Það eru ekki bara mennirnir sem geispa heldur líka dýr eins og hundar, kettir og jafnvel fiskar. Ein þeirra skýringa sem komið hafa fram á því hvers vegna geispi er smitandi tengist þeirri hugmynd að þetta sé ákveðin samskiptaleið dýra til að koma á framfæri upplýsingum um breyttar aðstæður annaðhvort í umhverfinu eða hjá dýrinu sjálfu. Út frá þessari skýringu er líklegt að smitandi áhrif geispa sé hluti af samskiptum innan hóps dýra, jafnvel einhvers konar samhæfð eða samstillt hegðun. Sé þetta raunin þá er geispi hjá mönnum leifar hegðunar eða viðbragða sem hefur tapað tilgangi sínum þegar tegundin þróaðist og hefur enga sérstaka merkingu nú í dag. Önnur skýring á því hvers vegna geispi breiðist út í hópi fólks tengist þeirri kenningu að geispi sé leið líkamans til þess að ná sér í aukið súrefni eða losa sig við uppsafnað koldíoxíð. Hugmyndin er á þá leið að þar sem stærri hópur framleiði meira af koldíoxíð þá förum við að geispa þegar við erum innan um fólk til þess að losa okkur við koldíoxíð, en komum þá jafnframt af stað einhverskonar keðjuverkun og hinir fara að geispa líka. Rannsóknir hafa þó sýnt að aukið súrefni dregur ekki úr geispa og minni styrkur koldíoxíðs kemur heldur ekki í veg fyrir geispa. Sé það rétt gengur skýringin á smiti geispa vegna aukins styrks á koldíoxíði í umhverfinu ekki upp. Vísindin eiga enn eftir að koma með fullnægjandi skýringu á því hvers vegna geispi er smitandi. En gaman væri að vita hversu margir lesendur geispuðu á meðan þeir lásu þetta svar. Heimildir og mynd:
Margir hafa spurt um það hvers vegna geispi er smitandi. Aðrir spyrjendur sem sent hafa inn sömu eða sambærilega spurningu eru:
Jónína Rut, Margrét Helgadóttir, Alexander Freyr Einarsson, Ari Egilsson og Hafsteinn Einarsson.