Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eftir því sem best er vitað hefur prjón borist til Íslands með kaupmönnum, þýskum, enskum eða hollenskum, á fyrri hluta 16. aldar. Líklegast þykir að þýskir kaupmenn hafi átt mestan hlut að máli. Elsta varðveitta prjónles eða prjónaði fatnaður sem til er á Íslandi og af íslenskum uppruna, mun vera sléttprjónaður belgvettlingur. Hann fannst við uppgröft að Stóruborg í Austur-Eyjafjallahreppi árið 1981 og þykir sennilegt að hann sé frá fyrri hluta 16. aldar, eftir fundarstaðnum að dæma. Á sama stað fannst sléttprjónaður smábarnasokkur og háleistur sem að öllum líkindum eru frá 1650-1750 og leifar af prjónlesi hafa fundist við uppgröft við Bergþórshvol (1927) en þær eru taldar vera frá því um 1600. Þetta prjónles á það allt sameiginlegt að vera sléttprjónað, prjónað í hring með fimm prjónum og sléttri (réttri) lykkju.
Belgvettlingur frá Stóruborg.
Ritaðar heimildir um prjón á Íslandi eru einna elstar úr bréfabók Guðbrands Þorlákssonar Hólabiskups, frá síðasta fjórðungi 16. aldar, en þá voru landskuldir að hluta til greiddar í prjónasaumi. Stundum hefur verið vísað í aðrar heimildir enn eldri, fornbréf frá árinu 1560, en þar er getið um prjónapeysur sem greiða mátti með landskuldir á bæ einum norðanlands.
Barnasokkur frá Stóruborg.
Prjón náði fljótt mikilli útbreiðslu hér á landi og kann ástæðan að vera sú að mun auðveldara var fyrir landsmenn að framleiða ullarvarning á þann hátt, hvort heldur sem var til sölu eða eigin nota, en með eldri aðferðum. Helst var prjónað úr ullarbandi í sauðarlitum en þó var til litað band, einkum svart, dökkblátt, rautt, grænt og gult og oftast voru flíkurnar þæfðar eftir á til að þær yrðu hlýrri og sterkari auk þess sem þær héldu betur vatni í rigningu.
Bæði karlar, konur og börn prjónuðu og prjónaskapur var ekki álitin sérstök kvennavinna eins og síðar varð. Mikið var flutt út af prjónlesi sem var mikilvægur hluti heimilistekna, enda áttu allir að skila ákveðnu magni af prjónlesi, allt frá 8 ára aldri. Prjónles til heimilisnota var einkum sokkar, belgvettlingar, fingravettlingar, treflar, peysur, buxur, skór, hettur, húfur og jafnvel axlabönd. Oft voru einnig nærföt karla og sokkabönd kvenna prjónuð og jafnvel tjöld og koddaver.
Háleistur frá Stóruborg.
Prjónles var stór hluti af útflutningsvarningi Íslendinga á 17. og 18. öld, sérstaklega á seinni hluta 18. aldar þegar það jafnaðist á við útflutningsverðmæti fiskafurða.
Lítið var um útprjón lengi vel en elstu prjónauppskriftir sem vitað er um á Íslandi eru frá Viðey, eignaðar Skúla Magnússyni fógeta, frá árunum 1760-1770. Um er að ræða karlmanns- og kvenmannspeysu og fylgdu þeim uppskriftir að karlmannssokkum, kvensokkum, nærbuxum og húfu. Hefðbundið íslenskt prjón var prjónað á fimm prjóna í hring, en ef flíkin var víð þurfti fleiri prjóna. Oftast var notað sléttprjón en brúnir á flíkum gjarnan prjónaðar með garðaprjóni (prjónað slétt bæði frá réttu og röngu) eða brugðningi (slétt og brugðið prjón til skiptis). Flíkur, eins og peysur og brjóstadúkar (vesti), voru formprjónaðar en það þýðir að flíkin var prjónuð eftir líkamanum, aukið út og tekið úr eftir þörfum og uppskriftin oft mjög flókin.
Fallegir íslenskir prjónavettlingar.
Prjónum hefur verið lýst í íslensku orðabókarhandriti frá 18. öld. Þar segir að þeir séu úr járni, mjóir og sívalir, hnúðlausir og um það bil spannarlangir (15,9 eða 18,5 cm). Einnig er sagt að þeim sé skipt í smábandsprjóna og duggarbandsprjóna eftir gildleika. Prjónar voru geymdir í prjónastokkum sem voru langir og mjóir tréstokkar, oft fallega útskornir með rósabekkjum ýmiss konar.
Heimildir og myndir:
Elsa E. Guðjónsson, „Um prjón á Íslandi“, Hugur og hönd, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, Reykjavík 1985
Fríður Ólafsdóttir, Íslensk karlmannaföt 1740-1850, Óðinn, Reykjavík 1999
Íslensk orðabók, 3. útg., ritstj. Mörður Árnason, Edda, Reykjavík 2002
Magnús Guðmundsson, Ull verður gull: Ullariðnaður Íslendinga á síðari hluta 19. aldar og á 20. öld (Safn til iðnsögu Íslendinga), Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1988
Vigdís Stefánsdóttir. „Hvenær lærðu Íslendingar að prjóna og af hverjum?“ Vísindavefurinn, 20. ágúst 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3669.
Vigdís Stefánsdóttir. (2003, 20. ágúst). Hvenær lærðu Íslendingar að prjóna og af hverjum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3669
Vigdís Stefánsdóttir. „Hvenær lærðu Íslendingar að prjóna og af hverjum?“ Vísindavefurinn. 20. ágú. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3669>.