Af hverju finnst orðið ritmálsskrá ekki í Orðabók Háskólans þó að það sé notað á titilsíðu orðabókarinnar?Orðið ritmálsskrá var búið til á Orðabók Háskólans til þess að lýsa ákveðinni skrá sem stofnunin lét vinna að. Ábendingin er góð, auðvitað ætti orðið að vera í safni Orðabókarinnar, en það á einnig við um mörg orð í samtímamáli. Þau vantar í gagnasafnið vegna þess að við erum enn að safna og koma orðum fyrir. Í gagnasafnið fara aðeins orð og dæmi sem birst hafa á prenti, öðru er haldið til haga í svokölluðu talmálssafni þar til við finnum góð dæmi. Við erum sífellt að bæta safnið og orðið ritmálsskrá, sem nú er komið á prent, fer þar inn innan tíðar. En hvað er þá ritmálsskrá? Söfnum Orðabókarinnar er skipt í þrennt, ritmálssafn með dæmum úr prentuðum bókum, talmálssafn, með dæmum sem fengin eru frá heimildarmönnum Orðabókarinnar eða orðum sem við heyrum og skráum niður, og textasafn, með tölvutækum textum sem við notum til dæmaleitar. Í ritmálssafni eru um 2.2 milljónir seðla með dæmum um orð og orðanotkun. Fyrir um tveimur áratugum var ætlunin að reyna að koma þessu safni í tölvutækt form. Menn sáu fljótt að slíkt yrði afar kostnaðarsamt og var þá farin sú leið að slá inn öll orðin í safninu ásamt lágmarks heimildum um þau. Orðin reyndust um 620.000 og fékk þessi skrá heitið ritmálsskrá. Þegar haldið var upp á 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins 1994 fékk Orðabókin veglegan styrk til þess að slá inn þau dæmi sem til voru um orðin í safninu og er því verki nánast lokið. Ritmálsskráin, ásamt þeim dæmum sem þegar hafa verið slegin inn, er nú aðgengileg á netinu. Sams konar skrá hefur verið gerð um talmálssafnið og er hún kölluð talmálsskrá. Hún hefur enn ekki verið opnuð almenningi en unnið er að því.
Útgáfudagur
28.4.2003
Spyrjandi
Jón Oddsson
Tilvísun
Guðrún Kvaran. „Af hverju finnst orðið ritmálsskrá ekki í Orðabók Háskólans?“ Vísindavefurinn, 28. apríl 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3369.
Guðrún Kvaran. (2003, 28. apríl). Af hverju finnst orðið ritmálsskrá ekki í Orðabók Háskólans? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3369
Guðrún Kvaran. „Af hverju finnst orðið ritmálsskrá ekki í Orðabók Háskólans?“ Vísindavefurinn. 28. apr. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3369>.