Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eru apókrýfar bækur Biblíunnar bannaðar af sumum kirkjudeildum en ekki öðrum?
Hugtakið apókrýfur er notað í dag í biblíuvísindum og almennum trúarbragðafræðum um rit sem mynda hluta af rituðum trúararfi hinna fjölmörgu trúarbragða heims. Þeim hefur með einum eða öðrum hætti verið skipað til hliðar við rit sem hin ýmsu trúarbrögð og deildir innan þeirra hafa skapað miðlægan sess varðandi framsetningu og túlkun á trúararfinum hver sem hann er. Engu að síður hafa mörg apókrýf rit ekki síður átt vinsældum að njóta hvað sem liðið hefur og líður skilgreiningum trúarlegra yfirvalda. Þannig hefur Bhagavad-Gita hlotið sess eins og óopinber trúarbók Hindúa, Makkabeabækur síð-gyðingdómsins verið lesnar eins og textar um píslarvætti gyðinga í rabbínskum gyðingdómi og sögur af hinum ýmsu postulum kristinnar kirkju notið virðingar frá miðöldum til þessa dags sem vitnisburður um dýrðlega hegðun og kraftaverk.
Þegar spurt er um apókrýfar bækur Biblíunnar verður að gera greinarmun á tvenns konar notkun þessa hugtaks. (A) Annars vegar er um að ræða fjöldann allan af ritum sem spanna yfir þúsund ára sögu eða frá lokaskeiði síð-gyðingdómsins um tvö hundruð fyrir Krist og fram á níundu öld hins kristna tímatals. Öll þessi rit eiga sér með einum eða öðrum hætti skyldleika við bókmenntaform og innihald rita í Gamla- og Nýja testamentinu. Vegna þessara vensla er allur þessi fjöldi rita einu nafni nefndur Apókrýf rit Biblíunnar (e. Biblical Apocrypha). Í mörgum tilvikum er um að ræða rit sem sprottin eru úr ýmsum hópum síð-gyðingdómsins, rabbínsk gyðingdóms og kristinna hreyfinga einkum fram á fimmtu og sjöttu öld eftir Krist. Þessi athugasemd á ekki að koma á óvart þegar haft er í huga að til dæmis hin ýmsu rit Nýja testamentisins eiga uppruna sinn á meðal ólíkra kristinna hreyfinga í frumkristni.
Engin heildarútgáfa er til á apókrýfum bókum Biblíunnar í þessum skilningi. Til hægðarauka er gjarnan talað um apókrýfar bækur Gamla testamentisins annars vegar og apókrýfar bækur Nýja testamentisins hins vegar og þá einkum með tilliti til þess hvernig ritin sem um er að ræða hverju sinni tengjast ritum Biblíunnar. Besta safn apókrýfra bóka Gamla testamentisins í dag er tveggja binda verk ritstýrt af James H. Charlesworth (The Old Testament Pseudepigrapha, 1985). Við það verður að bæta útgáfu til dæmis Geza Vermes á Dauðhafshandritunum (The Complete Dead Sea Scrolls in English, 1998) og útgáfu til dæmis C. D. Younge á verkum Fílons frá Alexandríu en sum verka hans falla í þennan flokk bókmennta (The Works of Philo, 1993) svo þess helsta sé getið. Ýmsar aðrar útgáfur á fleiri verkum eru til en eins að framan getur verður að leita fanga í ýmsum og ólíkum útgáfum. Besta safn apókrýfra bóka Nýja testamentisins í dag er tveggja binda verk ritstýrt af Wilhelm Schneemelcher (Neutestamentliche Apocryphen in deutscher Übersetzung, 6. útg. 1996). Við það verður að bæta til dæmis útgáfu The Loeb Classical Library á verkum postulafeðranna svo kölluðu frá annarri öld (2 bn., endurpr. 1960) og útgáfu James M. Robinson á handritum sem fundust í Suður-Egyptalandi árið 1945 (The Nag Hammadi Library in English, 3. útg. 1988). Auk þessara meginbálka af apókrýfum bókum Nýja testamentisins verður að leita fanga í ýmsum útgáfum af margvíslegum textum eins og til dæmis frá hreyfingu Montanista og ótal annarra hreyfinga frá lokum fornalda - textum sem oft eru ekki varðveittir nema í örlitlum brotum.
