Hvað er talið að mörg ljón séu eftir í Afríku sem búa í villtri náttúru? Er þeim að fjölga eða fækka? Hvað um tígrisdýr?Líffræðingar telja að í Afríku séu á bilinu 30–100 þúsund villt ljón (Panthera leo). Útbreiðsla þeirra er aðallega bundin við austur- og suðurhluta álfunnar. Aðeins rúmlega 300 dýr eru eftir af asíuljóninu (Panthera leo persica) og einskorðast sá stofn við Gir-verndarsvæðið á Austur-Indlandi.
Sums staðar í Afríku, til dæmis í vestanverðri álfunni (svo sem í Kamerún), hefur ljónum fækkað upp á síðkastið. Þar lifa mörg ljón utan þjóðgarða og verndarsvæða og eru þau oft skotin, eða eitrað fyrir þeim, þar sem þau eiga það til að ráðast á búpening. Strangt til getið eru ljónin friðuð en erfitt er að viðhalda eftirliti á afskekktum svæðum víða í Afríku. Á verndarsvæðum eru stofnarnir stöðugir nú um stundir. Á heildina séð er ekki gott að segja hvernig heildarstofnstærð ljóna mun þróast en á undanförnum 30 árum hefur villtum ljónum fækkað nokkuð vegna búsvæðaröskunnar. Helsta ógn ljóna (og annarra stórra rándýra) er fólksfjölgun sem er mikil í Afríku. Vegna hennar þrengir mjög að ljónum og að öllum líkindum á þeim eftir að fækka nokkuð fram eftir 21. öldinni. Á sögulegum tímum lifðu ljón mun víðar, meðal annars um alla suðvestur-Asíu, Norður-Afríku og í Evrópu. Þeim var útrýmt af stórum svæðum með veiði og ofsóknum. Tígrisdýr eru í mun meiri útrýmingarhættu og telja líffræðingar að nú séu aðeins um 5.000 dýr eftir villt í austanverðri Asíu. Fyrir einni öld voru tígrisdýrin um 100 þúsund og hefur þeim fækkað mjög hratt og reglulega á þessum 100 árum. Ekki er ljóst hvert þessi þróun stefnir en nokkrum deilitegundum hefur fækkað svo mikið að þeim verður nánast vart bjargað úr þessu, til dæmis suður-kínverska tígrisdýrinu (Panthera tigris amoyensis) sem telur nú aðeins um 20-30 dýr. Flest tígrisdýr tilheyra Bengal-deilitegundinni (Panthera tigris tigris) og hefur þeim fækkað síðastliðin 20 ár og telja nú á bilinu 3.500-3.700 dýr. Villtum tígrisdýrum fer þess vegna fækkandi þó að menn hafi víða náð árangri í svæðisbundinni verndun, svo sem í Síberíu. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hverjir eru vinir og óvinir ljónsins? eftir Jón Má Halldórsson
- Surgical Elective in Rural Africa á vefsetri Brownháskólans