Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiLögfræðiEf báðir foreldrar falla frá ungu barni hver fær þá forsjána? Geta foreldrarnir tilnefnt guðforeldra og mundi ríkið fylgja óskum þeirra?
Hér er einnig svarað spurningu frá Kristínu Friðjónsdóttur um sama efni sem hljóðaði svona:
Hvert er hlutverk guðforeldra? Eru það guðforeldrar sem annast barnið, ef báðir foreldrar falla frá? Ef ekki, eftir hverju fer það þá?
Samkvæmt nýjum barnalögum sem taka gildi 1. nóvember 2003 geta forsjárforeldrar ákveðið hver eða hverjir fari með forsjá barns þeirra að þeim látnum og "skal þá eftir því farið nema sú ákvörðun sé andstæð lögum eða annað þyki barni fyrir bestu." (30. gr. 6 mgr.) Yfirlýsingu um þetta þarf að gefa skriflega og þarf undirritun hennar að vera staðfest af sýslumanni eða héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmanni:
Það skal skýlaust tekið fram að útgefandi yfirlýsingarinnar hafi ritað nafn sitt eða kannast við undirritun sína í viðurvist þess er undirskriftina staðfestir og að honum hafi verið leiðbeint um réttaráhrif yfirlýsingarinnar.
Um forsjá barns við andlát eins eða beggja forsjárforeldra gildir annars þetta:
Ef foreldrar fara sameiginlega með forsjá og annað þeirra andast fer eftirlifandi foreldri eitt með forsjá.
Ef annað foreldrið hefur farið með forsjá barns, fer stjúpforeldri eða sambúðarforeldri sem einnig hefur farið með forsjána áfram með hana eftir andlát forsjárforeldris. Þetta skýrist af því að ef foreldri sem fer eitt með forsjá gengur í hjúskap eða tekur upp sambúð með öðrum en hinu foreldrinu mun sá aðili fara með forsjána einnig. Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. varir forsjá stjúpforeldrisins eða sambúðarforeldrisins eingöngu meðan hjúskapur eða sambúð stendur, nema ef forsjárforeldri andast, eins og hér að ofan kemur fram.
Við andlát foreldris sem hefur farið eitt með forsjá barns hverfur forsjá þess til hins foreldrisins. Um þetta gildir þó að með samningi eða dómi er hægt að fela öðrum forsjá barns, ef það er talið barni fyrir bestu
Ef forsjárforeldrar andast og þeir hafa ekki gefið skriflega yfirlýsingu um hver muni fara með forsjá barns hverfur forsjá barnsins til barnaverndarnefndar. Hlutverk hennar er þá samkvæmt barnaverndarlögum að fela sérstökum fósturforeldrum umsjá barns.
Orðin guðfaðir og guðmóðir eru notuð um skírnarvotta barns. Við kristilega skírn eru tveir vottar tilgreindir sem eru viðstaddir athöfnina og eiga að ábyrgjast kristilegt uppeldi barnsins. Á Íslandi þurfa skírnarvottarnir ekki að vera karl og kona heldur getur barn átt tvo guðfeður eða tvær guðmæður. Staða guðforeldra hefur ekkert lagalegt gildi.
JGÞ. „Ef báðir foreldrar falla frá ungu barni hver fær þá forsjána? Geta foreldrarnir tilnefnt guðforeldra og mundi ríkið fylgja óskum þeirra?“ Vísindavefurinn, 7. ágúst 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3642.
JGÞ. (2003, 7. ágúst). Ef báðir foreldrar falla frá ungu barni hver fær þá forsjána? Geta foreldrarnir tilnefnt guðforeldra og mundi ríkið fylgja óskum þeirra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3642
JGÞ. „Ef báðir foreldrar falla frá ungu barni hver fær þá forsjána? Geta foreldrarnir tilnefnt guðforeldra og mundi ríkið fylgja óskum þeirra?“ Vísindavefurinn. 7. ágú. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3642>.