Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er gert til að koma í veg fyrir að ísbirnir deyi út?

Jón Már Halldórsson

Margt hefur verið gert til að vernda ísbirni eða hvítabirni (Ursus maritimus) síðastliðna hálfa öld. Fyrst má nefna að árið 1973 gerðu Bandaríkin, Kanada, Noregur, Danmörk og Sovétríkin með sér samkomulag um verndun hvítabjarna en náttúruleg heimkynni ísbjarna eru innan þessara ríkja.

Einnig hafa einstakar þjóðir sett kvóta á ísbjarnaveiðar eða friðað hvítabirni alveg. Til dæmis má nefna að hvítabirnir hafa verið alfriðaðir í Rússlandi síðan 1956. Á Grænlandi voru ýmsar hömlur settar á veiðar hvítabjarna árið 1994 en veiðar frumbyggja voru ótakmarkaðar til 2005. Þegar þetta er skrifað, árið 2008, er kvótinn á hvítabjarnaveiðum á Grænlandi 150 dýr.



Í löndum þar sem hvítabirnir eiga heimkynni hafa ýmist verið settir kvótar á veiðarnar eða dýrin alfriðuð.

Í Rússlandi og Noregi eru allar veiðar á hvítabjörnum bannaðar en talið er að veiðiþjófnaður hafi aukist mjög á rússneskum svæðum undanfarin ár. Rússnesk stjórnvöld eru ennfremur talin vera að undirbúa útgáfu á frumbyggjakvóta til frumbyggja Chukotka-héraðs í Norðaustur-Rússlandi.

Flestir hvítabirnir eru innan lögsögu Kanada. Undanfarin ár hefur heildarveiðin verið um 500 dýr og eru þá bæði taldar frumbyggja- og sportveiðar. Sportveiðar skapa umtalsverðar tekjur á svæðum frumbyggja bæði vegna veiðileyfa og atvinnu sem þeim fylgir, en samkvæmt hagtölum frá Kanada er talið að hvert veitt bjarndýr skapi um 35 þúsund Bandaríkjadali í samfélagi inúíta í Kanada eða rúmlega 2,7 milljónir króna. Flest veiðileyfi í Kanada, eða allt að 80%, eru gefin út á sjálfstjórnarsvæði frumbyggja, Nunavut. Árið 2005 var kvótinn hækkaður úr 400 í 518 dýr þrátt fyrir mótmæli vísindamanna sem telja að veiðarnar verði ekki sjálfbærar.

Á 7. áratug síðustu aldar var heimsstofn hvítabjarna sennilega um 12.000 dýr. Strax og hömlur voru settar á veiðar hans á flestum svæðum tóku stofnar þar við sér. Heimsstofninn er nú talinn vera á bilinu 20.000 til 25.000 dýr og hefur hann verið stöðugur undanfarinn áratug eða svo.

Nú er tilvist hvítabjarna hins vegar verulega ógnað á ný, ekki vegna veiða heldur vegna hnattrænna loftslagsbreytinga (hlýnunar). Áhrifin eru þegar komin fram með augljósum hætti hjá þeim stofnum sem lifa syðst á útbreiðslusvæði hvítabjarna til dæmis í vestanverðum Hudsonflóa í Kanada og í Beauforthafi við Alaska. Fæðutímabil hvítabjarna, það er sá tími sem þeir geta verið á lagnaðarísnum við selveiðar, hefur til dæmis styst. Við Hudsonflóa hafa afleiðingarnar af því meðal annars verið þær að fækkað hefur í stofninum um 22% frá 1980 til 2004. Einnig er meðalþyngd dýra minni núna en áður. Meðalþyngd birna á þessu svæði hefur til dæmis lækkað úr 290 kg í 230 kg síðustu tvo áratugi. Nánar er fjallað um afleiðingar hlýnandi loftslags á hvítabirni í svari sama höfundar við spurningunni Deyja hvítabirnir út ef ísinn á heimaslóðum þeirra bráðnar?



Í dag stafar hvítabjörnum líklega meiri ógn af hlýnandi loftslagi og mengun en veiðum.

