Myndin hér að ofan sýnir skipan helstu líffæra kóbraslöngu. Myndin er af karlkyns slöngu, en líffæraskipan kvenkynsins er nánast sú sama. Aftast á dýrinu er gotraufin (e. cloaca). Hún er sameiginlegur þarfagangur fyrir úrgang og egg eða sæði. Gotraufin er aftarlega á dýrinu; liggur kviðlægt á líkama slöngunnar. Vegna staðsetningar gotraufarinnar má sjá að aftasti hluti slöngunnar er arfur frá rófunni sem forfeður slangna höfðu. Eggin ganga sem sagt út eftir endaþarmi og út um gotraufina. Myndin hér að neðan sýnir þrjár tegundir slöngueggja. Slöngur hafa þróast í þá átt að vera sem rennilegastar og því hafa karlkyns slöngur ekki getnaðarlim heldur líkjast ytri kynfæri þeirra ytri kynfærum kvenslangna. Við mök leggja slöngurnar gotraufarnar saman og sæði flyst inn í líkama kvenslöngunnar. Ekki verpa allar slöngur eggjum; um 30 af hundraði tegunda gjóta kvikum ungum. Þær tegundir eru aðallega bundar við tempruð svæði þar sem veðurfarið hentar ekki mjúkum og leðurkenndum slöngueggjum. Móðureðlið er ekki sérstaklega sterkt hjá slöngum því eftir varpið yfirgefur móðirin eggin og skiptir sér ekki meira af þeim. Að vísu velur hún hreiðurstaðinn vandlega en þá er móðurumhyggjan upp talin. Við klak hefja ungarnir strax lífsbaráttuna en þeir eru óvenju sjálfbjarga, kvikir og með vel þroskuð skynfæri.
- Ernst, C. H. og Zug, George R. Snakes in Question. Smithsonian Institution Press, 1996.
- Bauchot, Roland (ritstj.). Snakes: A Natural History. Sterling Publishing, 1994.
- Myndir eru frá Microsoft Encarta alfræðiritinu.