Hefðbundin tvíhyggja sem gerir ráð fyrir sál og líkama sem tveimur mismunandi verundum hefur átt mjög undir högg að sækja undanfarna áratugi, bæði innan heimspeki og hugfræða. Til er önnur gerð tvíhyggju, svokölluð eiginleikatvíhyggja, sem lifir enn innan þessara greina þótt hún sé vissulega minnihlutaskoðun. Samkvæmt eiginleikatvíhyggju er aðeins um eina gerð hluta eða verunda að ræða og sál eða hugur og líkami eru því ekki tveir aðskildir hlutir. Hins vegar hefur manneskjan tvær gerðir eiginleika, efnislega og andlega, sem eru eðlisólíkir. Eiginleikatvíhyggjan kemst hjá sumum þeim vandamálum sem fylgja hefðbundinni tvíhyggju, til dæmis gerir hún ekki ráð fyrir sjálfstæðu lífi sálarinnar og þarf því ekki að gera grein fyrir möguleikanum á því. Samt situr hún uppi með sama orsökunarvandann og hefðbundin tvíhyggja. Ein hugsanleg lausn á orsökunarvandanum er að segja að andlegir eiginleikar séu afurð heilaferlanna en hafi sem slíkir engin orsakaáhrif. Þeir eru þá það sem kallað er aukageta (e. epiphenomena). Kosturinn við þessa lausn er að ekki þarf lengur að hafa áhyggjur af því hvernig andleg ferli geti orsakað eitthvað efnislegt; þau hafa einfaldlega ekki orsakaáhrif. Gallinn er hins vegar sá að það virðist hreinlega ganga gegn almennri skynsemi að hugarferli hafi ekki orsakaáhrif. Jafnframt fylgja því ýmis vandkvæði að gera ráð fyrir eiginleikum án orsakaáhrifa. Hvernig getum við til dæmis orðið vör við þessa eiginleika ef þeir geta ekki verið orsök skynjunar okkar á þeim eða vitundar okkar um þá? Svarið við spurningunni er því að þáttur heilans í hugarferlum okkar skapar vissulega vandræði fyrir tvíhyggju um sál og líkama. Hins vegar er ekki útilokað að tvíhyggjusinnar geti leyst úr þeim vandræðum og þannig varið kenningu sína. Því er kannski óþarfi að útiloka möguleikann á sál sem sjáfstæðri verund þótt mörgum kunni að þykja hugmyndin ósennileg.
Hefðbundin tvíhyggja sem gerir ráð fyrir sál og líkama sem tveimur mismunandi verundum hefur átt mjög undir högg að sækja undanfarna áratugi, bæði innan heimspeki og hugfræða. Til er önnur gerð tvíhyggju, svokölluð eiginleikatvíhyggja, sem lifir enn innan þessara greina þótt hún sé vissulega minnihlutaskoðun. Samkvæmt eiginleikatvíhyggju er aðeins um eina gerð hluta eða verunda að ræða og sál eða hugur og líkami eru því ekki tveir aðskildir hlutir. Hins vegar hefur manneskjan tvær gerðir eiginleika, efnislega og andlega, sem eru eðlisólíkir. Eiginleikatvíhyggjan kemst hjá sumum þeim vandamálum sem fylgja hefðbundinni tvíhyggju, til dæmis gerir hún ekki ráð fyrir sjálfstæðu lífi sálarinnar og þarf því ekki að gera grein fyrir möguleikanum á því. Samt situr hún uppi með sama orsökunarvandann og hefðbundin tvíhyggja. Ein hugsanleg lausn á orsökunarvandanum er að segja að andlegir eiginleikar séu afurð heilaferlanna en hafi sem slíkir engin orsakaáhrif. Þeir eru þá það sem kallað er aukageta (e. epiphenomena). Kosturinn við þessa lausn er að ekki þarf lengur að hafa áhyggjur af því hvernig andleg ferli geti orsakað eitthvað efnislegt; þau hafa einfaldlega ekki orsakaáhrif. Gallinn er hins vegar sá að það virðist hreinlega ganga gegn almennri skynsemi að hugarferli hafi ekki orsakaáhrif. Jafnframt fylgja því ýmis vandkvæði að gera ráð fyrir eiginleikum án orsakaáhrifa. Hvernig getum við til dæmis orðið vör við þessa eiginleika ef þeir geta ekki verið orsök skynjunar okkar á þeim eða vitundar okkar um þá? Svarið við spurningunni er því að þáttur heilans í hugarferlum okkar skapar vissulega vandræði fyrir tvíhyggju um sál og líkama. Hins vegar er ekki útilokað að tvíhyggjusinnar geti leyst úr þeim vandræðum og þannig varið kenningu sína. Því er kannski óþarfi að útiloka möguleikann á sál sem sjáfstæðri verund þótt mörgum kunni að þykja hugmyndin ósennileg.