Í byrjun árs 1999 var einungis vitað um 23 bloggsíður, en með tilkomu fyrrnefndra vefsíðna, auk annarra, fóru þúsundir að skrifa á netið: Til að tjá sig um allt og ekkert, koma sér á framfæri eða til að koma á auðveldum samskiptum við fjölskyldu, vini eða viðskiptafélaga, nær sem fjær. Eitt helsta einkenni bloggsins er að þar eru fyrst og fremst persónulegar skoðanir og vangaveltur einstaklingsins, ólíkt úthugsuðum heimasíðum fyrirtækja sem unnar eru af dýrum auglýsinga- og almannatengslafyrirtækjum. Því má segja að bloggið haldi ennþá sínum upprunalega einfald- og heiðarleika. Bloggið er ný bókmenntategund í örri þróun. Það mætti segja að það sé nútímalegur bræðingur af hinni hefðbundnu dagbók, sendibréfinu, tölvupósti og persónulegum heimasíðum. Margir skáldsagnahöfundar hafa nýtt sér dagbókarformið í textum sínum og nægir þar að nefna skáldsögurnar The Secret Diary Of Adrian Mole, Aged 13.3/4 eftir Sue Townsend og Dagbók Bridget Jones eftir Helen Fielding. Raunverulegar dagbækur hafa líka verið gefnar út, eins og til dæmis Dagbók Önnu Frank. Skáldsögur hafa einnig verið ritaðar í sendibréfaformi, en sú frægasta er vafalaust Les Liaisons Dangereuses eftir Choderlos de Laclos. Við bíðum samt enn eftir skáldsögum byggðum á tölvupósti, en þess er sjálfsagt ekki langt að bíða. Nú verður æ vinsælla meðal rithöfunda að hjálpast að með fagurfræðilegan texta, og má þar nefna samstarf Stephen King og Peter Straub, sem unnu saman að bókunum The Talisman og The Black House með aðstoð tölvupósts. Prósaverkið Hypoteser for to stemmer eftir Danina Morten Søndergaard & Tomas Thøfner var einnig unnið með hjálp tölvupóst, en þeir kynntust á netráðstefnu og hittust ekki fyrr en verkið var vel á veg komið. Svonefndar "bloggbókmenntir" hafa nokkuð verið í umræðunni en það sem einna helst háir þessari tegund ritverka er að hið innbyggða eðli netmiðilsins færist illa yfir á pappir. Í bók er ekki hægt að tengja á milli vefsíðna en ef til vill leysist það með tilkomu svokallaðra rafbóka. Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Hver er mest sótta heimasíðan á veraldarvefnum? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Hver var fyrsta heimasíðan og hvar er hægt að finna hana? eftir Hauk Hannesson
- Hvenær tengdist Ísland við internetið? eftir Maríus Ólafsson