Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
John Amos Comenius, eða Jan Ámos Komenský eins og hann heitir á tékknesku, fæddist 28. mars 1592 í bænum Nivnice í Móravíu, sem tilheyrir nú Tékklandi en heyrði undir veldi Habsborgara á þeim tíma. Hann var þekktur trúarleiðtogi mótmælenda, en er frægastur fyrir að hafa bylt uppeldisfræðum samtímans og komið fram með ýmsar hugmyndir sem áttu stóran þátt í þróun uppeldis- og menntunarfræða.
Comenius var eina barn foreldra sinna sem létust þegar hann var 12 ára. Foreldrar hans voru meðlimir í hópi tékkneskra mótmælenda, Bæheimsku bræðranna, og Comenius tók virkan þátt í trúarlífi þess hóps alla ævi, á tíma þegar mótmælendur áttu erfitt uppdráttar í veldi Habsborgara. Hann gekk í skóla í Prerov og vakti athygli skólameistarans sem hvatti hann til að verða prestur. Comenius lærði til prests við háskólann í Heidelberg, þar sem hann las meðal annars verk Francis Bacons og varð fyrir áhrifum þúsund ára ríkistrúar. Comenius sneri heim, fullviss um að hægt væri að koma á fót þúsund ára sæluríki hér á jörðu með atbeina vísindanna.
Fyrir áhrif trúarinnar vildi Comenius bæta og breyta menntun barna og skrifaði nokkrar bækur þar um. Sú frægasta var Janua Linguarum Reserata (1631), Dyrum tungunnar lukið upp eins og þýða mætti titilinn, eins konar alfræðibók um heiminn bæði á latínu og tékknesku, ætluð ungum nemendum. Bókin hlaut góðar viðtökur og var þýdd á mörg evrópsk og asísk tungumál. Segja má að bókin hafi verið hlutgerving þeirrar hugmyndar Comeniusar að öll (evrópsk) börn hlytu menntun í latínu, menningu síns heimalands sem og menningu Evrópu, svo að þau gætu orðið þátttakendur í yfirþjóðlegu samfélagi vísinda, lærdóms og trúar.
Comenius þurfti að flýja heimabæ sinn ásamt trúbræðrum sínum og settist með nokkrum þeirra að í Leszno í Póllandi, árið 1628. Eftir útkomu Janua varð hann eftirsóttur víða um heim og ferðaðist til Englands, Frakklands og Ameríku. Hann þáði boð Svía um að skrifa röð námsbóka sem gætu hjálpað til við endurskipulagningu skóla þar í landi. Þar sá Comenius tækifæri á að koma á framfæri sinni eigin heimspeki, pansophy, eða alspeki, sem gekk út á útvíkkun lystarinnar, heildstæðni allra hluta og ánægjuna sem hægt er að ná út úr þeim með víðsýni og opnum huga.
Alspeki Comeniusar hlaut ekki góðar undirtektir í Svíþjóð en hins vegar var honum boðið til Ungverjalands til að stofna skóla byggðan á alspekinni, árið 1650. Sú tilraun féll um sjálfa sig, hvorki nemendur né kennarar náðu tökum á kennsluaðferðum Comeniusar. Hann sneri því aftur til Leszno en hafði þá gert tilbúið handrit að bókinni Orbis Sensualium Pictus, Hinn sýnilegi heimur í myndum. Comeniusi tókst raunar ekki að koma bókinni út fyrr en 1658, langan tíma tók að útbúa myndir fyrir hana, en hún varð vinsæl í Evrópu samfleytt í tvær aldir og fyrirmynd að gerð myndskreyttra fræðibóka.
Comenius flutti til Amsterdam þegar Leszno varð fyrir barðinu á enn einni styrjöldinni (þrjátíu ára stríðinu var nýlokið), þar sem hann bjó til dauðadags. Í Amsterdam safnaði hann saman ritum sínum í eitt safn, Didactia Opera Omnia, og reyndi að koma frá sér miklu verki, Consultation. Því náði hann ekki að fullklára og bað samstarfsmenn sína að ljúka verkinu eftir dauða sinn. Þeir hlýddu ekki og handritið týndist í 265 ár, þar til það fannst á munaðarleysingjahæli í Halle, Þýskalandi.
Comenius var á sínum tíma þekktastur fyrir umbætur í uppeldis- og menntamálum Evrópu. Áhrifa hans gætti þó líka í félagsmálum þótt hugmyndir hans hafi ekki átt miklu fylgi að fagna á 17. og 18. öld, tímum efnis- og nytjahyggju. Hugmyndir Comeniusar hlutu meiri hljómgrunn á 19. öld, sérstaklega í Þýskalandi. Hann sameinaði ýmsar hugmyndir sem áður töldust andstæður, alþjóðahyggju og þjóðerniskennd (hann var stoltur af tékkneskum uppruna sínum), vísindi og trú, og færði menntunina til æskunnar, til barna Evrópu.
Heimildir og myndir:
Unnar Árnason. „Hver var Comenius? Hvað gerði hann sögulegt?“ Vísindavefurinn, 7. mars 2003, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3211.
Unnar Árnason. (2003, 7. mars). Hver var Comenius? Hvað gerði hann sögulegt? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3211
Unnar Árnason. „Hver var Comenius? Hvað gerði hann sögulegt?“ Vísindavefurinn. 7. mar. 2003. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3211>.