Einn fylgifiskur Down-heilkennis er skert frjósemi. Lengi vel var talið að karlar með Down-heilkenni væru með öllu ófrjóir. Í dag eru hins vegar þekkt örfá dæmi þess að karlar með litningagallann hafi feðrað börn, en þetta virðist þó heyra til algjörra undantekninga. Konur með Down-heilkennið hafa ekki jafn skerta frjósemi og karlar. Þó nokkur dæmi eru um að konur með litningagallann hafi orðið ófrískar og eignast börn en þó er mun algengara að slík frjóvgun endi með fósturláti. Ef meðgangan nær fram að ganga fylgir henni töluverð áhætta. Konur með Down-heilkenni þjást af ýmsum líkamlegum kvillum en tíðni hjarta-, skjaldkirtils- og lifrarsjúkdóma er há og einnig eru flogaköst algeng. Áhættan er einnig mikil fyrir fóstrið. Hjartagallar eru algengir og einnig er há tíðni andvana fæðinga og ungbarnadauða. Fyrirburafæðingar eru einnig algengar og fæðingarþyngd er venjulega lág. Það eru þó fleiri hættur sem fylgja því að fólk með Down-heilkenni eignist börn. Líkurnar á því að barnið verði einnig með Down-heilkenni þegar annað foreldrið er með litningagallann eru á bilinu 35-50%. Þessar líkur eru ennþá hærri ef báðir foreldrar eru með heilkennið. Einnig eru auknar líkur á því að barnið fæðist með andlega eða líkamlega fötlun. Einnig er vert að hafa í huga að greindarskerðing fólks með Down-heilkenni getur gert því erfitt fyrir að hugsa um og ala upp barn. Það er því nauðsynlegt að foreldrar með Down-heilkenni njóti mikils stuðnings og aðstoðar og séu undir góðu eftirliti. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Geta börn sem fæðast heilbrigð fengið Down-heilkenni?
- Er Down-heilkenni til hjá öllum kynþáttum?
- Hvað veldur Down-heilkenni og fötlun?
- Down's Syndrome Association
- Van Dyke, DC, McBrien, DM, Sherbondy, A. 1995. Issues of Sexuality in Down Syndrome. Down Syndrome Research and Practice, 3:2.
- Wikipedia Encyclopedia