Ég hef heyrt að öll nöfn í Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien séu að finna í íslensku riti. Eftir hvern er ritið og hvað heitir það?Nöfn persóna í Hringadróttinssögu eru sótt víða en ekki öll á sama stað. Sum eru þannig búin til af höfundi frá grunni, önnur eru sótt í fornenskan menningararf en sum í fornnorrænar eða forníslenskar heimildir. Nafn konungs Róhans, Þjóðans Þengilssonar, er til dæmis sótt í norræn og íslensk dróttkvæði þar sem bæði nöfnin (Þjóðann og Þengill) eru skáldleg heiti á konungum. Nöfn dverganna sem eru förunautar Bilbó Bagga í Hobbitanum koma hins vegar öll nema eitt fyrir í Völuspá, í erindum 9-16 sem stundum eru kölluð „dvergatal“ Völuspár og þar kemur einnig fyrir nafnið Gandálfur. Vera má að þetta sé fóturinn fyrir spurningunni. Eini dvergurinn í Hobbitanum sem ekki kemur fyrir í Völuspá er Balinn. Nafnið Gimli kemur einnig fyrir í Völuspá en hins vegar ekki sem nafn á dverg. Mynd: Íslenski Lord of the Rings vefurinn
Er öll nöfn í Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien að finna í íslensku riti?
Útgáfudagur
30.5.2003
Spyrjandi
Rósa Kolbeinsdóttir, f. 1990
Tilvísun
Ármann Jakobsson. „Er öll nöfn í Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien að finna í íslensku riti?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3462.
Ármann Jakobsson. (2003, 30. maí). Er öll nöfn í Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien að finna í íslensku riti? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3462
Ármann Jakobsson. „Er öll nöfn í Hringadróttinssögu eftir J.R.R. Tolkien að finna í íslensku riti?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3462>.