Upphaflega var spurt á þessa leið: Til hvers eru undirskálar? Ef maður hugsar um það er enginn tilgangur með þeim. Eða hvað?Undirskálar eru mikið þarfaþing. Án undirskála hefði H.C. Andersen til dæmis lent í vandræðum þegar hann skrifaði söguna Eldfærin:
Í fyrsta herberginu muntu sjá stóra kistu. Á henni situr hundur. Þér bregður kannski í brún því augun í honum eru á stærð við undirskálar.Íslenskum börnum hefði leiðst meira um aldamótin 1900 ef undirskálar hefðu ekki komið til en þær nýttust þeim við að blása sápukúlur eins og lesa má um hér á vef Þjóðminjasafnsins. Hér áður fyrr höfðu margir þann sið að hella kaffi úr bollanum á undirskálina og drekka svo af henni. Trúlega hefur þetta verið gert til að kæla kaffið. Hefðu undirskálar ekki verið fyrir hendi hefði orðið mikið sull þegar fólk fór að hella úr bollanum (þá væntanlega á ekki neitt!) og sjálfsagt hefðu margir skaðbrennt sig. Það er því kannski undirskálinni að þakka að við skulum vera til þar sem sullið og brunaskaðarnir hefðu líklega haft neikvæð áhrif á tilhugalíf forfeðra okkar.

Ritstjórn hefur borist athugasemd frá athugulum lesanda. Hann segir að Vesturlandabúar hafi misskilið hlutverk undirskála herfilega. Þegar þær bárust til Vesturlanda frá Kína fyrir margt löngu, hafi ferðalangurinn gleymt því að Kínverjar settu skálar þessar ofan á heita drykki, ekki undir. Með réttu ætti því svarið að fjalla um yfirskálar en ekki undirskálar! Ritstjórn hefur þó ákveðið að láta svarið standa og vonast eftir spurningu um yfirskálar frá forvitnum lesanda.
Heimild: Ævintýri H.C. Andersen, þýð. Sigrún Árnadóttir, Reykjavík: Vaka-Helgafell 1998. Mynd: Center for Instructional Technology Development við Toronto-háskóla