- Er vont fyrir liðina að láta braka í puttunum?
- Er óhollt að láta braka í puttunum á sér?
- Það er alltaf verið að segja að maður fái liðagigt af því að láta braka í puttunum, en hvað gerist í raun og veru?
- Hvað gerist þegar látið er braka eða smella í liðamótum (til dæmis í puttum) og getur það skaðað eitthvað?
- Nú læt ég oft smella í fingrum og þegar ég beygi mig niður smellur líka oft í hnénu. Er þetta að einhverju leyti hættulegt?
Brak í liðum fingra, áhrif þess og afleiðingar, hefur ekki verið mikið rannsakað en menn þykjast þó vita hvað það er sem gerist þegar við látum smella í liðamótum af þeirri gerð sem eru í fingrunum. Utan um liðamótin er liðpoki úr bandvef sem tengir beinin og umlykur liðholið sem aðskilur beinaendana. Innst í liðpokanum er þunn liðhimna sem seytir (gefur frá sér) liðvökva sem fyllir liðholið. Hlutverk liðvökvans er að smyrja snertifleti beinanna, minnka núning í liðnum, næra brjóskhimnur beinanna og losa þær við úrgang. Utan við liðpokann og einnig í honum liggja liðböndin sem tengja beinaendana saman. Þegar við látum braka í liðum þá er í raun verið að færa liðinn úr eðlilegri stöðu og teygja á liðpokanum. Við það eykst rúmmál liðpokans og þrýstingur í honum minnkar. Í liðvökvanum er uppleyst gas, meðal annars koltvísýringur. Þegar þrýstingurinn minnkar losnar gasið úr vökvanum og myndar loftbólur (sem eru að mestu úr koltvísýringi) sem fylla upp í holrúmið sem skapaðist við aukið rúmmál liðpokans. Þegar liðurinn gengur í samt lag aftur vex þrýstingurinn og loftbólurnar falla saman. Talið er að hljóðið sem heyrist þegar við látum smella í liðum myndist þegar gasið losnar úr vökvanum og/eða þegar holrúmin falla saman. Þeir sem stunda mikið og reglulegt „puttabrak“ hafa sjálfsagt tekið eftir því að ákveðinn tími þarf að líða áður en hægt er að láta smella í sömu liðamótum aftur. Ástæða þess er sú að það tekur gasið sem losnar nokkurn tíma að leysast aftur upp í liðvökvanum. Sú saga er lífseiga að brak í liðum geti leitt til liðagigtar. Eins og segir í upphafi svarsins hefur þetta atferli ekki notið mikillar athygli meðal fræðimanna. Þó menn hallist að því að brak í liðum auki ekki líkurnar á liðagigt þá taka þær fáu rannsóknir sem gerðar hafa verið á þessu efni ekki af allan vafa. Hitt virðist ekki eins umdeilt að sé brak í liðum iðkað mikið og reglulega geti það, þegar til lengri tíma er litið, haft slæm áhrif á liðamótin þó það leiði ekki til liðagigtar. Bent hefur verið á að þegar látið er smella í liðamótum sé verið að færa liðinn í óeðlilega stöðu og teygja á liðböndunum, en styrkur liðbandanna er skiptir miklu til að halda beinendunum saman. Með stöðugu áreiti er hætt við að liðböndin missi hluta af teygjanleika sínum og liðurinn verði viðkvæmari fyrir skemmdum. Að lokum má geta þess að brakað getur í liðum af öðrum orsökum en hér hefur verið rætt um. Stundum heyrist brak í hné eða ökkla þegar staðið er upp úr sitjandi stöðu eða þegar gengið er upp stiga. Ástæða þess getur verið sú að sinar og liðbönd við liðamót eru að færast til við hreyfinguna og við það heyrist smellur. Það sama getur átt sér stað hjá þeim sem láta braka í hálsinum á sér. Heimildir:
- How stuff works - What makes your knuckles pop?
- Scientific American - What causes the noise we hear when we crack our knuckles or pop other joints?
- Elfstrom's Arthritis and Rheumatology Resources - Knuckle cracking: key to a better life, or the road to a living hell?
- University of Washington - Orthopaedics & Sports Medicine - Joint popping and cracking