Í Rússlandi og Noregi eru allar veiðar á hvítabjörnum bannaðar en talið er að veiðiþjófnaður hafi aukist mjög á rússneskum svæðum undanfarin ár. Rússnesk stjórnvöld eru ennfremur talin vera að undirbúa útgáfu á frumbyggjakvóta til frumbyggja Chukotka-héraðs í Norðaustur-Rússlandi. Flestir hvítabirnir eru innan lögsögu Kanada. Undanfarin ár hefur heildarveiðin verið um 500 dýr og eru þá bæði taldar frumbyggja- og sportveiðar. Sportveiðar skapa umtalsverðar tekjur á svæðum frumbyggja bæði vegna veiðileyfa og atvinnu sem þeim fylgir, en samkvæmt hagtölum frá Kanada er talið að hvert veitt bjarndýr skapi um 35 þúsund Bandaríkjadali í samfélagi inúíta í Kanada eða rúmlega 2,7 milljónir króna. Flest veiðileyfi í Kanada, eða allt að 80%, eru gefin út á sjálfstjórnarsvæði frumbyggja, Nunavut. Árið 2005 var kvótinn hækkaður úr 400 í 518 dýr þrátt fyrir mótmæli vísindamanna sem telja að veiðarnar verði ekki sjálfbærar. Á 7. áratug síðustu aldar var heimsstofn hvítabjarna sennilega um 12.000 dýr. Strax og hömlur voru settar á veiðar hans á flestum svæðum tóku stofnar þar við sér. Heimsstofninn er nú talinn vera á bilinu 20.000 til 25.000 dýr og hefur hann verið stöðugur undanfarinn áratug eða svo. Nú er tilvist hvítabjarna hins vegar verulega ógnað á ný, ekki vegna veiða heldur vegna hnattrænna loftslagsbreytinga (hlýnunar). Áhrifin eru þegar komin fram með augljósum hætti hjá þeim stofnum sem lifa syðst á útbreiðslusvæði hvítabjarna til dæmis í vestanverðum Hudsonflóa í Kanada og í Beauforthafi við Alaska. Fæðutímabil hvítabjarna, það er sá tími sem þeir geta verið á lagnaðarísnum við selveiðar, hefur til dæmis styst. Við Hudsonflóa hafa afleiðingarnar af því meðal annars verið þær að fækkað hefur í stofninum um 22% frá 1980 til 2004. Einnig er meðalþyngd dýra minni núna en áður. Meðalþyngd birna á þessu svæði hefur til dæmis lækkað úr 290 kg í 230 kg síðustu tvo áratugi. Nánar er fjallað um afleiðingar hlýnandi loftslags á hvítabirni í svari sama höfundar við spurningunni Deyja hvítabirnir út ef ísinn á heimaslóðum þeirra bráðnar?
Á Vísindavefnum eru fleiri svör um ísbirni, til dæmis:
- Hvað eru margir ísbirnir á Grænlandi?
- Ísbirnir eru af bjarnarætt en hver er ættkvísl þeirra?
- Gæti ísbjörn synt frá Grænlandi til Íslands?
- Jon Aars, Nicholas J. Lunn and Andrew E. Derocher (ritstj.) 2006. Proceedings of the 14th Working Meeting of the IUCN/SSC Polar Bear Specialist Group 20–24 June 2005, Seattle, Washington, USA. IUCN, Gland, Switzerland og Cambridge, UK. Skoðað 20. 6. 2008.
- Polar bear á Wikipedia. Skoðað 20. 6. 2008.
- Mynd af veiðimanni og hvítabirni: Outdoor Connection. Sótt 23. 6. 2008.
- Mynd af hvítabirni á gangi: JuneauEmpire.com. Sótt 23. 6 .2008.