Alls voru veiddir 4.677 refir á Íslandi árið 2001. Flestir refir eða 524 voru veiddir í Vestur-Barðastrandarsýslu, 346 í Austur-Húnavatnssýslu og 330 í Strandasýslu. Þau sveitarfélög þar sem mest var veitt af ref eru Vesturbyggð (333), Skagafjörður (365), Hornafjörður 222, Húnaþing Vestra (220) og Reykhólahreppur (150). Á heimasíðu veiðistjóraembættisins www.veidistjori.is má sjá yfirlit yfir hvernig veiðar á ref og mink hafa þróast undanfarna áratugi. Selveiðar eru fyrst og fremst stundaðar við Húnaflóa og Breiðafjörð. Samkvæmt tölum frá Hafrannsóknastofnuninni voru alls veiddir 1062 selir við Ísland árið 2001, þar af voru 723 land- og útselskópar, 318 fullorðnir land- og útselir og 21 blöðruselur. Hugsanlega er eitthvað veitt af sportveiðimönnum en það er óverulegt. Eins kemur eitthvað af sel í grásleppunet og jafnvel önnur net en það er hvergi skráð.
Þess má geta að á árum áður var tölvuvert meira veitt af sel. Sem dæmi má nefna að á árunum 1969-1977 voru veiddir á bilinu 6200-6900 selir árlega. Samdrátt í veiði má að einhverju leyti skýra með minni eftirspurn eftir skinnum. Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunarinnar er að finna fróðleik um landseli og útseli eftir Erling Hauksson. Heimildir:
- Áki Ármann Jónsson - veiðistjóri
- Árni Snæbjörnsson - hlunninda- og jarðræktarráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands
- Hafrannsóknastofnunin - Nytjastofnar sjávar 2001/2002, Selir og tafla 3.30.1