Í 7. hluta samningsins er fjallað um úthafið, sem er skilgreint sem allir hlutar hafsins „sem teljast ekki til sérefnahagslögsögu, landhelgi né innsævis ríkis ellegar eyjaklasahafs eyjaklasaríkis“. Hnykkt er á því að úthafið sé opið öllum ríkjum hvort sem þau eru strandríki eða landlukt ríki, að úthafið skuli eingöngu notað í friðsamlegum tilgangi og að ekkert ríki geti með réttu krafist þess að hluti úthafsins verði felldur undir fullveldisrétt sinn. Kveðið er á um reglur um þjóðerni skipa og fána þeirra, skyldu til að veita aðstoð þeim sem eru í neyð. Þá er sett bann við þrælaflutningi auk þess sem ýmsar reglur eru um sjórán og skyldu ríkja til að starfa saman að svo miklu leyti sem unnt er við að bæla niður sjórán og margt fleira. Veiðar á úthafinu eru heimilar, samkvæmt sáttmálanum, en í samræmi við samningsbundnar skyldur ríkjanna. Ekki er kveðið á um það í sáttmálanum hvernig heildarafli er ákvarðaður eða honum úthlutað, heldur er gert ráð fyrir að ríki leysi málin sín á milli. Samkvæmt 119. gr. samningsins skulu ríkin við ákvörðun leyfilegs heildarafla og við aðrar verndunarráðstafanir:
gera ráðstafanir sem miða að því, á grundvelli bestu vísindalegu niðurstaðna sem hlutaðeigandi ríkjum eru tiltækar, að stofnum nýttra tegunda sé haldið í eða komið aftur upp í stærð sem getur gefið af sér hámarkslangtímaafla, með þeim takmörkunum sem felast í viðkomandi umhverfis- og efnahagsaðstæðum, m.a. sérþörfum þróunarríkja, og skal hafa hliðsjón af veiðiháttum, innbyrðis tengslum stofna og almennt viðurkenndum alþjóðlegum lágmarksreglum hvort sem þær ná til undirsvæðis, svæðis eða heimsins;Og ennfremur segir í sömu grein að ríkin skuli:
taka tillit til áhrifa þeirra á tegundir sem eru tengdar eða háðar nýttum tegundum svo að stofnum þessara tengdu eða háðu tegunda sé haldið ofan við eða komið aftur upp fyrir mörk þar sem viðkomu þeirra kann að verða alvarlega ógnað.Heimildir:
- Réttur strandríkja til landgrunns samkvæmt þjóðarétti. Dagný Rut Haraldsdóttir. Háskólinn á Akureyri. Félagsvísinda- og lagadeild. Lögfræði. 2007.
- Sport Fishing Aboard the Patty-J. Sótt 5.5.2009.