Mikilvægi þessara fjölmörgu apókrýfu rita nýtur nú vaxandi áhuga og virðingar á meðal biblíufræðinga og annarra trúarbragðafræðinga. Þannig er löngu orðið ljóst að trúararfi hinna ýmsu greina gyðingdóms og kristindóms verða ekki gerð skil nema tekið sé tillit til allra þeirra fjölmörgu rita sem runnin eru undan einstökum greinum þessara trúarbragða. Önnur hugtök sem notuð hafa verið yfir þennan flokk rita en síður algeng og síður heppileg eru á ensku: Pseudepigrapha (rit undir dulnefni) og Extra-Canonical-Writings (rit sem ekki eru í helgiritasafni einhverra tiltekinna trúarbragða).
Í þrengri merkingu (B) er hins vegar talað um apókrýfar bækur Biblíunnar sem tiltekinn og upphaflegan hluta rita hins Gamla testamentis. Hér er um að ræða rit sem skrifuð voru á síðustu tveimur öldunum fyrir Krists burð, einkum af grískumælandi gyðingum í Egyptalandi. Þessi rit voru upphaflega ekki aðgreind sérstaklega frá öðrum ritum sem þekkt eru sem hið Gamla testamenti í dag enda sum rita þess, eins og Daníelsbók, frá sama tíma. Nokkru fyrr og fram á þennan tíma stóð yfir þýðing á hebreskum ritum Gamla testamentisins sem kann að mestu að hafa farið fram í Alexandríu í Egyptalandi. Grískumælandi gyðingar á dögum Jesú frá Nasaret notuðust þannig við gríska þýðingu á ritum Gamla testamentisins sem ef til vill er betur þekkt sem Sjötíumannaþýðingin (á ensku: Septuaginta eða einfaldlega LXX).
Hinar fyrstu kristnu hreyfingar tileinkuðu sér einmitt þessa grísku þýðingu á hebreskum ritningum ásamt frumsömdum verkum á grísku frá Egyptalandi. Á annarri öld eftir Krists burð tóku guðfræðingar hinnar nýju gyðingatrúar, það er að segja rabbínsks gyðingdóms sem varð til í kjölfar falls musterisins í Jerúsalem í kringum árið sjötíu eftir Krist, að skilgreina hvaða bækur þeir teldu eiga heima í trúarbók hinnar nýju gyðingatrúar. Niðurstaða þeirra varð sú að bækur samdar í Egyptalandi á grísku (og reyndar ein á arameísku) skyldu ekki teljast hluti af trúarbók hins nýja gyðingdóms. Þannig varð það hlutskipti kristinna hreyfinga að varðveita þessar bækur sem nú eru almennt þekktar undir nafninu Apókrýfar bækur Gamla testamentisins. Þær er með öðrum orðum ekki að finna í hinni svo kölluðu hebresku Biblíu (hebreska: TNK) sem rabbínskir gyðingar nota allt til þessa dags. Enda þótt hluti af þessum apókrýfu bókum Gamla testamentisins séu ekki nema fáeinar síður er vaninn að tala um fimmtán bækur í þessu safni frá tíma Híerónýmusar kirkjuföður á fjórðu öld. En hann þýddi grísku testamentin, þar með talið Apókrýfar bækur Gamla testamentisins, á latínu í útgáfu sem kölluð er Vulgata.
Nafngiftin apókrýf rit um öll rit af því tagi sem rætt hefir verið um hér að ofan kemur ekki til fyrr en undir lok fornalda hinna síðari. Sú notkun var fullkomlega jákvæð og upprunnin hjá Híerónýmusi. Upphaflega var nafnið notað til að gefa til kynna að til væru rit sem ekki væru á allra höndum (samanber ólíkan uppruna þeirra á meðal ólíkra hreyfinga) eða með öðrum orðum hulin eða dulin rit eins og gríska orðið apokryfos ber með sér. Ýmsar kristnar hreyfingar gerðu þannig tilkall til að þekkja rit sem einhverjar aðrar hreyfingar þekktu ekki eða áttu aðgang að.
