Getið þið sagt mér url-ið á vefsíðu "bandarísku þjóðskrárinnar"?Í Bandaríkjunum er ekkert til í líkingu við hina íslensku þjóðskrá. Bandarísk stjórnvöld reka ekki gagnagrunn sem inniheldur upplýsingar um fæðingardaga og búsetu fólks eða yfirleitt nokkra skrá yfir bandarísku þjóðina í heild. Almennt fá Bandaríkjamenn fyrir hjartað þegar þeir heyra um íslensku þjóðskrána sem er öllum aðgengileg á netinu. Vissulega halda sumar bandarískar stofnanir einhvers konar skrá yfir fólk, til dæmis skattayfirvöld. Þessar skrár ná þó ekki endilega til allrar þjóðarinnar og engin dæmi eru um að þær séu opnar almenningi. Social Security Administration úthlutar hverjum og einum 9 stafa kennitölu (social security number) sem ólíkt íslensku kennitölunni er farið með sem trúnaðarupplýsingar. Þessi tala er aðeins notuð í samskiptum við opinberar stofnanir, vinnuveitendur og fjármálastofnanir. Bandaríska kerfið býður væntanlega upp á meiri persónuvernd en hið íslenska. Á hinn bóginn virðist það viðkvæmara fyrir svindli. Til eru mörg dæmi um svokallaðan “persónustuld” þar sem þjófurinn þykist vera önnur manneskja og safnar skuldum í hennar nafni. Þetta virðist ekki mjög erfiður leikur ef upplýsingar um kennitölu viðkomandi og eftirnafn móður fyrir giftingu (“mother’s maiden name” sem oft er notað sem eins konar öryggiskóði) liggja fyrir. Þótt þjófurinn náist og sé stöðvaður getur fórnarlambið lent á svörtum lista fjármálafyrirtækja og misst allt lánstraust svo árum skiptir í kjölfarið.
Hvar er hægt að skoða bandarísku þjóðskrána?
Útgáfudagur
21.8.2003
Spyrjandi
Matthildur Ingadóttir, f. 1988
Tilvísun
EMB. „Hvar er hægt að skoða bandarísku þjóðskrána?“ Vísindavefurinn, 21. ágúst 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3671.
EMB. (2003, 21. ágúst). Hvar er hægt að skoða bandarísku þjóðskrána? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3671
EMB. „Hvar er hægt að skoða bandarísku þjóðskrána?“ Vísindavefurinn. 21. ágú. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3671>.