Hvað olli þessari breytingu? Fyrst er að nefna hjónaband Ferdinands og Ísabellu árið 1463. Þá sameinuðust konungsríkin Kastilía og Aragón og þar með allt það landssvæði sem í dag er kallað Spánn. Þau ákváðu að kastilíska eða spænska yrði tungumál konungsríkisins og smám saman tók spænska yfir önnur tungumál og mállýskur sem töluð voru í öðrum héruðum Spánar. Árið 1492 kom út fyrsta orðabók spænskrar tungu; orðabók Nebrija. Jafnframt markaði þetta ár upphafið á útbreiðslu spænskrar tungu sem enn hefur ekki verið stöðvuð. Kristófer Kólumbus hélt yfir Atlantshafið í leit að nýjum Indíum og opnaði þannig Rómönsku Ameríku fyrir spænskri tungu. Landvinningamennirnir náðu yfirráðum í stjórnmálum og trúarbrögðum og tungumál þeirra urðu ríkjandi í Rómönsku Ameríku og þess vegna er spænska opinbert móðurmál langflestra landanna þar. Þessi lönd eru Mexíkó, Gvatemala, Hondúras, El Salvador, Níkaragva, Kostaríka, Panama, Kúba, Dóminíska lýðveldið, Venesúela, Kólumbía, Ekvador, Bólivía, Perú, Paragvæ, Úrugvæ, Argentína og Chile. (Í Brasilíu er aftur á móti töluð portúgalska sem kunnugt er.) Stór hluti þess svæðis sem nú telst til Bandaríkjanna tilheyrði Mexíkó allt fram til ársins 1848 og var spænska móðurmál íbúa þess landsvæðis. Þannig bera borgirnar Los Ángeles (englarnir), San Francisco (heilagur Frans) og Santa Cruz (helgur kross) í Kaliforníu spænsk nöfn. Á tuttugustu öld hófst svo mikill straumur fólks frá Rómönsku Ameríku til Bandaríkjanna. Í dag er talið að um 40 milljónir manna í Bandaríkjunum hafi spænsku að móðurmáli en íbúar Spánar eru einmitt rúmar 40 milljónir. Þó er spænska ekki móðurmál allra Spánverja því að þar er líka töluð baskneska (í Baskalandi), galisíska (í Galisíu), katalónska (í Katalóníu) og valensíska (í Valensíu).
Að síðustu má geta þess að spænska er töluð í tveimur borgum í Marokkó sem Spánverjar hafa enn yfirráð yfir. Þær heita Ceuta og Melilla.