Það sem hins vegar vekur forvitni margra er hvers vegna við sýnum önnur viðbrögð þegar upptök snertingarinnar eru hjá okkur sjálfum – það er að segja hvers vegna getum við ekki kitlað okkur sjálf? Niðurstöður rannsókna benda til þess að ástæða þess að við getum ekki kitlað okkur sjálf tengist hæfileika heilans til þess að greina á milli þeirra ógrynna af taugaboðum sem honum berast stöðugt. Taugakerfið verður fyrir stöðugu áreiti og eru upptökin bæði í líkamanum sjálfum og í umhverfinu. Í mjög mörgum tilfellum þurfum við ekki að bregðast við áreitinu eða tilfinningunni. Sem dæmi má nefna að við veitum ekki sérstaka athygli hreyfingum tungunnar þegar við borðum, titringi raddbandanna þegar við tölum, þrýstingi sem fingurgómarnir verða fyrir þegar við notum lyklaborð tölvunnar eða þrýstingi á ilina þegar við stígum niður. Þetta er skýrt með því að heilinn geti greint á milli tilfinninga eða áreitis sem við eigum von á og óvæntra tilfinninga/skynjunar. Með því er hægt að hunsa það áreiti eða skynjun sem við eigum von á þannig að ekki sé verið að beina athyglinni að einhverju sem ekki „skiptir máli“ en beina henni frekar eitthvað annað. Þegar aðrir kitla okkur þá er um að ræða áreiti sem við eigum ekki von á (jafnvel þótt við vitum að það eigi að kitla okkur) og við sýnum viðbrögð. Þegar við reynum hins vegar að kitla okkur sjálf þá á heilinn von á áreitinu, býr sig undir að skynja snertinguna og útiloka viðbragð. Vísindamenn við University College London hafa gert rannsókn á þeim mismunandi viðbrögðum sem fólk sýnir annars vegar þegar það er kitlað og hins vegar þegar það reynir að kitla sig sjálft. Niðurstöður þeirrar rannsóknar benda til þess að það svæði í heilanum sem kemur í veg fyrir að við getum kitlað okkur sjálf sé litli heilinn sem meðal annars hefur það hlutverk að stjórna hreyfingum.
Einnig leiddi rannsóknin í ljós að með ákveðnu hjálpartæki má kalla fram sömu viðbrögð og kitl annarra veldur þegar maður kitlar sig sjálfur. Tæki þetta seinkar áreitinu og ákveðinn tími líður þá frá því að viðkomandi framkvæmir hreyfingu sem orsakar kitl og þar til líkaminn skynjar hreyfinguna. Þannig er hægt að valda „óvæntri“ tilfinningu og plata heilann. Áhugasamir geta kynnt sér niðurstöður þessarar rannsóknar í greininni Why can´t you tickle yourself? í NeuroReport. Heimildir og myndir:
- Sarah-Jayne Blakemore, Daniel Wolpert og Chris Frith, 2000. Why can't you tickle yourself?. NeuroReport 11:11-16.
- Why can't you tickle yourself? - HowStuffWorks.
- Eleanor Lawrence, Why you can’t tickle yourself. Nature, 22 október 1998.
- Why can't a person tickle himself? Scientific American. Upprunalega birt 4. ágúst 2003.
- Unnar Árnason: Hvers vegna hlær fólk þegar það er kitlað?
Greinilegt er að margir hafa velt fyrir sér hvers vegna okkur kitlar og hvers vegna ekki virðist vera hægt að kitla sig sjálfur. Aðrir sem sent hafa inn spurningar um þetta efni eru:
Sunnefa Gunnarsdóttir (f. 1993), Ómar Jónsson, Ölvir Gíslason, Gunnhildur Ægisdóttir (f. 1988), Hólmar Finnsson, Þórarinn Hjörleifsson, Elín Sigurðardóttir, Jónas Þorbergsson, Guðjón Reykdal Óskarsson (f. 1991), Elmar Unnsteinsson, Einar Óskar Sigurðsson, Þórunn Jakobsdóttir (f. 1991), Iðunn Garðarsdóttir (f. 1989) og Hilmar Hilmarsson