Ekki hefur skapast föst venja um íslensk heiti á kynjum kanína svo höfundar þessa svars viti. Þess má þó geta að þegar innflutningur angórukanína hófst til landsins frá Vestur-Þýskalandi árið 1981, þótti tilefni til að finna nöfn á kynin en sú umræða bar ekki árangur. Ein tillaga hlaut nokkrar undirtektir og rétt að bera hana undir gesti Vísindavefsins: kani fyrir karlkanínur og kæna um kvenkanínur. Orðin eru mynduð eftir heitum karl- og kvenkyns hænsfugla, það er hani og hæna. Til dæmis eru þessi nöfn notuð á vef Húsdýragarðsins og kanínuunginn nefndur kjáni! Orðið „kani“ hefur nokkrar merkingar í íslensku á ólíkum málsviðum og í dýrafræði er það notað sem seinni liður í nöfnum nokkurra fuglategunda. Kannski eru því ekki flokkunarfræðilegar forsendur fyrir notkun orðsins yfir karlkyns kanínur. „Kæna“ er hinsvegar eingöngu tengt bátum og sjómennsku og því líklega óhætt að bæta dýrafræðilegri merkingu við orðið. Kanínueigendum og öðrum áhugamönnum um dýr og málfar er velkomið að senda inn sínar hugmyndir. Góðum hugmyndum verður komið á framfæri á þessari síðu. Heimildir og mynd:
- Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi, Örn og Örlygur, Reykjavík 1984
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990
- Cats & Rabbits & More
- Húsdýragarðurinn: Kanínur
- Kanínur
- Self-Guided Livestock Barn Tour
Fyrir kanínuáhugamenn skal bent á eftirtalin svör á Vísindavefnum (sem einnig má nálgast með því að smella á efnisorðin neðst í svarinu):
- JMH: Hver er meðgöngutími kanína?
- Jón Már Halldórsson: Hvað geta kanínur orðið gamlar?
- Ingibjörg Jónsdóttir og Rósa Björk Þórólfsdóttir: Hvað eru til margar tegundir af kanínum?