Strútar (Struthio camelus) eru stærstu núlifandi fuglar heims og egg þeirra stærstu egg sem þekkt eru meðal núlifandi fugla. Þau eru um 15 cm á lengd, 12,5 cm að þvermáli og geta vegið allt að 1.350 g. Eftir að eggjunum hefur verið verpt tekur útungun um 40 daga. Helsta fæða strúta er gróður og halda þeir sig oftast í misstórum hjörðum í samfloti við önnur gresjudýr. Strútar geta leitað í hræ eða aðrar dýraafurðir ef slíkt er á vegi þeirra en þess konar fæða er minnihlutinn af venjulegri fæðu strúta. Ungarnir byrja ekki að éta strax heldur lifa á forðanæringu fyrstu vikuna en byrja síðan fljótlega að bíta gras. Þegar strútsungar eru orðnir mánaðargamlir geta þeir haldið í við fullorðna fugla. Strútar eru því nokkuð bráðþroska og laga sig þannig að þeim aðstæðum sem þeir lifa við í Afríku þar sem fjölmörg rándýr er að finna. Hreiðurkærir fuglar sem lifa við sömu aðstæður og strútar, yrðu mjög auðveld bráð. Nánar má lesa um strúta hér á Vísindavefnum með því að smella á efnisorðið í lok svarsins. Andstætt strútsungum eru dúfnaungar hreiðurkærir; halda lengi til í hreiðrinu. Fæðan sem dúfnaforeldrarnir æla ofan í unga sína er nokkurs konar mjólk eða drafli sem þeir framleiða sjálfir úr veggjum sarpsins á útungunartímanum. Dúfur og flamingóar eru einu fuglarnir sem framleiða slíka mjólk og kemur hormónið prólaktín þessari framleiðslu af stað í dúfunum líkt og hjá spendýrum. Rannsóknir á dúfnamjólk hafa leitt í ljós að hún hefur svipað næringargildi og spendýramjólk þegar tekið er tillit til þátta eins og próteininnihalds, vítamína, fitu og steinefna, en kalsíum og fosfór eru þar þó í miklu minni mæli en í spendýramjólk. Bæði kynin framleiða mjólkina. Mynd: Wilderness-safaris.com
Hvernig næra strútar nýfædda unga sína? En dúfur?
Strútar (Struthio camelus) eru stærstu núlifandi fuglar heims og egg þeirra stærstu egg sem þekkt eru meðal núlifandi fugla. Þau eru um 15 cm á lengd, 12,5 cm að þvermáli og geta vegið allt að 1.350 g. Eftir að eggjunum hefur verið verpt tekur útungun um 40 daga. Helsta fæða strúta er gróður og halda þeir sig oftast í misstórum hjörðum í samfloti við önnur gresjudýr. Strútar geta leitað í hræ eða aðrar dýraafurðir ef slíkt er á vegi þeirra en þess konar fæða er minnihlutinn af venjulegri fæðu strúta. Ungarnir byrja ekki að éta strax heldur lifa á forðanæringu fyrstu vikuna en byrja síðan fljótlega að bíta gras. Þegar strútsungar eru orðnir mánaðargamlir geta þeir haldið í við fullorðna fugla. Strútar eru því nokkuð bráðþroska og laga sig þannig að þeim aðstæðum sem þeir lifa við í Afríku þar sem fjölmörg rándýr er að finna. Hreiðurkærir fuglar sem lifa við sömu aðstæður og strútar, yrðu mjög auðveld bráð. Nánar má lesa um strúta hér á Vísindavefnum með því að smella á efnisorðið í lok svarsins. Andstætt strútsungum eru dúfnaungar hreiðurkærir; halda lengi til í hreiðrinu. Fæðan sem dúfnaforeldrarnir æla ofan í unga sína er nokkurs konar mjólk eða drafli sem þeir framleiða sjálfir úr veggjum sarpsins á útungunartímanum. Dúfur og flamingóar eru einu fuglarnir sem framleiða slíka mjólk og kemur hormónið prólaktín þessari framleiðslu af stað í dúfunum líkt og hjá spendýrum. Rannsóknir á dúfnamjólk hafa leitt í ljós að hún hefur svipað næringargildi og spendýramjólk þegar tekið er tillit til þátta eins og próteininnihalds, vítamína, fitu og steinefna, en kalsíum og fosfór eru þar þó í miklu minni mæli en í spendýramjólk. Bæði kynin framleiða mjólkina. Mynd: Wilderness-safaris.com
Útgáfudagur
27.6.2003
Spyrjandi
Bergljót Aðalsteinsdóttir
Tilvísun
Jón Már Halldórsson. „Hvernig næra strútar nýfædda unga sína? En dúfur?“ Vísindavefurinn, 27. júní 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3536.
Jón Már Halldórsson. (2003, 27. júní). Hvernig næra strútar nýfædda unga sína? En dúfur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3536
Jón Már Halldórsson. „Hvernig næra strútar nýfædda unga sína? En dúfur?“ Vísindavefurinn. 27. jún. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3536>.