Hvað getur skuggahlébarði hoppað hátt? Í hvaða löndum lifir hann? Hvað heita kynin og afkvæmin?
Skuggahlébarðinn (e. clouded leopard, latína Neofelis nebulosa) er vel aðlagaður lífi í trjám og sýnir mikla fimi þegar hann stekkur á milli trágreina eins og api væri. Ekki hafa farið fram neinar skipulegar rannsóknir á stökkkrafti skuggahlébarðans, eftir því sem höfundur svarsins best veit, og margt er í reynd á huldu um vistfræði hans. Skuggahlébarðar eru millistórir kettir, karldýrin eru um 100 cm á lengd (utan rófu) og vega 22-28 kg. Læðurnar eru smærri. Áður fyrr voru skuggahlébarðar flokkaðir innan ættkvíslarinnar Panthera (stórkettir) en eru nú greindir sem eina tegundin í ættkvíslinni Neofelis. Líkt og allir aðrir kettir fyrir utan ljón, eru þeir einfarar og forðast í lengstu lög að vera nærri mannabyggðum. Þess vegna hafa vistfræðirannsóknir á skuggahlébarðanum verið torveldar. Þó er vitað að hann heldur sig í þéttum og stundum ógreiðfærðum regnskógum Suðaustur-Asíu, nánar tiltekið í Malasíu, Taílandi, Búrma (Myanmar), Kambódíu, Víetnam og svo á eyjunum Súmötru, Jövu, Borneó og Taívan. Kyn skuggahlébarðarins nefnast fress (karlkyn) og læða (kvenkyn) og afkvæmin nefnast kettlingar (e. kittens) líkt og hjá öðrum kattardýrum. Heimildir og mynd: