Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kísiliðjan við Mývatn vinnur hráefni sitt úr setlögum á botni Mývatns en ekki er vitað til þess að slík vinnsla úr votnámu fari fram annars staðar í heiminum. Mývatn er talið hafa myndast fyrir um 2300 árum og hefur það mikla sérstöðu meðal stöðuvatna á norðlægum slóðum. Vatnið er allt mjög grunnt og nær sólarljós alls staðar til botns. Mývatnssvæðið er eitt hið sólríkasta á landinu, ljóstillífun er því öflug og lífauðgi með fádæmum. Vatnið er auðugt af næringarefnum og það sem einkennir lífið í vatninu öðru fremur er mikill vöxtur og viðgangur vatnaþörunga.
Kísilgúr er myndaður af skeljum dauðra kísilþörunga sem hafa hlaðist upp á rúmum 2000 árum og mynda nú nokkurra metra þykkt setlag á botni Mývatns. Skeljarnar eru gerðar úr myndlausu (e. amorphous) kísiltvíoxíði, SiO2. Í náttúrunni finnst hreint kristallað SiO2 sem kvars, kristobalít og trídymit. Að auki eru margar gerðir þekktar af myndlausu SiO2 sem falla undir enska samheitið "silica" en það hefur verið þýtt sem kísl (kvk.) á íslensku. Þetta efni er líka stundum nefnt kísilsýra en það er ekki réttnefni nema það sé uppleyst í vatni. Í daglegu máli er oft einnig talað um kísil (samanber kísilútfellingar) en það er óheppileg málnotkun því að kísill er að réttu íslenska heitið fyrir frumefnið Si (Silicium). Kísiltvíoxíð er eitt algengasta efni jarðar.
Hluti þess jarðvatns sem rennur í Mývatn er jarðhitavatn ættað úr jarðhitakerfi Kröflueldstöðvarinnar. Jarðhitavatn er mjög auðugt af uppleystum efnum en kísilsýra er þar í yfirgnæfandi magni. Því má segja að Krafla ljái kísilþörungum í Mývatni byggingarefni í skeljar sínar. Nýmyndun kísilgúrs í Mývatni er mjög mikil og er talið að hún nemi 11 til 15 þúsund tonnum af skeljum á ári hverju. Til samanburðar má benda á að framleiðsla Kísiliðjunnar er 25-30 þúsund tonn á ári af kísilgúr, en til þeirrar framleiðslu þarf rúm 40 þúsund tonn af gúr.
Kísilskeljarnar eru örsmáar, frá nokkrum þúsundustu úr millimetra upp í einn millimetra að stærð. Skeljarnar eru holar að innan og veggir þeirra alsettir götum. Skeljarnar eru því gegndræpar og hafa mjög stórt innra yfirborð. Kísilgúr hentar því vel til síunar á vökva og sem fylliefni í ýmis konar iðnaði. Efnið í skeljunum er mjög hart, en hverahrúður, ópalar og kvarts er myndað úr sama efni og skeljarnar. Skeljaduftið er því líka gott slípiefni.
Mestur hluti þess bjórs sem drukkinn er í Evrópu er síaður gegnum kísilgúr áður en honum er tappað á flöskur. Gúrinn er einnig notaður til að sía sykurvökva, matarolíu, flugvélabensín og blóð í blóðbönkum svo að eitthvað sé nefnt. Sem fylliefni er hann notaður í málningu, pappír og í plastiðnaði en einnig til lyfjagerðar og í snyrtiefni. Þannig eru lyfjatöflur til dæmis gerðar úr samanpressuðum kísilgúr sem lyfinu hefur verið blandað í. Sem slípiefni er gúrinn meðal annars notaður í tannkrem og í bílabón.
Dælt er úr Mývatni frá maí fram í október meðan vatnið er íslaust. Dæluprammi sýgur botnleðjuna úr Mývatni og blandar hana vatni. Efninu er dælt í land um flotlögn frá prammanum yfir í dælustöð í Helgavogi. Þar er leðjan grófhreinsuð með sigtun áður en henni er dælt um þriggja km vegalengd til verksmiðjunnar í Bjarnarflagi. Í verksmiðjunni er gosaska og foksandur skilinn frá leðjunni en gúrnum dælt áfram í hráefnisþró 1 km norðan við verksmiðjuna.
Á degi hverjum er hráefni dælt úr þrónni í tanka við hlið verksmiðju. Þurrefni í leðjunni nemur þá um 11% af þyngd leðjunnar. Efnið er nú þurrkað í votvinnsludeild verksmiðjunnar, fyrst með sogsíum sem skilja um helming vatnsins frá, en síðan í röraþurrkurum, sem hitaðir eru með jarðgufu úr borholum í Bjarnarflagi. Við lok þurrkunar er rakainnihald um 3%.
Í þurrvinnsludeild eru lífrænar leifar brenndar úr hráefninu og skeljarnar glæddar við 1100° C. Glæðingin eykur kornastærð duftsins þegar hálfbráðnar skeljar límast saman. Að glæðingu lokinni er gúrinn malaður og flokkaður í framleiðslutegundir eftir kornastærð. Pökkun á gúrnum er sjálfvirk og snertir mannshöndin hvergi á gúrnum í framleiðsluferlinu. Framleiðslan er þannig fullkomlega hrein eftir glæðingu og pökkun og er hún notuð í matvælaiðnaði og við lyfjagerð án frekari meðhöndlunar.
Kristján Björn Garðarsson. „Hvað er kísilgúr og til hvers er hann framleiddur?“ Vísindavefurinn, 10. júní 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3489.
Kristján Björn Garðarsson. (2003, 10. júní). Hvað er kísilgúr og til hvers er hann framleiddur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3489
Kristján Björn Garðarsson. „Hvað er kísilgúr og til hvers er hann framleiddur?“ Vísindavefurinn. 10. jún. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3489>.