Höfundar verka, sem útvarpað hefur verið eða gefin hafa verið út á hljóðriti eða myndriti, eiga rétt á sérstöku endurgjaldi vegna upptöku verka þeirra til einkanota á bönd, diska, plötur eða aðra þá hluti, í hvaða formi sem er, sem taka má upp á hljóð og/eða myndir með hliðrænum eða stafrænum hætti. Enn fremur skal greiða endurgjald af tækjum sem einkum eru ætluð til slíkrar upptöku. Gjöld þessi skulu greidd hvort sem um innlenda eða innflutta framleiðslu er að ræða og hvílir skylda til að svara gjöldunum á innflytjendum og framleiðendum.Gjaldið er nákvæmlega skilgreint í lögunum:
- Af tækjum skal endurgjaldið vera 4% af innflutningsverði eða framleiðsluverði ef um innlenda framleiðslu er að ræða.
- Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku hljóðs eingöngu skal gjaldið nema 35 kr.
- Af böndum, diskum, plötum eða öðrum hlutum til upptöku mynda, eftir atvikum ásamt hljóði, skal gjaldið nema 100 kr.
- Gjöld skv. 2. og 3. tölul. eru miðuð við að lengd flutningstíma sé allt að 180 mínútur fyrir hluti til hljóðupptöku og allt að 240 mínútur fyrir hluti til myndupptöku. Sé flutningstími lengri hækkar gjaldið hlutfallslega sem því nemur.