- Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig fyrsti maðurinn var á litinn? Var hann hvítur, svartur, gulur eða hvað? (Dóra Þórhallsdóttir)
- Af hverju voru menn til í öllum álfum þegar menn voru ekki farnir að ferðast, og samt erum við öll eiginlega eins? (Guðrún Andrea Friðgeirsdóttir)
Yfirleitt er nú talið að fyrstu mennirnir hafi komið fram í Afríku og því er líklegt að þeir hafi verið það sem við á Íslandi köllum svartir. Erfðafræðin virðist gefa sameiginlegan uppruna í Afríku til kynna eins og staðan er nú. Breytileiki á húðlit manna er raunar lítið atriði miðað við hvað við erum öll lík á annan hátt. Það stafar annars vegar af því að tegundin er ung miðað við tímalengd milli kynslóða og hins vegar af blöndun innan stofnsins með þjóðflutningum og öðrum slíkum hreyfingum.