Geirnyt er brjóskfiskur og tilheyrir ætt þeirri sem nefnist hámýs (Chimaerea). Hún getur orðið allt að 120 cm að lengd en er oftast 70-95 cm löng. Hrygnur eru miklu stærri er hængar. Geirnytin er hausstór og trjónustutt, með lítinn kjaft neðan á miðjum haus, og hefur sérkennilegar, samvaxnar tennur. Augu geirnytarinnar eru stór og hún er gild í framan en fer mjókkandi og endar í löngum mjóum halaþræði sem hefur orðið tilefni rottuhlutans í mörgum nöfnum hennar. Roðið á geirnytinni er slétt og hreisturslaust, hún er brúnleit að ofan, silfurgrá eða bronsbrún á hliðum og hvít að neðan. Afar lítið er vitað um ýmsa þætti í líffræði þessarar tegundar en vitað er þó að hún heldur sig við botninn á 100 til 1000 metra dýpi. Geirnyt finnst á norðaustanverðu Atlantshafi, frá Finnmörku, meðfram Vestur-Noregi, í norðanverðum Norðursjó og umhverfis Færeyjar og Ísland. Geirnyt hefur einnig fundist í Miðjarðarhafi, meðfram Atlantshafsströnd Marokkó, umhverfis Azor-eyjar og í Biscaya-flóa. Við Ísland virðist geirnytin vera algengust undan suður- og suðvesturströndinni eða frá Dyrhólaey til Breiðafjarðar. Algengt er að sjómenn fái hana í veiðarfæri vestur af Reykjanesi. Helsta fæða geirnytarinnar eru ýmsir hryggleysingjar, svo sem skeldýr, krabbadýr og ormar. Geirnytin hrygnir langoftast tveimur eggjum (pétursskipum), um 17 cm á lengd og 3 cm á breidd. Afkvæmin eru 11 cm á lengd við klak. Heimildir og mynd:
- Gunnar Jónsson. 1992. Íslenskir fiskar. Reykjavík: Fjölvaútgáfa
- Norsk marin fauna