Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svarið við þessu er auðvitað já eða: já, auðvitað!
Það að einhver verður engill jafngildir því að hann/hún/það fái vængi. Formúlan fyrir þessu er sem hér segir:
x verður engill <=> x -> x + vængir
Með því að setja x = fugl í þessari almennu formúlu fáum við
fugl verður engill <=> fugl -> fugl + vængir
og þá stendur orðið 'vængir' að sjálfsögðu fyrir nýtt vængjapar.
Þetta sýnist okkur morgunljóst eins og nú er tíska að segja, en hitt er okkur aftur á móti ókunnugt um, hvort nýju vængirnir snúi eins og hinir fyrri. Ef nýju vængirnir snúa til dæmis aftur á bak er engan veginn víst að fuglsengillinn geti flogið, og eins ef vængirnir snúa þannig að það sem vísar upp á venjulegum vængjum snúi niður á engilsvængjaparinu.
Raunar höfum við líka heyrt þá kenningu að fluggetustuðull aðila (x) margfaldist með -1 (mínus einum) við það að hann verður engill. Það merkir að sá sem getur ekki flogið núna getur það eftir englun en sá sem getur flogið núna missir hæfnina við það að verða að engli. Ef við táknum fluggetustuðulinn með F má tákna þetta svo á máli stærðfræðinnar:
F(x + vængir) = - F(x)
Ef fluggetustuðullinn F(x) tekur gildið +1 getur viðkomandi flogið en ef F(x) = -1 getur hann það ekki.
Nokkrir sérvitringar í þessari fræðigrein hafa sett fram þá kenningu að fuglar fái ekki nýja vængi þegar þeir verða englar, heldur fái þeir í staðinn hendur sem komi í góðar þarfir við hörpuslátt. Eins og allir vita fá allir nýir englar afhentan byrjendapakka með geislabaug í viðeigandi stærð, hörpu, eyrnatöppum og bæklingi um réttindi og skyldur engla. Þessi kenning hefur valdið miklu fjaðrafoki meðal vísindamanna en við hjá Vísindavefnum höfum, að vel íhuguðu máli, komist að þeirri niðurstöðu að hún sé hreinasta húmbúkk og plat og byggð á fölsuðum rannsóknaniðurstöðum. Allar viðurkenndar rannsóknir í þessum efnum sýna að yfirgnæfandi líkur séu á því að englun feli í sér nýtt par af vængjum (sjá t.d. Michaels & Angel 2000).
Heimildir:
Kim Cates (1995), Verndarenglar, Akureyri: Ás-útgáfan.
Mark Edmundson (1997), Nightmare on Main Street: angels, sadomasochism, and the culture of Gothic, Cambridge, MA: Harvard University Press.
G. Maurice Elliott (1919), Angels seen to-day, London.
E.M. Forster (1920), Where angels fear to tread, New York : Vintage Books.
René Goscinny (1978), Batnandi englar, Reykjavík: Fjölvi.
Guðrún Helgadóttir (1988), Sitji guðs englar, Iðunn.
Ísak Harðarson (1991), T-englar.
Desmond Meiring (1985), A Talk with the Angels: a thriller, St. Martin's Press.
Angelica Michaels og Gabriel Angel (2000), "Fourier analysis of post-mortal flight patterns in vertebrates", í Journal of Deistic Physics XXXIV, nr. 7.
Conor Cruise O'Brien (1969), Murderous angels: a political tragedy and comedy in black and white, London: Hutchinson.
Ólafur Gunnarsson (1986), Heilagur andi og englar vítis, Reykjavík : Forlagið.
John Tytell (1986), Naked angels: the lives and literature of the beat generation, New York: Grove Press.
Að lokum ber að geta þess að þetta er föstudagssvar og ber því ekki að taka alvarlega eitt einasta orð eða tákn í svarinu. Við minnum á að við höfum líka svarað því hvort mýs haldi að leðurblökur séu englar, en það svar tilheyrir sömu fræðigrein.
Ritstjórn Vísindavefsins. „Fá fuglar nýtt par af vængjum þegar þeir deyja og verða fuglaenglar?“ Vísindavefurinn, 20. júní 2003, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3515.
Ritstjórn Vísindavefsins. (2003, 20. júní). Fá fuglar nýtt par af vængjum þegar þeir deyja og verða fuglaenglar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3515
Ritstjórn Vísindavefsins. „Fá fuglar nýtt par af vængjum þegar þeir deyja og verða fuglaenglar?“ Vísindavefurinn. 20. jún. 2003. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3515>.