Myndhöggvarinn Bertel Thorvaldsen (1770-1844) gerði skírnarfontinn í Dómkirkjunni í Reykjavík. Thorvaldsen var sonur íslensks myndhöggvara, Gottskálks Thorvaldsen, og átti danska móður, Karen Dagnes. Því stendur slagurinn milli Íslendinga og Dana hvorum hann tilheyrir. Líklegt er að Thorvaldsen hafi sjálfur talið sig til beggja þjóðerna þó að hann hafi fæðst í Kaupmannahöfn. Hann ánafnaði Kaupmannahafnarborg verk sín fyrir Thorvaldsensafnið, en skírnarfontinn gaf hann Dómkirkjunni til að heiðra íslenskt faðerni sitt. Skírnarfonturinn á sér þrjá fyrirrennara í listasögu Bertels Thorvaldsens. Hinn fyrsta gerði hann árin 1805-7/8 og hann er að finna í Hallarkirkjunni í Brahe-Trolleborg á Fjóni. Sá fontur var sýndur í Danmörku áður en hann var settur í kirkjuna og vakti mikla athygli á list Thorvaldsens. Annan fontinn gerði Thorvaldsen eftir að honum datt í hug að gefa Íslandi slíkan grip, líklega árið 1827. Líta má á hann sem prufusmíð, úr brenndum leir, en hann er nú í þýsku mótmælendakirkjunni í Róm. Þriðji fonturinn er úr marmara, frá sama ári, og var líklega ætlað að fara til Íslands. En Thorvaldsen seldi fontinn sem á endanum fann sér stað í Heilagsandakirkjunni á Strikinu í Kaupmannahöfn. Fjórði fonturinn komst alla leið til Íslands árið 1839, frá Kaupmannahöfn en þangað hafði Thorvaldsen sent hann frá Róm þar sem hann starfaði. Gleymst virðist hafa að senda fontinn áfram því til Kaupmannahafnar kom hann 1833 og þurfti Thorvaldsen að skrifa rentukammerinu sérstaklega til að koma fontinum áleiðis. Svo ber þess að geta að til er fontur úr gifsi, varðveittur í Thorvaldsensafninu í Kaupmannahöfn. Skírnarfontur Thorvaldsens þykir merkasti gripur Dómkirkjunnar í Reykjavík. Hann var vígður 14. júlí árið 1839 og silfurskálin sem fylgir honum hefur verið notuð frá upphafi.
Heimildir og myndir:
- Málverk af Bertel Thorvaldsen af vefsetri Thorvaldsenssafnsins í Kaupmannahöfn
- Mynd og saga skírnarfontsins á vefsetri Dómkirkjunnar í Reykjavík
- Æfi- og listsaga Thorvaldsens á vefsetri Listasafns Íslands
- Mynd af skírnarfontinum á vefsetri Thorvaldsensfélagsins