft gjörólíka merkingu eftir tónhæð. Þetta getur bent til þess að öll börn fæðist þeim eiginleikum gædd að geta tileinkað sér algjöra tónheyrn en líkur séu til þess að hæfileikinn glatist á unga aldri ef hann nýtist ekki og viðeigandi þjálfunar nýtur ekki við. Einnig má vera að algjör tónheyrn nýtist börnum að einhverju leyti við máltöku og að hún eigi í raun að falla í flokk málhæfileika fremur en tónlistarhæfileika.

Heimildir og frekari fróðleikur:

Hér geta svo lesendur tekið tónheyrnarpróf og fræðst um könnun á vegum Kaliforníuháskóla....