Af hverju gefa kettir frá sér þetta einkennilega kjökur þegar þeir sjá bráð? Hvaða tilgangi þjónar það?Kattareigendur þekkja það vel að kettir gefa frá sér ýmis hljóð. Það algengasta er mjálmið (mjá mjá mjá), en það hljómar með ýmsum blæbrigðum; rólegt, hvetjandi eða kveinandi. Með tíð og tíma er hægt að ráða í merkingu þessa mismunandi mjálms. Urrið, sem er dæmigert fyrir rándýr, er viðvörun og þá er best fyrir viðkomandi að koma sér í burtu því næsta skref kattarins er árás. Eitt hljóð sem hefur vakið eftirtekt margra kattareigenda er gaggið (jek jek jek) sem kettir gefa frá sér þegar þeir horfa út um glugga á smáfugla. Þetta er skýrt dæmi um veiðieðli kattarins og löngun hans til að hremma bráðina. Gaggið táknar vonbrigði kattarins við því að geta ekki náð henni. Sama gagg má heyra utandyra þegar fuglinn flýgur of hátt og kötturinn nær honum ekki. Heimildir: Fritzsche, Helga. 1985. Bókin um köttinn (í þýðingu Óskars Ingimarssonar). Setberg. Reykjavík.
Mynd: PBS