Þessu getur eiginlega enginn svarað nema andinn sjálfur. Skapferli anda er mjög mismunandi eftir því sem við höfum heyrt og má því búast við að þeir mundu bregðast mjög misjafnlega við þessu. Sumir andar eru strangir og kannski geðvondir, hafa jafnvel sofið illa síðustu nótt (við höldum að andar sofi á nóttunni, að minnsta kosti sumir). Svona andar mundu segja sem svo að spyrjandi væri að svindla; þegar andinn bauð þrjár óskir þá hafi hann meint þrjár óskir. Mjög viðskotaillir andar gætu átt það til að refsa spyrjanda fyrir ýtni og heimtufrekju og taka af honum óskirnar. Svo eru aðrir andar sem eru léttlyndari (sem betur fer) og ekki eins formfastir. Þeir mundu segja að engin rökfræði mæli gegn þessu og jafnvel benda á að ekkert sé á móti því að í hverri ósk séu svo og svo margar undiróskir. Þannig mætti hafa 33 undiróskir í þeirri fyrstu og í annarri óskinni en 34 í þeirri þriðju, og þá væru komnar 100 undiróskir. Undiróskafræði er mikilvæg fræðigrein í fræðaheimi þessara anda og ein undirgrein hennar fjallar síðan einmitt um undirundiróskir. Lesandinn er sjálfsagt búinn að átta sig á hvers konar fyrirbæri það er. En við ráðleggjum spyrjanda sem sagt að reyna að grafast fyrir um skapferli andans sem um er að tefla og kanna hvernig liggur á honum, áður en hann fer út í það að nefna óskina um 100 óskir. Þannig má til dæmis spyrja andann hvort hann sé endurskoðandi og jákvætt svar við því gæfi til kynna vilja andans til að endurskoða fjölda óska. Andi sem er fús til að hlusta á málflutning óskandans sem vill fleiri óskir er líka kallaður hlustandi. Til að komast að því á kurteislegan hátt hvort andinn er erfiður í skapi má hins vegar spyrja hann hvort hann sé skapandi.
Þessu getur eiginlega enginn svarað nema andinn sjálfur. Skapferli anda er mjög mismunandi eftir því sem við höfum heyrt og má því búast við að þeir mundu bregðast mjög misjafnlega við þessu. Sumir andar eru strangir og kannski geðvondir, hafa jafnvel sofið illa síðustu nótt (við höldum að andar sofi á nóttunni, að minnsta kosti sumir). Svona andar mundu segja sem svo að spyrjandi væri að svindla; þegar andinn bauð þrjár óskir þá hafi hann meint þrjár óskir. Mjög viðskotaillir andar gætu átt það til að refsa spyrjanda fyrir ýtni og heimtufrekju og taka af honum óskirnar. Svo eru aðrir andar sem eru léttlyndari (sem betur fer) og ekki eins formfastir. Þeir mundu segja að engin rökfræði mæli gegn þessu og jafnvel benda á að ekkert sé á móti því að í hverri ósk séu svo og svo margar undiróskir. Þannig mætti hafa 33 undiróskir í þeirri fyrstu og í annarri óskinni en 34 í þeirri þriðju, og þá væru komnar 100 undiróskir. Undiróskafræði er mikilvæg fræðigrein í fræðaheimi þessara anda og ein undirgrein hennar fjallar síðan einmitt um undirundiróskir. Lesandinn er sjálfsagt búinn að átta sig á hvers konar fyrirbæri það er. En við ráðleggjum spyrjanda sem sagt að reyna að grafast fyrir um skapferli andans sem um er að tefla og kanna hvernig liggur á honum, áður en hann fer út í það að nefna óskina um 100 óskir. Þannig má til dæmis spyrja andann hvort hann sé endurskoðandi og jákvætt svar við því gæfi til kynna vilja andans til að endurskoða fjölda óska. Andi sem er fús til að hlusta á málflutning óskandans sem vill fleiri óskir er líka kallaður hlustandi. Til að komast að því á kurteislegan hátt hvort andinn er erfiður í skapi má hins vegar spyrja hann hvort hann sé skapandi.