Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.Þetta merkir að það sem þú átt, hvort sem það er fasteign, bíll, bók eða dagblað, er þín eign og þú mátt ráðstafa henni að vild, svo framarlega sem það stangast ekki á við almannaheill eða önnur lög.
Viðurlög liggja við því að valda skaða eða spjöllum á eignum. Almennu hegningarlögin kveða skýrt á um bæði skilgreiningu á eignaspjöllum og refsiviðurlög við þeim. Í 257. gr. segir orðrétt:
Hver, sem ónýtir eða skemmir eigur annars manns eða sviptir hann þeim, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum. Hafi mikil eignaspjöll verið gerð, eða brot er að öðru leyti sérstaklega stórfellt, eða hafi hinn seki verið áður dæmdur fyrir brot á ákvæðum þessarar greinar eða 164., 165., fyrri málsgrein 168., fyrri málsgrein 176. eða 177. gr., þá má beita fangelsi allt að 6 árum. Ef verknaður, sem lýst er í 2. mgr. hér að ofan, hefur verið framinn af gáleysi, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 6 mánuðum. Mál út af brotum, sem í 1. og 3. mgr. getur, skal því aðeins höfða, að sá krefjist þess, sem misgert var við.Fyrsta málsgreinin tiltekur hvað teljist eignaspjöll. Það telst í raun einnig eignaspjöll ef eigandinn er sviptur forræði yfir eigum sínum án hans vitneskju eða samþykki. Þynging við slíkum brotum er síðan nefnd í annarri málsgrein sem bendir til þeirrar verndar sem eignarrétturinn nýtur. Undir þessa grein falla öll eignaspjöll, þar með talin veggjakrot og veggspjaldaálímingar, því með slíkum verknaði er verið að nýta sér eða skemma eignir annars manns sem samkvæmt þessum lögum er óheimilt og telst refsiverður verknaður. Mál verður þó einungis höfðað ef sá sem varð fyrir brotinu krefst þess. Mynd: Pecos.net