Á fyrri hluta árs 2008 samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings að setja hvítabirni á lista yfir dýr í útrýmingarhættu (e. Endangered Species Act) og er hvítabjörninn aðeins þriðja tegundin sem fer inn á þennan lista vegna hlýnunar jarðar og breytinga á búsvæðum. Í samþykktinni er meðal annars kveðið á um bann við flutningi á afurðum hvítabjarna til Bandaríkjanna frá Kanada og er með því komið í veg fyrir að sportveiðimenn geti flutt inn “verðlaunin sín” úr veiðitúrum. Þetta eru miklar hömlur á veiðar í Kanada.

Ýmislegt hefur því verið gert til að vernda hvítabirni, sérstaklega með því að draga úr veiðum, enda óx stofninn um nærri 100% frá 1960 til 1990 eins og áður var sagt. En þær breytingar sem nú eiga sér stað á norðurhjaranum eru alvarleg ógn við tilvist hvítabjarna til lengri tíma og eru breytingar á háttalagi þeirra og líkamsástandi orðnar greinilegar eins og Íslendingar hafa óneitanlega orðið varir við sumarið 2008. Mun erfiðara og seinvirkara er að bregðast við þessum breytingum á vistkerfi hvítabjarna heldur en að taka á minnkun stofnsins vegna mikilla veiða og er alls óvíst hver framtíð ísbjarnarstofnsins verður.

Að lokum má nefna að ísbjörnum stafar hætta af fleiru en hlýnandi loftslagi og veiðum, því að vaxandi mengun getur einnig ógnað framtíð þeirra. Nánar er fjallað um það í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni?

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um ísbirni, til dæmis:

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

24.6.2008

Spyrjandi

Katrín Lárusdóttir, f. 1994
Þórhalla Mjöll Magnúsdóttir, f. 1994

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað er gert til að koma í veg fyrir að ísbirnir deyi út?“ Vísindavefurinn, 24. júní 2008, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=31896.

Jón Már Halldórsson. (2008, 24. júní). Hvað er gert til að koma í veg fyrir að ísbirnir deyi út? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=31896

Jón Már Halldórsson. „Hvað er gert til að koma í veg fyrir að ísbirnir deyi út?“ Vísindavefurinn. 24. jún. 2008. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=31896>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er gert til að koma í veg fyrir að ísbirnir deyi út?
Margt hefur verið gert til að vernda ísbirni eða hvítabirni (Ursus maritimus) síðastliðna hálfa öld. Fyrst má nefna að árið 1973 gerðu Bandaríkin, Kanada, Noregur, Danmörk og Sovétríkin með sér samkomulag um verndun hvítabjarna en náttúruleg heimkynni ísbjarna eru innan þessara ríkja.

Einnig hafa einstakar þjóðir sett kvóta á ísbjarnaveiðar eða friðað hvítabirni alveg. Til dæmis má nefna að hvítabirnir hafa verið alfriðaðir í Rússlandi síðan 1956. Á Grænlandi voru ýmsar hömlur settar á veiðar hvítabjarna árið 1994 en veiðar frumbyggja voru ótakmarkaðar til 2005. Þegar þetta er skrifað, árið 2008, er kvótinn á hvítabjarnaveiðum á Grænlandi 150 dýr.



Í löndum þar sem hvítabirnir eiga heimkynni hafa ýmist verið settir kvótar á veiðarnar eða dýrin alfriðuð.

Í Rússlandi og Noregi eru allar veiðar á hvítabjörnum bannaðar en talið er að veiðiþjófnaður hafi aukist mjög á rússneskum svæðum undanfarin ár. Rússnesk stjórnvöld eru ennfremur talin vera að undirbúa útgáfu á frumbyggjakvóta til frumbyggja Chukotka-héraðs í Norðaustur-Rússlandi.

