Miðað við tölurnar hér að ofan tekur það 59 kg fiðluleikara 1 klukkustund og 25 mínútur að brenna 210 hitaeiningum sem er sú orka sem fæst úr hálfum lítra af kóki. Sami einstaklingur er um 1 klukkustund og 50 mínútur að brenna með fiðluleik þeim hitaeiningum sem eru í einu Snickers-súkkulaði (273 hitaeiningar) og 4 klukkutíma og 45 mínútur að brenna einum stórum McDonalds-ostborgara (704 hitaeiningar). Það er því rúmlega dagsverk að brenna hamborgara, kóki og súkkulaði í eftirmat með spilamennskunni einni saman. Til samanburðar má gera ráð fyrir að í tiltölulega rólegri klukkustundarlangri hjólaferð brenni þessi sami einstaklingur um eða yfir 235 hitaeiningum, á rólegu sundi í klukkustund brenni hann rúmlega 350 hitaeiningum og á nokkuð rólegu skokki (8 km/klst), sé orkunotkunin rúmlega 470 hitaeiningar. Fiðluleikarinn þarf því að spila í tæpar 2 ½ klukkustund til þess að brenna jafn miklu og hann myndi gera á rólegu sundi í klukkutíma. Miðað við þetta er fiðluleikur ekki vænlegasta leiðin til að grennast, léttar íþróttir krefjast mun meiri orkunotkunar og ættu því að skila meiri árangri. Hins vegar er öll hreyfing af hinu góða. Ef saman fer aðgát á hitaeiningainnihaldi fæðunnar og mikil iðjusemi fiðluleikarans má því gera ráð fyrir að smám saman missi hann einhver kíló. Með því að skoða heimildirnar hér fyrir neðan er hægt að fá nánari upplýsingar um það hversu mörgum hitaeiningum gera má ráð fyrir að brenna við ákveðnar athafnir. Hafa ber í huga að þessar tölur eru til viðmiðunar en ekki algildur sannleikur þar sem taka þarf tillit til ýmissa þátta, eins og til dæmis þyngdar einstaklinga og af hversu miklum ákafa verkin eru unnin. Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvers vegna verða sumir feitir þótt þeir borði alveg eins mat og þeir grönnu? eftir Magnús Jóhannsson
- Myndast nýjar fitufrumur þegar við fitnum? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hvað brennir mannslíkaminn að meðaltali mörgum hitaeiningum á dag? eftir Þuríði Þorbjarnardóttur
- Hver er munurinn á kolvetnum og kaloríum? eftir Þorstein Vilhjálmsson og Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hver eiga hlutföll fitu, kolvetnis og prótíns að vera í ráðlögðum dagskammti matar? eftir Dag Snæ Sævarsson
- Calories Burned Estimator á Health Status. Skoðað 10. 7. 2008.
- Calories Burned During Exercise á NutriStrategy. Skoðað 10. 7. 2008.
- Calorie-Count. Skoðað 10. 7. 2008.
- Mynd: Mail Online. Sótt 10. 7. 2008.