- Hvaða áhrif hafa tölvuleikir sem innihalda klám og ofbeldi á börn? (Ágústa Guðmundsdóttir)
- Hafa tölvuleikir vond áhrif á börn? Ef svo er hvers vegna? (Andrés Garðar)
- Eru títtnefndir bardagatölvuleikir á borð við Quake og Half-Life taldir hættulegir börnum og unglingum? (Frosti Heimisson)
Svo virðist sem ekkert sé vitað um áhrif kláms í tölvuleikjum á börn. Af siðferðislegum ástæðum hafa fáar rannsóknir verið gerðar á áhrifum kláms á börn og unglinga en þær rannsóknir hafa sýnt að klámefni og annað kynferðislegt efni getur haft áhrif á viðhorf þeirra til kynlífs og á kynlífshegðun þeirra. Unglingar sem horfa til dæmis á klámmyndir, telja að sú hegðun sem þeir sjá þar sé eðlileg. Þessir sömu unglingar eru líklegri til að hafa haft fleiri rekkjunauta en jafnaldrar þeirra og vera síður líklegir til að nota getnaðarvarnir við samfarir. Tekið skal fram að flestar rannsóknir á áhrifum tölvuleikja hafa mælt skammtímaáhrif leikjanna en lítið er vitað um hugsanleg langtímaáhrif þeirra. Jafnframt ber að nefna að þó að börn og unglingar noti tölvuleiki með klámi og ofbeldi þýðir það alls ekki að þau verði fyrir varanlegum skaðlegum áhrifum. Fjölskyldan er stærsti áhrifavaldurinn í lífi barna og unglinga, og séu tengsl foreldra og barna góð hafa ofbeldi og klám í fjölmiðlum og tölvuleikjum yfirleitt lítil áhrif á þau. Þau börn sem alast upp við ofbeldi, vanrækslu og jafnvel misnotkun, eru hins vegar í áhættuhópi og í tilfelli þeirra getur ofbeldis- og klámefni verið sem olía á eld.