Flestir hvítabirnir eru innan lögsögu Kanada. Undanfarin ár hefur heildarveiðin verið um 500 dýr og eru þá bæði taldar frumbyggja- og sportveiðar. Sportveiðar skapa umtalsverðar tekjur á svæðum frumbyggja bæði vegna veiðileyfa og atvinnu sem þeim fylgir, en samkvæmt hagtölum frá Kanada er talið að hvert veitt bjarndýr skapi um 35 þúsund Bandaríkjadali í samfélagi inúíta í Kanada eða rúmlega 2,7 milljónir króna. Flest veiðileyfi í Kanada, eða allt að 80%, eru gefin út á sjálfstjórnarsvæði frumbyggja, Nunavut. Árið 2005 var kvótinn hækkaður úr 400 í 518 dýr þrátt fyrir mótmæli vísindamanna sem telja að veiðarnar verði ekki sjálfbærar.

Á 7. áratug síðustu aldar var heimsstofn hvítabjarna sennilega um 12.000 dýr. Strax og hömlur voru settar á veiðar hans á flestum svæðum tóku stofnar þar við sér. Heimsstofninn er nú talinn vera á bilinu 20.000 til 25.000 dýr og hefur hann verið stöðugur undanfarinn áratug eða svo.

Nú er tilvist hvítabjarna hins vegar verulega ógnað á ný, ekki vegna veiða heldur vegna hnattrænna loftslagsbreytinga (hlýnunar). Áhrifin eru þegar komin fram með augljósum hætti hjá þeim stofnum sem lifa syðst á útbreiðslusvæði hvítabjarna til dæmis í vestanverðum Hudsonflóa í Kanada og í Beauforthafi við Alaska. Fæðutímabil hvítabjarna, það er sá tími sem þeir geta verið á lagnaðarísnum við selveiðar, hefur til dæmis styst. Við Hudsonflóa hafa afleiðingarnar af því meðal annars verið þær að fækkað hefur í stofninum um 22% frá 1980 til 2004. Einnig er meðalþyngd dýra minni núna en áður. Meðalþyngd birna á þessu svæði hefur til dæmis lækkað úr 290 kg í 230 kg síðustu tvo áratugi. Nánar er fjallað um afleiðingar hlýnandi loftslags á hvítabirni í svari sama höfundar við spurningunni Deyja hvítabirnir út ef ísinn á heimaslóðum þeirra bráðnar?



Í dag stafar hvítabjörnum líklega meiri ógn af hlýnandi loftslagi og mengun en veiðum.

Á fyrri hluta árs 2008 samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings að setja hvítabirni á lista yfir dýr í útrýmingarhættu (e. Endangered Species Act) og er hvítabjörninn aðeins þriðja tegundin sem fer inn á þennan lista vegna hlýnunar jarðar og breytinga á búsvæðum. Í samþykktinni er meðal annars kveðið á um bann við flutningi á afurðum hvítabjarna til Bandaríkjanna frá Kanada og er með því komið í veg fyrir að sportveiðimenn geti flutt inn “verðlaunin sín” úr veiðitúrum. Þetta eru miklar hömlur á veiðar í Kanada.

Ýmislegt hefur því verið gert til að vernda hvítabirni, sérstaklega með því að draga úr veiðum, enda óx stofninn um nærri 100% frá 1960 til 1990 eins og áður var sagt. En þær breytingar sem nú eiga sér stað á norðurhjaranum eru alvarleg ógn við tilvist hvítabjarna til lengri tíma og eru breytingar á háttalagi þeirra og líkamsástandi orðnar greinilegar eins og Íslendingar hafa óneitanlega orðið varir við sumarið 2008. Mun erfiðara og seinvirkara er að bregðast við þessum breytingum á vistkerfi hvítabjarna heldur en að taka á minnkun stofnsins vegna mikilla veiða og er alls óvíst hver framtíð ísbjarnarstofnsins verður.

Að lokum má nefna að ísbjörnum stafar hætta af fleiru en hlýnandi loftslagi og veiðum, því að vaxandi mengun getur einnig ógnað framtíð þeirra. Nánar er fjallað um það í svari sama höfundar við spurningunni Hvernig er mengun í hafinu farin að hafa áhrif á ísbirni?

Á Vísindavefnum eru fleiri svör um ísbirni, til dæmis:

Heimildir og myndir: