Til eru margar tegundir af köngulóm og því er ekki þess að vænta að vefur þeirra sé allur eins. Sjálfsagt er það ein ástæðan til þess að heimildum ber ekki alveg saman um þessa hluti. En með þetta í huga verður hér aðeins gefin gróf hugmynd eða dæmi um massa köngulóarvefs. Slíkt er raunar oft gert í vísindum, til dæmis þegar upplýsingar eru af skornum skammti. Er þá stundum talað um stærðarþrep (e. order of magnitude). Þegar við segjum til að mynda að stærðarþrep einhverrar tölu sé 100, þá er átt við rétta talan gæti vel verið 20 eða 400 en hins vegar sé ólíklegt að hún sé 2 eða 4000. Algengt mun vera að þvermál köngulóarvefs sé í stærðarþrepinu 0,1-1 míkrómetri (mm) en einn mm er einn milljónasti úr metra. Massi tuttugu metra af slíkum vef er minni en 1 millígramm (mg). Það samsvarar því að eðlismassi efnisins í vefnum sé um 1-10 kg á lítra, sem hljómar ekki ótrúlega. Þar sem ummál jarðar er um 40.000 km þýðir þetta að massi þráðar sem næði kringum jörðina væri í stærðarþrepinu
40.000 km/(20 m/mg) = 2.000.000 mg = 2 kgÞess má geta að efnið í köngulóarvefnum hefur mjög mikinn togstyrk miðað við efnismagn. Slíkur styrkur er mældur í einingu sem nefnist dernier og er til dæmis oft tilgreindur fyrir tvinna. Styrkurinn 1 dernier samsvarar því að þráður úr efninu geti haldið uppi 9.000 metrum af sjálfum sér án þess að slitna. Styrkur köngulóarvefs er um 5-8 dernier og hann getur því haldið uppi 40-70 km af sjálfum sér. Það eru helst nælon og gler sem eru sambærileg eða sterkari að þessu leyti, en styrkur stáls er aðeins um 3 dernier. Heimildir: "Spider (arthropod)," Microsoft® Encarta® Online Encyclopedia 2002 http://encarta.msn.com © 1997-2002 Microsoft Corporation. Öll réttindi áskilin. Vefsetur Ed Nieuwenhuys í Hollandi um köngulær