Lengst af voru apókrýf rit gríska Gamla testamentisins hluti af arfleið kristinnar kirkju og eru svo enn, til dæmis í rómversk-kaþólsku kirkjunni og hinni lútersku. Flestar erlendar útgáfur af Biblíunni í hinni heilögu kaþólsku kirkju og lútersku kirkjunni innihalda því Apókrýfar bækur Gamla testamentisins í þessum þrengri skilningi. Það mun hafa verið af fjárhagslegum ástæðum að hætt var að gefa þær út af íslensku þjóðkirkjunni í útgáfum af Biblíunni til dæmis á síðustu öld. Þær hafa á hinn bóginn verið þýddar og gefnar út sérstaklega af þjóðkirkjunni og eru fáanlegar í nýrri þýðingu Árna Bergs Sigurbjörnssonar og Jóns Sveinbjörnssonar (Apókrýfar bækur Gamla testamentisins, 1991). Þess má geta að um þessar mundir er unnið að nýrri útgáfu á Biblíunni á íslensku og mun þjóðkirkjan ætla að prenta apókrýfar bækur Gamla testamentisins að nýju í þessari tilvonandi útgáfu.
Aðrar kirkjudeildir hafa hafnað þessum apókrýfum bókum Gamla testamentisins og sumar reyndar öllum öðrum apókrýfum bókum af kirkjupólitískum ástæðum sem eiga sér enga stoð í vísindalegri umfjöllun um þessi merku rit. Enda þótt kirkjufeðurnir svo kölluðu hafi þegar frá fyrstu öldum kristninnar tekið að nota heitið apókrýf rit í neikvæðri merkingu (þar sem þeir hafna tilkalli ýmissa kristinna hreyfinga sem töldu sig búa yfir opinberuðum en leyndum sannleik í sínum apókrýfum ritum) þá má segja að fyrst á sextándu öld hafi apókrýf rit fengið á sig neikvæðan skilning einmitt fyrir tilstilli þeirra hópa mótmælenda sem alfarið höfnuðu þessum ritum. Sú staðreynd að lúterska kirkjan á Íslandi hefir nú í áratugi talið réttlætanlegt að gefa út Biblíuna án þessara rita sýnir óumdeilanlega að hún telur þau engan veginn til jafns við önnur rit Biblíunnar. Frá sjónarhóli biblíufræðanna og trúarbragðafræðanna eru apókrýfar bækur á hinn bóginn einhverjar mikilvægastu heimildir til skilnings á ritum Biblíunnar og framþróun kristindómsins í öllum sínum ótal myndum.
Loks má geta þess að ýmsar kirkjudeildir kristinnar kirkju innihalda eitt eða fleiri rit úr hinum stóra flokki apókrýfra bóka annarra en þeirra sem í þröngum skilningi hafa verið skilgreind sem apókrýfar bækur Gamla testamentisins. Nýja testamentið sjálft geymir því ólíkt efnisyfirlit alveg eftir því hvar er drepið niður eins og til dæmis í Eþíópíu og á Íslandi!
Heimildir:
Sjá rit sem vitnað er til í texta
Ennfremur: Daniel J. Harrington, S.J., Invitation to the Apocrypha (1999).
Jón Ma. Ásgeirsson (1957-2012). „Hvað eru apókrýfar bækur Biblíunnar?“ Vísindavefurinn, 15. maí 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3421.
Jón Ma. Ásgeirsson (1957-2012). (2003, 15. maí). Hvað eru apókrýfar bækur Biblíunnar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3421
Jón Ma. Ásgeirsson (1957-2012). „Hvað eru apókrýfar bækur Biblíunnar?“ Vísindavefurinn. 15. maí. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3421>.