Arnarhóll við Stífluá í landi Hvamms er trúlega eitt hinna fjölmörgu örnefna, sem geyma minningu um, að ernir hafa vakað yfir veiði í vatnsföllum og stöðuvötnum víðs vegar um land, áður en þeim fækkaði svo mjög, að við liggur, að þeim hafi verið gereytt.Nafnið Arnarhóll er til á nokkrum stöðum annars staðar á landinu. Bær í Neshreppi innan Ennis á Snæfellsnesi er nefndur Arnarhváll í Eyrbyggja sögu, nú Arnarhóll í Snæfellsbæ (Íslensk fornrit IV). Skammt frá Öxnafelli í Eyjafirði var Arnarhváll (Landnámabók, 253, 268), nú Arnarhóll, sem var á landamerkjum í landnámi Helga magra. Auk þess eru sex bæir að minnsta kosti nefndir Arnarhóll: 1) í Gaulverjabæjarhreppi í Árnessýslu, 2) í Sandgerði, 3) í Eyrarsveit á Snæfellsnesi, 4) í Presthólahreppi í Norður-Þingeyjarsýslu, 5) á Jökuldal á Norður-Héraði og 6) í Vestur-Landeyjum í Rangárvallasýslu. Örnefnið Arnarhóll kemur víða fyrir, til dæmis eru Arnarhólar nærri 20 talsins á Suðurlandi eingöngu. Sums staðar má finna Arnarhól nærri landamerkjum, stundum sem klappar- eða klettahól. Það leiðir hugann að því hlutverki sem tákn arnarins hafði ef til vill við setningu landamerkja, eins og þekkt er með öxina. Í Árnessýslu eru átta Arnar-örnefni á landamerkjum, þar af tvö hornmörk, Arnarhreysi og Arnardys. Á Þingvöllum er Arnarklettur á barmi Almannagjár og kann að hafa gegnt hlutverki sem landamerki. (Um þetta má lesa nánar í grein Helga Þorlákssonar, „Örn og öxi“, í tímaritinu Níu nóttum frá árinu 1993.)
Ekki er vitað hvenær Arnarhváll í Reykjavík varð sérstök jörð, en hún er nefnd Arnarhóll (einnig skrifað Annarhóll) 1534 (skráð um 1570, Íslenskt fornbréfasafn IX, 693-694). Bærinn Arnarhóll stóð nokkurn veginn þar sem nú er stytta Ingólfs. Land hans náði frá ósi Arnarhólslækjarins að Bankastræti á þá hlið og hefur Arnarhóll þá verið nærri mörkum móti Vík. Núverandi Skólavörðuholt var áður kennt við Arnarhól, nefnt Arnarhólsholt (Páll Líndal, Reykjavík: Sögustaður við Sund, 1. bindi. Sjá Kort 5 í 5. bindi sem Einar S. Arnalds og Guðlaugur R. Guðmundsson sáu um). Upphaflega nafnmyndin Arnarhváll hefur breyst í Arnarhvoll, samanber hljóðbreytinguna svá > svo, en víxlmyndin Arnarhóll er að minnsta kosti komin til sögu um 1570. Heimildir og myndir:
- Íslenskt fornbréfasafn, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 1857-
- Íslensk fornrit I. bindi, Jakob Benediktsson gaf út, Hið íslenska fornritafélag, Reykjavík 1986
- Íslensk fornrit IV. bindi, Einar Ól. Sveinsson og Matthías Þórðarson gáfu út, Hið íslenska fornritafélag, Reykjavík 1985
- Helgi Þorláksson, „Örn og öxi“, Níu nætur: Tímarit um heiðinn sið, Ásatrúarfélagið, Reykjavík 1993
- Páll Líndal, Reykjavík: Sögustaður við Sund, Örn og Örlygur, Reykjavík 1986-1989
- Þórhallur Vilmundarson, „Örnefni landsins, sem fór undir vatn í Stíflu: uppdráttur Páls Sigurðssonar“, Grímnir: rit um nafnfræði 2, Reykjavík 1983
- Vefkort.is. Sótt 6.3.2003.
- Wikipedia.com. Sótt 10.8.2010.