nota þér (og samsvarandi eignarfornafn) ásamt fleirtölu hlutaðeigandi sagnar við einn viðmælanda í stað þú vegna þess að menn þekkjast lítið, í viðurkenningarskyni, eða til viðurkenningar á mismun í aldri, samfélagsstöðu o.s.frv. (hvarf að mestu úr notkun í talmáli á síðari hluta 20. aldar).Þetta er ekki upphafleg notkun persónufornafnanna vér, þér og eignarfornafnanna vor, yðar heldur voru þetta fleirtölumyndir fornafnanna. Ef átt var aðeins við tvo var notuð svokölluð tvítala, við, þið, okkar, ykkar. Í fornsögunum er því ekki verið að þéra þegar talað er til hóps með fornafninu þér heldur voru viðmælendurnir fleiri en tveir. Smám saman lagðist af að greina á milli tveggja og fleiri en tveggja. Tvítölumyndirnar við, þið, okkar, ykkar tóku við hlutverki fleirtölunnar en gömlu fleirtölumyndirnar vér, þér, vor, yðar fengu það hlutverk sem orðabókin lýsti. Af þessu má sjá að það sem við nú köllum þéringar tíðkaðist ekki í málinu frá upphafi. Allt fram undir lok síðustu aldar tíðkaðist bæði í kaupstöðum og til sveita að tala til ókunnugra í þriðju persónu í kurteisisskyni. Þá var til dæmis sagt og persónan ávörpuð beint: ,,Má bjóða manninum/honum meira kaffi“ eða ,,Vill maðurinn/hann meira kaffi“. Þetta heyrist varla lengur. Í Norðurlandamálum þekkjast þéringar vel þótt þær séu almennt á undanhaldi. Þær eru vel lifandi í þýsku og frönsku og fleiri Evrópumálum.
Mjög er ólíkt eftir málaættum hvernig kurteisisform eru táknuð. Japanar nota til dæmis til þess sérstök viðskeyti, fornöfn, orðasambönd og sérstakar sagnmyndir, Kínverjar nota einnig sérstakt kerfi fornafna og bæði for- og viðskeyti. Í indverskum málum eru notuð sérstök fornöfn og forskeyti. Enn önnur tungumál nýta sér sérstakar sagnir, nafnorð eða jafnvel upphrópanir. Tungumál heimsins eru ótalmörg og ólík og er því ekki hér unnt að svara því hvort þau notist öll við einhvers konar „þéringar“. Gera má ráð fyrir að í flestum þeirra sé unnt að ávarpa yfirvaldið á sérstakan upphafinn hátt. Mynd: Upprunalega hljóðuðu spurningarnar svona:
Hvaða hlutverki gegna þéringar í tungumálum? Eru til þéringar í öllum tungumálum og hafa þær alltaf verið til? Hvenær lögðust þéringar af á Íslandi?