Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á sunnudagskvöldi, þann 30. október 1938 (kvöldið fyrir hrekkjavöku, e. Halloween), flutti bandaríska útvarpsstöðin CBS leikritið Innrásina frá Mars (The War of the Worlds) sem byggt var á vísindaskáldsögu H. G. Wells (1866-1946). Að leikgerðinni stóðu Orson Welles (1915-1985), sem síðar varð frægur kvikmyndaleikstjóri og -leikari, og leikhópurinn Mercury Theatre.
Samkvæmt rannsókn American Institute of Public Opinion lögðu níu milljónir fullorðinna og þrjár milljónir barna við hlustir þegar leikritinu var útvarpað. Litlu munaði að leikritið yrði aldrei flutt því að leikurunum þótti það fremur leiðinlegt og höfundur leikgerðarinnar átti í erfiðleikum með að gera söguna að góðu leikriti. Engan óraði fyrir hversu gífurleg áhrif leikritið myndi hafa og að það kæmist á spjöld sögunnar.
Í stuttu máli fjallaði leikritið um innrás Marsbúa á Bandaríkin. Var leikritið flutt í fréttaformi og hlustendum fluttar „fréttir“ af tortímingu bæja og borga. Þeim var meðal annars tilkynnt að Marsbúar hefðu lagt undir sig stór landsvæði og að New York-borg væri rústir einar eftir eiturefnaárás þeirra. Talið er að minnsta kosti ein milljón Bandaríkjamanna hafi orðið skelfingu lostin við „fréttirnar“ og þeir hlustendur trúað því að þeir væru að hlusta á raunverulegan fréttatíma. Viðbrögð fólks báru því einnig vitni að það hélt að innrás Marsbúa stæði yfir. Símalínur til fjölmiðla urðu rauðglóandi, hundruðir skelfdra New York-búa flúðu heimili sín í ofboði og maður í Pittsburgh kom að konu sinni þar sem hún var um það bil að stytta sér aldur til að lenda ekki í klónum á Marsbúunum.
Viðbrögð áheyrenda við Innrásinni frá Mars eru eitt besta dæmið um hversu mikil áhrif fjölmiðlar geta haft á hegðun fólks, það er að segja, sé ákveðnum skilyrðum fullnægt. Miklu máli skipti að leikritið þótti raunverulegt, hlustendur voru vanir að fá mikilvægar fréttir og tilkynningar í gegnum útvarpið, í leikritinu var rætt við „sérfræðinga“ til að auka enn á trúverðugleika þess og notuð voru staðarnöfn sem fólk þekkti. Síðast en ekki síst skipti máli hvenær fólk fór að hlusta á leikritið þar sem í upphafi var greint frá að um leikrit væri að ræða. Tæplega helmingur hlustenda byrjaði að hlusta eftir að leikritið hófst og missti því af byrjuninni.
Einnig má nefna annað og nærtækara dæmi um áhrif fjölmiðla. Þann 17. júní 1994 hélt íslenska þjóðin upp á hálfrar aldar afmæli lýðveldisins á Þingvöllum. Dagskráin á Þingvöllum hófst þegar um morguninn en það var ekki fyrr en um hádegisbilið sem umferðarhnútar mynduðust á helstu akleiðum frá höfuðborgarsvæðinu. Margar fjölskyldur eyddu deginum í bílum sínum, pikkfastar í umferðinni. Hægt er að velta fyrir sér hvað olli því að allir lögðu af stað á sama tíma. Líklegast skýringin er sú að fólk vildi vita hvernig veðrið væri á Þingvöllum áður en lagt væri af stað og þegar sjónvarpsmyndir sýndu að þar væri ágætis veður var ekki að sökum að spyrja.
Að sumar- sem og vetrarlagi reiða Íslendingar sig á veðurspár fjölmiðlanna og láta þær iðulega hafa áhrif á gerðir sínar. Er dagblöð slá því upp á forsíðum að besta veður sumarsins verði um helgina, draga fjölskyldur fram útilegubúnaðinn eða skipuleggja grillveislur.
Yfirleitt vara áhrif fjölmiðla á hegðun fólks aðeins í skamman tíma. Við dillum okkur í takt við tónlist í útvarpinu, tárumst yfir sorglegum kvikmyndum og ræðum við vini og starfsfélaga um fréttir gærdagsins - svo nokkur dæmi séu nefnd. Því miður eru að auki til alltof mörg dæmi um skaðleg langtímaáhrif fjölmiðla á hegðun fólks, sérstaklega á börn og unglinga. Börn hafa til dæmis slasað sig eða aðra eftir að hafa hermt eftir teiknimyndum og margir þjást af einhvers konar fælni eftir að hafa séð hryllingsmyndir, þora ekki í sund eftir að hafa séð kvikmyndina Jaws eða þola ekki dúkkur nálægt sér eftir að hafa séð myndina Child's Play.
Við erum oft meðvituð um áhrif fjölmiðla á okkur og við notum þá markvisst til að ná fram ákveðnum áhrifum. Margir hlusta á rólega tónlist í útvarpi til að slappa af og rannsóknir hafa meðal annars sýnt að vinnudagurinn hjá fólki getur haft áhrif á val þess á sjónvarpsefni í lok dags.
Að lokum má geta þess að fjölmiðlar eru iðulega notaðir til að ná fram jákvæðri breytingu á hegðun fólks, til að mynda til að fá fólk til að draga úr hraðakstri eða hætta að reykja. Fjölmiðlar hafa því ekki eingöngu neikvæð áhrif á hegðun fólks heldur geta þeir einnig haft mjög jákvæð áhrif á notendur sína.
Guðbjörg Hildur Kolbeins. „Er hægt að greina bein áhrif fjölmiðla á hegðun fólks?“ Vísindavefurinn, 17. júlí 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3587.
Guðbjörg Hildur Kolbeins. (2003, 17. júlí). Er hægt að greina bein áhrif fjölmiðla á hegðun fólks? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3587
Guðbjörg Hildur Kolbeins. „Er hægt að greina bein áhrif fjölmiðla á hegðun fólks?“ Vísindavefurinn. 17. júl. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3587>.