Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Vissulega var Kleópatra til og margar heimildir eru til um hina einu sönnu Kleópötru (þá sjöundu í röð egypskra drottninga sem báru það nafn). Sagnfræðingar deila nokkuð um áreiðanleika þessara heimilda og ýmsar þeirra hafa á sér þjóðsagnakenndan blæ. Listamenn hafa sótt sér efnivið í þann arf, þeirra á meðal William Shakespeare. Hér á Vísindavefnum má lesa yfirlit um ævi Kleópötru í svari Ulriku Andersson við spurningunni Fyrir hvað var Kleópatra drottning helst fræg og hvenær var blómaskeið hennar? Þar geta lesendur kynnt sér nánar ýmislegt sem látið verður ónefnt í þessu svari.
Þrátt fyrir alla þá umfjöllun sem Kleópatra og fræg ástarsambönd hennar hafa fengið, er litlar sem engar upplýsingar að finna um hvar hún var grafin eftir dauða hennar árið 30 f.Kr. Í sem stystu máli: enginn veit hvar Kleópatra hvílir. Leitin að grafhýsi hennar hefur orðið uppspretta ævintýra af ýmsum toga, fornleifaspennusagna í anda Indiana Jones, kvikmynda í sama dúr og tölvuleikja, svo nokkur dæmi séu nefnd. Í ævintýrunum er grafhýsið talið geyma fjársjóði mikla og að þar megi finna hluti með yfirnáttúrulega eiginleika. Sumir höfundar víla jafnvel ekki fyrir sér að segja Kleópötru vera í fullu fjöri þar innan veggja.
Fornleifafræðin hefur lengi vel ekki getað komið fram með neinar áþreifanlegar vísbendingar um staðsetningu grafhýsisins. Á vefsetrinu Archaeology.org má þó lesa frétt frá árinu 1997 um fornleifarannsókn sem gæti gefið vísbendingar um hvar síðasta hvílustað Kleópötru er að finna. Alexandría var höfuðborg grísku (makedónsku) konungsættarinnar sem ríkti í Egyptalandi eftir að Alexander mikli lagði landið undir sig árið 332 f.Kr. Þeirri ætt tilheyrði Kleópatra og var raunar síðasti egypski einvaldur ættarinnar. Þeir fornleifafræðingar sem fréttin segir frá, telja sig hafa fundið ummerki um eyjuna Antirrhodos sem var hluti af borginni Alexandríu, en á henni stóð höll Kleópötru eftir því sem gríski landfræðingurinn Strabon (63 f.Kr.–20 e.Kr.) skrifar í lýsingu sinni á löndunum kringum Miðjarðarhaf. Antirrhodos segjast fornleifafræðingarnir hafa fundið neðansjávar rétt utan við Alexandríu og minjar bendi til að þar hafi hin gríska konungsætt Egyptalands (Ptólemearnir) haft aðsetur. Þessi hluti Alexandríu hrundi í jarðskjálfta árið 365.
Ef tilgáta fornleifafræðinganna reynist rétt, má því geta sér til að grafhýsi Kleópötru sé að finna neðansjávar fyrir utan Alexandríu, á tiltölulega litlu dýpi. Þetta er þó einvörðungu tilgáta höfundar þessa svars og engar frekari vísindalegar forsendur liggja henni að baki. Við verðum því að bíða eftir frekari rannsóknum og kannski góðri lukku áður en gröf Kleópötru verður staðsett án efasemda.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Unnar Árnason. „Var Kleópatra til? Ef svo er, hvar hvílir hún?“ Vísindavefurinn, 30. júní 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3540.
Unnar Árnason. (2003, 30. júní). Var Kleópatra til? Ef svo er, hvar hvílir hún? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3540
Unnar Árnason. „Var Kleópatra til? Ef svo er, hvar hvílir hún?“ Vísindavefurinn. 30. jún. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3540>.