Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Kveikjarinn kom fyrst fram árið 1823 en eldspýtan eins og við þekkjum hana í dag, nokkrum árum seinna.
Áhöld sem líkjast eldspýtunni hafa hins vegar verið til í aldaraðir. Til dæmis er vitað að árið 577 e.Kr. notuðu konur við hirð norður Qi-ríkisins í Kína lítil prik með brennisteini á endanum til þess að kveikja elda til upphitunar og matargerðar.
Fyrsta „núnings“ eldspýtan kom hins vegar ekki til sögunnar fyrr en á 19. öld. Þar var að verki enski efnafræðingurinn John Walker en hann komst að því að með því að húða enda á lítilli spýtu með ákveðinni efnablöndu sem síðan var látin þorna var hægt að kveikja eld með því að strjúka eða slá spýtunni við eitthvað. Sá galli var þó að eldspýturnar lyktuðu mjög illa. Þann 7. apríl 1827 seldi Walker fyrstu eintökin af þessum eldspýtum sínum. Hann hagnaðist þó ekki mikið á uppfinningunni.
Eldspýtur svipaðar þeim sem við þekkjum í dag hafa verið til í eina og hálfa öld.
Árið 1830 fann Frakkinn Charles Sauria leið til þess að losna við lyktina með því að nota fosfór í haus spýtunnar. Þessar eldspýtur urðu afar vinsælar en þær þurfti að geyma í loftþéttum umbúðum til að halda lengri líftíma. Árið 1855 fékk Svíinn J. E. Lundström einkaleyfi á svokölluðum öryggiseldspýtum eins og algengar eru í dag þar sem kveikiefnin eru bæði á eldspýtunni og strokfletinum. Nánar má lesa um sögu eldspýtunnar í svar við spurningunni Hvenær var eldspýtan fundin upp?
Fyrsti kveikjarinn var fundinn upp af þýska efnafræðingnum Johann Wolfgang Döbereiner árið 1823 og var þessi tegund kveikjara framleidd til ársins 1880. Þróun kveikjara fór á verulegt skrið á tímum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hermenn notuðu eldspýtur til að sjá í myrkri en þær höfðu þann ókost að gefa tiltölulega mikinn blossa þegar á þeim var kveikt. Kveikjarinn virtist lausnin á þessum vanda þar sem hann gefur ekki frá sér sama blossa í upphafi en ljósið lifir samt í lengri tíma en eldspýtan.
Zippó-kveikjarinn hefur ákveðinn virðingarsess innan "kveikjaraheimsins".
Hinn vinsæli Zippó kveikjari kom til sögunnar á 4. áratug síðustu aldar og var með fyrstu dæmum um vökvakveikjara. Zippó-kveikjarar voru mikið seldir til bandarískra hermanna á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og náðu smám saman útbreiðslu um heiminn þannig að þeir urðu nokkurs konar staðalímynd kveikjara.
Með þróun ódýrari bútan-kveikjara á síðar hluta tuttugustu aldarinnar varð kveikjarinn ekki eins mikil langtímaeign eða hluti af ímynd eða tísku heldur frekar eitthvað sem fólk notaði í ákveðinn tíma og henti svo.
Heimildir og myndir:
Magnús Ágúst Magnússon. „Hvort kom á undan eldspýtan eða kveikjarinn?“ Vísindavefurinn, 16. júní 2009, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=31241.
Magnús Ágúst Magnússon. (2009, 16. júní). Hvort kom á undan eldspýtan eða kveikjarinn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=31241
Magnús Ágúst Magnússon. „Hvort kom á undan eldspýtan eða kveikjarinn?“ Vísindavefurinn. 16. jún. 2009. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=31241>.