Höfuð gílaeðlunnar er allstórt og kjálkarnir sterklegir, en hálsinn stuttur. Halinn er sver og um það bil þriðjungur af lengd dýrsins. Framlimirnir eru frekar stuttir með stórar klær á öllum fimm fingrum. Afturlimirnir eru svolítið lengri en framlimirnir, en sterklegri og einnig með klær á öllum fimm tám. Húðin er hreistruð, næstum því svört á lit, en með bleik- eða gulleitum blettum á höfði, bol og útlimum. Halinn er hins vegar þverröndóttur þar sem skiptast á 3-4 svartar rendur aðskildar af bleikleitum röndum með svörtum blettum Þó svo að gílaeðlan sé eitruð er hún ekki árásargjörn. Ef hún er króuð af, snýst hún hins vegar óhikað til varnar og opnar munninn og hvæsir. Ef sá sem ógnar henni hörfar ekki, stekkur hún á hann, bítur fast og spýr eitri í bitsárið um rennu á tönnum í neðri kjálka. Eitur gílaeðlunnar er afar öflugt taugaeitur og veldur því að fórnarlambið lamast. Sem betur fer eru fá dæmi þess að mannfólk hafi verið bitið af gílaeðlu, ástæðan fyrir því er fyrst og fremst að afar erfitt er að finna hana í náttúrunni. Á sumrin heldur hún sig neðanjarðar yfir daginn til að forðast hita, en þegar rökkva tekur fer hún á flakk og leitar sér að bráð. Skinn gílaeðlunnar er gegndræpara en skinn annarra eðlna, sérstaklega þeirra sem eiga sér heimkynni á eyðimerkursvæðum, og því er hún viðkvæmari fyrir varmatapi heldur en þær. Þess vegna heldur hún sig í forsælu yfir daginn nema rakinn sé mikill, en þá er líklegara að hún athafni sig eitthvað undir beru lofti yfir hádaginn, og meiri líkur á að sjá hana. Á veturna leggst hún í dvala.
Á meðan á vetrardvala stendur notar gílaeðlan fituforða sem hún hefur safnað yfir sumartímann. Fitusöfnun verður aðallega í halanum sem er stuttur og gildur, og mjög ólíkur hala annarra skriðdýra. Gílaeðlan virðist geta lifað mánuðum saman án þess að fá fæðu. Uppáhaldsfæða gílaeðlunnar eru fuglsegg en hún hremmir einnig fuglsunga ásamt fleiri dýrum, svo sem smá spendýr, froska og lítil skriðdýr. Rannsóknir hafa staðfest að gílaeðlan notar næstum því aldrei eitrið til að lama bráð, heldur aðeins til sjálfsvarnar. Litlar rannsóknir hafa verið gerðar á æxlun gílaeðlunnar en þó er ýmislegt vitað um það ferli. Æxlun á sér stað snemma á sumrin. Karldýrið þefar kvendýrið uppi með tungunni og þegar kynin hittast þefar karlinn af henni og biðlar til hennar. Ef kvendýrinu líkar ekki við vonbiðilinn, lætur hún það mjög glögglega í ljós með því að bíta og klóra hann eldsnöggt og skríða síðan í burtu. Karlinn fer þá sína leið vonsvikinn og heldur leitinni áfram. Ef saman hefur gengið með kynjunum, verpir kerla eggjum í júlí eða ágúst, að meðaltali fimm eggjum í einu. Þó er þekkt að kvendýr verpi frá aðeins einu eggi og allt upp í 15 eggjum. Hún verpir þeim í holu sem hún grefur í rökum jarðvegi. Eggin klekjast þar síðan út í 11-12 mánuði. Að þeim tíma liðnum skríða ungarnir úr eggjunum og hefja lífsbaráttu sína einir og án handleiðslu eða verndar móður sinnar. Ungarnir eru allt að því 11 cm langir þegar þeir skríða úr eggjunum Helstu óvinir gílaeðlunnar eru mennirnir. Vinsælt var að safna þessum dýrum og geyma þau í búrum og einnig hafa geysistór búsvæði verið eyðilögð vegna mannvirkjagerðar. Reyndar er gílaeðlan vernduð samkvæmt náttúruverndarlögum Arizonaríkis. Af öðrum óvinum hennar má nefna skröltorma sem drepa urmul af ungum gílaeðlum, en fullorðnum dýrum stafar mest hætta af ýmsum ránfuglum, svo sem haukum og uglum. Þekkt er að sléttuúlfar drepa einnig gílaeðlur. Sleppi þær óskaddaðar frá óvinum sínum, geta gílaeðlur orðið allt að 20 ára gamlar Tvær deilitegundir gílaeðlunnar eru þekktar, þær eru H. suspectum suspectum og H. suspectum cinctum. Helsti útlitsmunurinn á þeim er sá að sú fyrnefnda, sem lifir sunnar, er með netmynstraðar rákir en sú síðarnefnda hefur sverar þverrendur um skrokkinn. Heimildir og myndir:
- Ernst, C.H. 1992. Venomous Reptiles of North America. Smithsonian Institution Press, Washington
- Schmidt, K. P. Living Reptiles of the World. 1957
- Madera Canyon
- Californa Academy of Sciences